Sá ræður sögunni sem fyrstur segir hana

Jóhann Magnússon verslunareigandi í Vesturbyggð skrifar:  Smá hugrenningar um fiskeldismál og umræðu um þau. Önnur hlið af íbúafundi um fiskeldismál haldinn á Patreksfirði í byrjun júní 2018.

Í byrjun júní sat ég íbúafund um fiskeldisáform tveggja fyrirtækja á Patreksfirði. Hinn 12 júní birtist svo frétt um fundinn í Fréttablaðinu skrifuð af íbúa á Patreksfirði sem einnig var blaðamaður Fréttablaðsins á þeim tíma Aroni Inga Guðmundssyni. Fundurinn samanstóð af tæpum þrjátíu íbúum ásamt aðilum frá Umhverfisstofnun og fiskeldisfyrirtækjunum.
Fundurinn fór fram á siðuðum nótum og var gagnlegur í alla staði. Ýmis málefni voru rædd og eitt af þeim var um staðsetningu sjókvía í Patreksfirði. Óánægju var lýst af einum fundarmanna með nýja staðsetningu sjókvía á Patreksfirði undan Þúfneyri. Kvíarnar eru undan svo kölluðum Björgum sem er austasta hverfi bæjarfélagsins. Annar fundarmaður sagðist ekkert hafa beint á móti staðsetningunni en hann hefði áhyggjur af hávaða.

Fiskeldismenn höfðu gert ráð fyrir því og sögðu að rafmagnskapall úr landi yrði leiddur út í fóðurprammann við kvíarnar til að lágmarka hávaða. Að öðru leiti var umræða fundarins að mestu upplýsandi og jákvæð samkvæmt upplifun þess er þetta ritar og mörgum íbúum sem ég hef rætt við bæði á fundinum og eftir hann. Það kom undirrituðum verulega á óvart þegar hann las frétt um fundinn í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni „óánægja ríkir á meðal íbúa Patreksfjarðar vegna staðsetningar á sjókvíum Arctic Fish og Arnarlax í firðinum!“.

Eftir lestur fréttarinnar fannst mér og ég setti þá spurningu fram í athugasemdir við fréttina að það væri eins og ég og fréttamaður hefðum hugsanlega verið á sitt hvorum fundinum? Samkvæmt minni upplifun af fundinum þá var hann mun jákvæðari en ég átti von á því ég satt að segja bjóst við því að fleiri íbúar á Björgum og úr öðrum hlutum bæjarins myndu mæta og lýsa yfir óánægju og áhyggjum með staðsetningu sjókvía Arnarlax í Patreksfirði.

Ég velti fyrir mér hvort að hugsanlega sé einhver meðvirkni í gangi og andstæðingar kvíanna þori eða vilji ekki setja fram mótbárur vegna þeirra jákvæðu áhrifa sem fiskeldið hefur hér nú um mundir. Sjókvíar Arctic Fish eru fyrirhugaðar hinum megin fjarðar við Patreksfjarðarbæ og hafa enn ekki verið settar út svo að því sé haldið til haga.

Ég hef verið hugsi yfir þessu misræmi í upplifun af fundinum og sérstaklega eftir að hinni upprunalegu frétt var breytt og hún milduð verulega með athugasemd frá ritstjórn í lokamáli. Hvernig eigum við að ræða fiskeldismál og takast á um þau á sanngjarnan og heiðarlegan máta?

Ég get vel trúað að viðkomandi blaðamaður, sem mér hefur fundist kærkomin viðbót við þorpið okkar, hafi haft tilhneigingu til að hlusta frekar eftir gagnrýni á staðsetningu kvíanna og efni fundarins enda blasir kvíastæðið við honum úr hans eigin eldhúsglugga og ekki víst að hann sé sáttur við það. Einnig gæti hann hafa fundið sig knúinn til að koma óánægjuröddum á framfæri ef rétt reynist hjá mér að andstæðingar kvíastaðsetningarinnar þori ekki að tjá sig opinberlega. Ef sú er raunin þá get ég vel láð honum að setja þá upplifun sína af fundinum fram og skoðanir sínar og annarra þar að lútandi en það gerði hann ekki.

Hann tekur aðeins afstöðu þeirra fáu sem lýstu óánægju og birtir frétt þess efnis að það hafi verið megininntak og gangur fundarins, nær hefði verið að birta þetta sem innsenda grein undir eigin nafni og sem sína skoðun frekar en að birta hana sem fréttamaður að lýsa niðurstöðum fundarins og gæta hlutleysis eftir fremsta megni? Ég bara velti því fyrir mér, ég er að gera slíkt hér í þessum pistli, þetta eru mínar hugrenningar og mín skoðun og upplifun. 


Það að breyta frétt eftir á en ekki að endurprenta hana og biðjast afsökunar á rangri framsetningu fréttarinnar hefur ekkert að segja því gagnvart öllum öðrum en þorpsbúum sem vita hvernig liggur í málunum er skaðinn skeður! Með framsetningu rangrar fréttar í upphafi er búið er að brengla umræðuna og afbaka sannleikann því sá ræður sögunni sem fyrstur segir hana og gagnvart lesendum blaðsins og andstæðingum fiskeldisáforma er fréttin sönn eins og hún var fyrst rituð því fæstir lesa fréttina aftur og andstæðingar fiskeldis nýta sér allar neikvæðar frásagnir til framdráttar þeirra málstaðar. Þarna nýtir blaðamaður sér aðstöðumun sem hann hefur umfram aðra íbúa og hagsmunaaðila til að koma sínum sjónarmiðum að og byggja undir sinn málstað og annarra sem eru óánægðir með uppbyggingu sjókvíaeldis á Vestfjörðum.

Persónulega er ég ánægður með staðsetningu kvíanna og tel að ef fiskeldismenn ganga vel um þá verði kvíastæðið og fiskeldisstöðin aðdráttarafl og gaman verði fyrir heimamenn og ferðamenn að sjá athafnasemi og líf í firðinum. Ég hins vegar skil áhyggjur þeirra sem búa í mestri nálægð við kvíastæðið af hávaða eða öðrum breytingum á umhverfi. Þetta verður áhugaverð áskorun fyrir fiskeldisfyrirtækin að takast á við og niðurstaða þess hvernig gengur að hafa eldisstöð svona nálægt byggð mun liggja fyrir innan þriggja ára þegar öllum fiski hefur verið slátrað úr þessu kvíastæði. Þá er tækifæri að taka umræðuna á nýjan leik.

Eina gagnrýni vil ég setja fram sjálfur á fundinn en ég vill gagnrýna tímasetningu fundarins sem var haldinn kl 16:00 á mánudegi. Þetta er íbúafundur og auglýstur sem slíkur og flestir íbúar eru í vinnu á þessum tíma á mánudegi og ekki geta allir sem hugsanlega hafa áhuga á tekið sér frí frá störfum sínum til að sækja fund sem þennan. Tímasetning sem þessi er afleit ef að aðilar fundarins í raun vilja fjölmennan og gagnlegan fund. Fundur kl 18:00 eða 20:00 væri nær lagi til að tryggja aðgengi sem flestra íbúa að fundi sem þessum.

Að öðru leiti þakka ég fyrir jákvæðan og upplýsandi fund – því mér fannst hann meira jákvæður en neikvæður og fleiri lýsa yfir stuðningi við áform fyrirtækjanna en voru á móti.
Svo að hagsmunum sé haldið til haga þá er greinarhöfundur fiskeldisfræðingur og viðskiptafræðingur en starfar ekki við fiskeldi né á hann hlut í fiskeldisfyrirtæki. Greinarhöfundur er hins vegar íbúi og verslunareigandi í Vesturbyggð og hefur því óbeina hagsmuni af vexti fiskeldisfyrirtækjanna. Hins vegar þá er undirritaður einlægur stuðningsmaður fiskeldis á svæðinu vegna þekkingar sinnar á greininni og vegna þess að ég tel mig vera náttúruverndarsinna og mannvin.

Samkvæmt mannfjöldaspá sameinuðu þjóðanna þá stefnir fjöldi mannkyns yfir 9 milljarða árið 2050 og eftirspurn eftir próteini mun aukast gríðarlega, yfirvofandi fæðuskortur framtíðarinnar hefur verið kallaður „Matargat framtíðarinnar“. Stærsta áskorun mannkyns næstu áratugina er það hvernig megi rækta það prótein sem þarf án þess að ganga um of á náttúruauðlindir og án of mikillar losunar koltvísýrings. Í samanburði við aðra próteinræktun eins og kjúkling, svín og nautakjöt er fiskeldi langt um umhverfisvænast gagnvart öllum stikum sem skoðaðir eru þ.e. landnotkun, vatnsnotkun, CO2 losun og fóðrunýtingu, því styð ég fiskeldi af heilum hug.

Fjölgandi þjóðir þurfa meira prótein og við verðum að taka þátt í því sem þjóð við Íslendingar að leysa það vandamál sem matargat framtíðarinnar er og við getum tekið virkan þátt í því með okkar náttúru auðlindum og þekkingu úr sjávarútvegi. Það þýðir ekki að ég sé sjálfkrafa sammála öllu því er fiskeldisfyrirtækin vilja gera, því fer fjarri og ég get vel ljáð öðrum að vera ósáttir við einhver áform þeirra en við verðum að þora að setja okkar sjónarmið fram án þess að óttast dóm samborgara og án þess að leggjast í skotgrafir eða að brengla sannleikann til að byggja undir okkar skoðun. Við eigum þetta landsvæði öll og skiptar skoðanir leiða oftast til betri ákvarðanna, það eina sem við þurfum að gæta okkur á er að vera heiðarleg og þora að segja okkar skoðun. Hér hafið þið mína skoðun – lifið heil.
Jóhann Magnússon
Patreksfirði.