Verðmæti afurða úr Berufirði 6,4 milljarða króna

Fiskeldi Austfjarða hefur gengið frá kaupum á hátækni fóðurskipi frá Steinsvik í Noregi. Um er að ræða fullkomnustu gerð fóðurskips sem framleidd eru og getur skipið tekið á móti allt að 600 tonnum af fóðri og fóðrað 16 kvíar í einu. Þetta er stór fjárfesting á Austfjörðum en kaupverð skipsins er 370 milljónir króna auk þess sem fjárfest hefur verið í háþróuðu myndavélakerfi fyrir 53 milljónir króna, samtals fjárfesting í fiskeldisbúnaði fyrir 423 milljónir króna.

Umhverfisvænt og öruggt

Ný myndavélatækni bætir öryggi og eftirlit í kvíum, hægt er að fylgjast enn betur með með fiskum, fóðrun, netum og búnaði.   Hönnun skipsins er afar merkileg og hafa sambærileg skip nú þegar gefið góða reynslu í Noregi. Skipin eru sérstaklega umhverfisvæn í rekstri og örugg en þau uppfylla skilyrði um mikla ölduhæð. Smíði nýja fóðurskipsins er langt komin og áætlanir gera ráð fyrir að skipið verði tengt við kvíar á nýju eldissvæði í Berufirði um mitt sumar en þar mun það fóðra 1,8 milljónir seiða.

Verðmætar afurðir úr Berufirði

Á svæðinu verða framleitt 10.000 tonn af laxi næstu 2 árin en útflutningsverðmæti afurðanna úr Berufirði er áætlað að muni nema 6,4 milljörðum króna. „Með nýjustu tækni náum við að hámarka fóður nýtingu og þannig að lágmarka álag á umhverfið. Eldistími fisksins í sjónum mun styttast töluvert sem er mjög jákvæð þróun,“ segir Guðmundur Gíslason stjórnarformaður Fiskeldis Austfjarða. Gamla fóðurskipið Stapey, áður Haraldur Böðvarsson hefur verið fjarlægður og fluttur til niðurrifs hjá sérhæfðu endurvinnslufyrirtæki í Evrópu.