Verðmæti eldislax á Íslandi hefur nær fjórfaldast á síðustu fjórum árum. Framleiddum lax fyrir 8,5 milljarða kr. í fyrra. Stefnir í annað metár í ár.
Heildarframleiðslan á eldislaxi hérlendis á síðasta ári nam tæpum 11.300 tonnum. Árið 2013 var framleiðslan rétt rúm 3.000 tonn og hefur því tæplega fjórfaldast á tímabilinu. Ef við miðum við heimsmarkaðsverð á laxinum í fyrra, sem var að meðaltali rúmar 60 nkr. per kíló., var verðmæti framleiðslunnar 8,5 milljarðar kr. í fyrra á móti 2,3 milljörðum kr. árið 2013.
Miðað við tölur um útflutning á laxi á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs og ársins í fyrra stefnir í mikla aukningu milli ára. Á vef Hagstofunnar kemur fram að á fyrstu þremur mánuðum ársins voru tæp 3.800 tonn af eldislaxi flutt út. Á sama tímabili í fyrra var magnið rúm 2.100 tonn.
Fiskeldi er framtíðin í matvælaframleiðslu heimsins. Áætlað er að fjöldi jarðarbúa muni ná 10 milljarða markinu í kringum árið 2050. Þessi aukni mannfjöldi þýðir að auka þarf próteinframleiðslu heimsins um allt að 70% fram að þessum tíma. Stór hluti þessarar aukningar þarf að koma frá fiskeldi þar sem hefðbundnar fiskveiðar, eða landbúnaður, eru ekki í stakk búnar til að standa undir þessari auknu framleiðslu á próteini eins og nú er.
Mikill vöxtur innanlands
Í tölum frá Matvælastofnun (Mast) um framleiðslu á eldislaxi hérlendis á áratugnum milli 2007 og 2017 kemur fram að minnst var framleiðslan árið 2008 eða aðeins 292 tonn. Frá þeim tíma hefur framleiðslan aukist hratt og mikið. Eins og fyrr segir var framleiðslan 3.000 tonn 2013 en var komin í rúmlega 8.400 tonn árið 2016 og fór yfir 11.000 tonnin í fyrra.
Miðað við fyrrgreindar tölur Hagstofunnar um útflutning á laxi á fyrstu tveimur mánuðum ársins má áætla að framleiðslan innanlands fari hátt í 20.000 tonn í ár.
Mikil aukning á regnbogasilung
Þegar tölur Mast um framleiðslu á öðrum eldisfiski eru skoðaðar vekur athygli hve gífurleg aukning hefur orðið á regnbogasilung. Árið 2008 voru aðeins framleidd 6 tonn af regnbogasilung á landinu. Framleiðslan fór rétt yfir 100 tonnin árið 2013 en var komin í rúmlega 2.100 tonn árið 2016. Árið eftir eða í fyrra hafði framleiðslan svo meir en tvöfaldast milli ára og nam rúmlega 4.600 tonnum.
Hvað bleikjuna varðar eru framleiðslutölur mun jafnari á fyrrgreindum áratug. Þannig var framleiðsla á bleikju ríflega 3.100 tonn árið 2008, var svipuð árið 2013 en frá þeim tíma hefur hún aukist nokkuð jafn og þétta, fór yfir 4.000 tonnin árið 2016 og nam rúmum 4.600 tonnum í fyrra.
Fleiri störf og blómlegri byggðir
Uppgangur fiskeldis á Íslandi hefur þegar haft mikil áhrif í dreifðari byggðum landsins einkum á Vestfjörðum. Þetta kom fram í skýrslu Byggðastofnunnar frá í fyrra um málið en greint hefur verið frá henni í Fiskeldisblaðinu. I skýrslunni segir m.a.: „Vestfirðir hafa búið við mikla fólksfækkun undanfarin ár og áratugi. Framundan eru miklar breytingar á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum, gangi áætlanir um um sjókvíaeldi eftir, og í raun má segja að svæðin fari þá úr nokkuð samfelldu samdráttarferli í uppbyggingar- og þensluferli með umtalsverðri fjölgun íbúa, byggingu íbúðarhúsnæðis og annarri uppbyggingu sem fylgir fólksfjölgun og breyttri aldurssamsetningu.“
Ný störf og afleidd í fiskeldinu á Vestfjörðum eru mældi í hundruðum en ekki tugum. Fram kemur í fyrrgreindri skýrslu að miðað við reynslu Færeyinga í fiskeldismálum megi gefa sér að fyrir hver 10.000 tonn sem framleidd eru af eldisfiski fjölgi störfum um 130. Framleiðslan á Íslandi er þegar komin yfir 10.000 tonnin og stefnir í að tvö til þrefaldast á næstu árum.
Fjölgun starfa er aðeins einn þátturinn í eflingu byggða á Vestfjörðum og víðar á landinu. Sem dæmi má taka Ísafjarðarbæ. Í Ísafjarðarbæ er gert ráð fyrir að fjölgun starfa vegna laxeldis hafi bein áhrif á útsvarstekjur sveitarfélagsins. Gert er ráð fyrir að þær tekjur fari í útgjöld og fjárfestingar við sjálfbærni sveitarfélagsins, uppbyggingu innviða vegna fleiri íbúa, byggingu leikskóla, skóla o.fl. Þá er gert ráð fyrir verulegum nýbyggingum á
Suðurtanga á Ísafirði í tengslum við uppbygginguna. Gert er ráð fyrir að gatnagerðargjöld vegna þeirra framkvæmda geti numið 330 milljónum kr. og fasteignagjöld af þeim muni nema um 90 milljónum kr. á ári.
Nýsköpun og íslenskt hugvit
Uppgangi fiskeldis á landinu hefur fylgt mikil nýsköpu þar sem íslenskt hugvit er lagt til grundvallar. Sem dæmi má nefna, og áður hefur komið fram í Fiskeldisblaðinu, er verið að leggja grunninn að svokallaðri samrækt, það er að samtvinna fiskeldi og gróðurhúsarækt. Þetta gengur í stórum dráttum út á að fiskeldi og gróðurhúsarækt styðja við hvert annað í lokuðu ferli. Það er Svinna-Verkfræði ehf. og Háskóla Íslands sem standa að þessu verkefni. Þegar er búið að stofna fyrirtæki á þessu sviði í Skagafirði þar sem nýtt 1.000 fm gróðurhús hefur verið byggt undir samrækt. Sem stendur eru tilapia fiskar notaðir í þessari samrækt en verið er að spá í bleikjueldi með þessum hætti. Þá hefur fyrirtækinu Samvist verið komið á fót en því er ætlað að þróa kerfi þar sem þörungarækt yrði samtvinnuð við affallsvatn úr fiskeldi.
Annað spennandi verkefni er í gangi hjá Stofnfisk sem gengur út á eldi geldfiska. Með geldfiskaeldi yrði hættan á erfðablöndun eldis- og villtra laxa væntanlega úr sögunni.
Fiskeldi fram úr hefðbundnum veiðum
Alls voru framleidd 51,7 milljónir tonna af fiski í fiskeldisstöðvum á heimsvísu árið 2006. Verðmæti þess nam tæpum 79 milljörðum dollara eða yfir 8.000 milljörðum kr. Frá árinu 2006 og þar til í fyrra hefur framleiðslan á eldisfiski aukist í 79 milljónir tonna og nálgast því óðfluga heildarafla skipa og báta en hann nemur um 92 milljónum tonna á ári. Ekki er búist við að veiðar skili meiru en þessum 92 milljónum tonna í náinni framtíð vegna kvóta og verndaraðgerða sem eiga að koma í veg fyrir að ýmsir veiðistofnar beinlínis hrynji. Á móti er áætlað að eldisfiskur fari í yfir 100 milljónir tonna á ári á næsta áratug. OECD áætlar raunar að fiskeldi verði orðið stærra en fiskveiðar í heiminum þegar á næstu tveimur árum, eins og áður hefur komið fram í Fiskeldisblaðinu.