Sigurður Már Jónsson blaðamaður spyr Ólaf Sigurgeirsson lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum út í grein norsku prófessorana og gildi hennar á Facebooksíðu sinni.
„Þessi grein eftir norsku prófessorana Erik Slinde og Harald Kyvi birtist í Morgunblaðinu í dag. Nú er mikið talað um eldislax og skaðsemi hans fyrir lífríkið og „heimildarmynd“ þar um væntanleg. En prófessorarnir segja að þó að vísindamenn hafi kortlagt erfðamengi laxins og birt niðurstöðuna í hinu virta vísindatímariti Nature þá hafi þeir ekki fundið nein „eldislaxagen“. Stenst þetta Ólafur Sigurgeirsson?“ spyr Sigurður Már.
Ólafur svarar Sigurði með ítarlegum skýringum:
„Nú opnaðir þú krana Sigurður Már Jónsson. Auðvitað eru ekki til nein eldislaxagen. Kynbætur snúast um að hafa áhrif á tíðni genasamsæta (allela -eins og Atli Konráðsson nefnir).Kynbætur á norskum laxi hafa staðið í 12 kynslóðir (frá 1971). Þær hafa snúist um að velja fyrir arfgengum eiginleikum sem sóst er eftir í eldi (t.d. vaxtarhraða en gegn snemmkynþroska) -og þar með haft áhrif á genatíðni.
En umhverfið hefur einnig umtalsverð áhrif á tjáningu og virkni gena, og það er að koma sífellt betur í ljós. Það leiðir til þess að eftir svona langvarandi kynbætur er eldislax orðinn húsdýr sem hefur lítinn möguleika á að lifa af og fjölga sér í villtri náttúru. Að fæðast og alast upp í eldisstöð hefur einnig áhrif á tjáningu gena. Þess vegna er hættan á erfðablöndun hverfandi- en út blásin meðal trúarhópa. Þeir eru einnig til innan vísindasamfélagsins.
Nú eru einnig að koma fram rannsóknir sem sýna að það sé líklega ofmælt að hver laxveiðiá hafi sinn eigin stofn (sem er auðvitað áfall fyrir hina „þjóðernisrómantísku“. Í greininni hér að ofan er nefnt að „villugöngur“ (sem er rangnefni – yfir streying- enda nauðsynlegt til að viðhalda erfðabreytileika í ánum) séu oft um 5%.
Ný ransókn frá Skotlandi-með merkingum seiða, sýndi að 30% laxins í ánni Dee var ekki borinn þar. Í samantekt Árna Ísaksonar um hafbeit voru villugöngur stundum 20%. Önnur ný norsk rannsókn sýnir að laxinn þar samanstendur af 2 megin metapoppulassjónum og síðan megi sjá ákveðna greiningu í 13 grúppur. Það er því mikil náttúruleg blöndun á erfðaefni milli vatnasvæða. Þetta grefur undan fyrri ályktunum um að mikil erfðablöndun hafi orðið í 2/3 norskra laxveiðiáa af völdum eldisfisks-enda engin eldisgen til!.
Náttúruvalið er sífellt að störfum. Höfum í huga að aðeins 1 hrogn af 1000 nær að vaxa upp og koma síðan til baka til hrygningar. Það er engin smávegis þvottavél. Þó við viljum auðvitað ekki að eldisfiskar séu að þvælast upp í árnar sér náttúran um að hreinsa þá út. Rannsóknir sýna að ef kynþroska eldislax fer upp í á eru líkur á þáttöku hans í hrygningu um 1-3% hjá hængum og um 30% hjá hrygnum. Þessi hávaði stangveiðimanna er því aðallega hávaði,-byggður á röngum misskilningi!“ segir Ólaf Sigurgeirsson lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum í svari sínu á Facebook.