Íslenskt hugvit frá A til Ö
Fiskeldisfyrirtækin Arnarlax, Íslandsbleikja og Búlandstindur eiga öll það sameiginlegt að hafa fjárfest í ofurkælingarkerf sem Skaginn 3X hefur hannað og þróað síðastliðin fjögur ár í samstarfi við fiskeldisfyrirtæki hérlendis sem og í Noregi.
Arnarlax var fyrsta fyrirtækið í heiminum sem fór að nota ofurkælingu í vinnslu á eldislaxi. Komin eru nú um tvö ár síðan að kerfinu var komið fyrir og hefur náðst frábær árangur hjá fyrirtækjunum með notkun þess, en stefnt er á að stækka kerfið í náinni framtíð. Nú í febrúar lauk uppsetningu á kerfinu hjá Íslandsbleikju og niðurstöður fyrstu prófana lofa mjög góðu fyrir framhaldið. Í mars er stefnt á uppsetningu hjá Búlandstind en það kerfi er það stærsta sem fyrirtækið hefur selt í ofurkælingu hérlendis.
Ragnar A. Guðmundsson hjá Skaginn 3X segir að um íslenskt hugvit sé að ræða frá A til Ö, en Skaginn 3X hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, hér heima og erlendis.
Ofurkælingarkerfið(SUB-CHILLING™) gerir laxeldisfyrirtækjum og útgerðum kleift að kæla niður afurðir sínar á örskömmum tíma við slátrun/veiðar svo að hitastig fisksins verði um mínus 1,2 gráða við pökkun. Þetta gerir það að verkum að geymsluþol afurðanna eykst um 5 til 7 daga, gæði aukast og möguleiki sé á íslausum flutningi á milli heimshorna vegna aukinnar kæliorku í holdi fisksins.
„Með okkar kerfi er verið að gera laxeldisfyrirtækjum kleift að flytja afurðir sínar á markað erlendis í mestum mögulegum gæðum án íss, meðskipum í stað þess að notast við fraktflug,“ segir Ragnar. „Flutningskostnaðurinn getur því minnkað margfalt hjá þessum fyrirtækjum en tryggt er að gámaflutningurinn komi ekki niður á ferskleika eða gæðum afurðanna.“
Mjög góð verkefnastaða
Verkefnastaðan hjá Skaginn 3X er mjög góð en mikill áhugi er á ofurkælingarkerfunum á heimsvísu, einkum í Noregi og Chile. Fyrirtækið hefur sett upp ofurkælingarkerfihjá laxeldisfyrirtæki í Noregi og er stefnt að annarri uppsetningu í Noregi í lok þessa árs.
„Við getum hannað og sett upp ofurkælingarkerfi í misstórar landvinnslur og flestar gerðir fiskiskipa segir Ragnar. „Þau verkefni sem við erum einnig að vinna í núna er uppsetning á annarskonar kerfi fyrir uppsjávarútgerðir í Færeyjum og Rússlandi, en þau verkefni eru ein af stærstu verkefnum sem fyrirtækið hefur tekið þátt í.“