Aldrei minna um eldislax í norskum laxveiðiám

Aldrei hefur minna af eldislaxi, það er laxi sem sleppur úr sjókvíum, fundist í norskum laxveiðiám en í fyrra. Fjöldinn nam um 15.000 löxum en árið 2014 þegar mælingar á fjöldanum hófust voru eldislaxarnir um 300.000 talsins.

Í frétt um málið á vefsíðunni nationen.no kemur fram að af þeim 197 ám sem mælingar ná til hafi eldislax aðeins mælst yfir 10% í 15 ám. Stöðugt hefur dregið úr fjölda eldislaxa í norskum ám á síðustu árum.

Vidar Wennevik sem stjórnar mælingum á eldislöxum í norskum ám segir að staðan sé mismunandi eftir héruðum í Noregi. Hátt hlutfall í einstaka ám, það er yfir 10%, skýrist m.a. af því að í minnstu ánum eru litlir laxastofnar þannig að lítill fjöldi eldislaxa ýti hlutfallinu upp.

Eigendur laxveiðiáa eru ánægðir með að stöðugt hafi dregið úr eldislaxi í ám þeirra undanfarin ár. „Því minna sem gengur af eldislaxi í árnar því minni hætta er á að þeir hafi áhrif á villta laxinn í þeim,“ segir Erik Sterud stjórnandi hjá Norske Lakseelver.

Það skyggir aðeins á þessar tölur að það sem af er þessu ári hafa um 110.000 eldislaxar sloppið úr kvíum sínum. Þar var um tvö tilvik að ræða þar sem laxinn slapp þegar verið var að aflúsa hann.