„Hægt verði að skapa fiskeldinu sterka lagaumgjörð“

Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi er í viðtali við vefritið BB.is. Þar er hún spurð um hvaða mál snúi helst að henni, sem formanni atvinnuveganefndar, nú þegar þing hefst að nýju í spetember. Frásögn vefmiðilsins um það atriði fer hér á eftir:


Þingmennirnir eru farnir að tínast suður aftur og Lilja Rafney er þar engin undantekning. Það eru mörg og stór verkefni sem bíða úrlausnar og Lilja segir að það sem snúi helst að henni í upphafi þings sem formanni atvinnuveganefndar, sé lagafrumvarpið um fiskeldið. „Það er gífurlega stórt verkefni sem við kláruðum ekki í vor vegna þess að mér og fleirum fannst að það væri ekki fullþroskað og ekki hægt að afgreiða það í einhverjum flýti. Vonandi næst góð samstaða um þetta mikilvæga mál og að hægt verði að skapi greininni sterka lagaumgjörð sem tryggir sjálfbærni og framtíðaruppbyggingu og sátt gagnvart öðrum atvinnugreinum sem og að staðið verði vörð um villta laxastofninn. Það verður að ná sem bestri sátt milli ólíkra sjónarmiða í þessum málum og ég tel að það eigi að vera hægt, vilji er allt sem þarf.“