Norska ríkisstjórnin stendur nú fyrir herðferð til að fá Norðmenn til að borða meira af fiski. Þrátt fyrir að landið fljóti í sjávarafurðum, bæði frá veiðum og eldi, hefur neysla á fiski hraðminnkað í landinu á undanförnum árum. Það er einkum yngri kynslóðin, eða fólk á aldrinum 18 til 40 ára, sem hefur snúið bakinu við fiskinum.
Á síðasta ári minnkaði fiskneysla norsku þjóðarinnar um 15% miðað við árið á undan. Með herferðinni hyggst norska stjórnin auk neysluna um 20% fram til ársins 2020. Í herferðinni eru Norðmenn m.a. hvattir til þess að borða fisk minnst þrisvar í viku, lögð er áhersla á að upplýsa almennning um gæði og hollustu fiskneyslu og sérstakt átak er í gangi til að fá nemendur á barna- og grunnskólastigi til að borða meira af fiski.