Daníel Jakobsson formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar skrifar á facebooksíðu sína:
„Vinir mínir á Facebook vita að ég er áhugamaður um að Ísland verði fiskeldisþjóð.
Við erum stöðugt að leita að nýjum tækifærum til að standa undir velferð okkar.
Hér á Vestfjörðum eru amk. fimm fyrirtæki að þróa fiskeldi. Nú þegar er framleiðslan yfir 10.000 tonn og útflutningsverðmætin eru meiri en af vestfirskum þorski.
Þessi fyrirtæki mæta ótrúlegu mótlæti. Stjórnmálin segja pass. Vísindamenn og stofnanir reyna að tefja málin að því er virðist af því að þau vita ekki í hvorn fótinn þær eiga að stíga og halda að ef engin ákvörðun sé tekin sé ekkert hægt að gagnrýna.
Á meðan eru vinir okkar í Færeyjum á fullri ferð. Stærsta fyrirtækið þeirra Bakkafrost sem er að framleiða rúmlega helming af því sem Vestfirðir bera er metið á um 300 milljarða og ætlar að fjárfesta fyrir tugi milljarða á næstu árum.
Sama er að segja um norsku fyrirtækin þau hækka og hækka í verði.
En við segjum pass. Samt er ekkert augljósara vaxtartækifæri fyrir Ísland. Við kunnum að verka, selja og flytja fisk. Þetta er vaxandi grein, matvælaiðnaður sem m.a. Sameinuðu þjóðirnar hvetja lönd til að taka upp.
Hættum nú þessari vitleysu. Stjórnmálamenn látið ykkur þetta varða og stefnum að því að verða jafn góð í fiskeldi og öllu öðru sem við gerum.