HB Grandi fær 2 milljarða úr sölu fiskeldis í Síle

Reikna má með að HB Grandi hafi fengið rúma 2 milljarða kr. úr sölu eignarhaldsfélagsins Deris á fiskeldisfyrirtækinu Salmones Frisour í Síle.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að Salmones Frisour hafi verið selt á 229 milljónir dollara eða yfir 23 milljarða kr. Þegar fjallað var um söluna í fjölmiðlum fyrr í vetur kom fram að söluverðið var þá talið um 200 milljónir dollara m.v. bókfært virði fyrirtækisins. Það var því selt á tæplega 15% hærra verði en hinu bókfærða.

HB Grandi á 20% eignarhlut í Deris og bókfært virði hlutarins var í lok mars 24,5 milljónir evra. Þar af voru 15,7 milljónir evra eða rúmlega 1,9 milljarðar kr. vegna hlutarins í Salmones Frisour. Því má reikna með að hlutur HB Granda úr þessari sölu nemi nokkuð yfir 2 milljörðum kr.