Markaðsvirði Bakkafrost í Færeyjum 250 milljarðar kr.

Glæsilegar höfuðstöðvar Bakkafrost í Færeyjum.

Fiskeldisævintýri Bakkafrost:

Færeyska laxeldisfyrirtækið Bakkafrost skilaði hagnaði upp á um 331 milljónir danskra kr. eða um 5,5 milljarða kr. á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Samanlagður hagnaður ársins nemur því tæpum 1,4 milljörðum dkr. eða um 23 milljörðum króna.

Saga Bakkafrost í Færeyjum er ævintýri líkast en frá því á sjöunda áratug síðustu aldar hefur Jacobsen fjölskyldan byggt þetta fyrirtæki upp í að verða það stærsta í Færeyjum og raunar áttunda stærsta laxeldisfyrirtæki í heiminum.

Þau Regin Jacobsen forstjóri Bakkafrost og móðir hans Oddvör eru stærstu eigendur Bakkafrost. Þau náðu þeim áfanga árið 2014 að verða fyrstu milljarðamæringar Færeyja, þ.e. mælt í dönskum krónum. Sameiginlegur eignarhlutur þeirra í Bakkafrost nemur tæpum 20% en fyrirtækið er skráð á markað í Osló. Alls eiga 3.000 hluthafar í 22 löndum hlut í Bakkafrost.

Byrjuðu með síldarsöltun

Bakkafrost, sem er með höfuðstöðvar á Austurey, var stofnað árið 1968 af bræðrunum Martin og Hans Jacobsen en fyrstu 10 árin ráku þeir bræður síldarsöltun undir þessu heiti. Bræðurnir voru kenndir við bæinn Bakka þar sem þeir fæddust og því oft nefndir Martin á Bakka og Hans á Bakka í Færeyjum. Regin núverandi forstjóri er sonur Hans og er einnig oft nefndur Regin á Bakka.

Regin á Bakka þykir mjög hógvær og lítilátur maður og hann nýtur mikillar virðingar í Færeyjum. Hann forðast allt umtal um persónulegt líf sitt í fjölmiðlum en ræðir oft stoltur um fyrirtæki sitt og framgang þess. Fyrirtækið þykir einstaklega vel rekið og þannig hafði Berlingske Business eitt sinn eftir Kolbjörn Giskeödegaard greinenda hjá Nordea Markets í Osló að Bakkafrost væri fyrirtæki í heimsklassa. „Sem stendur er fyrirtækið með bestu stjórnina þegar kemur að eldi á Atlantshafslaxi,“ sagði Kolbjörn. „Stjórn þess rekur fyrirtækið mun betur en stjórnir annarra fiskeldisfyrirtækja í Noregi, Skotlandi og Kanada.“

Laxeldið hófst 1979

Árið 1979 bættist laxeldið við starfsemi þeirra Martin og Hans og frá þeim tíma hefur fyrirtækið nær stöðugt vaxið og þróast.

Fyrir tæpum áratug síðan var framleiðslugeta Bakkafrost komin upp í rúmlega 30.000 tonn af flökum og öðrum afurðum. Þá réð Bakkafrost yfir um 44% af öllum framleiðsluleyfum til laxeldis í Færeyjum. Árið 2014 var framleiðslan komin upp í 44.000 tonn og í ár er reiknað með að hún verði um 55.000 tonn.

Það sem m.a. hefur ýtt undir vaxandi hagnað Bakkafrost á síðustu árum er bann Rússa gagnvart fiskinnflutningi frá löndum innan ESB og EES þar á meðal Íslandi. Frá þeim tíma hafa Færeyingar nánast verið með einokun á innflutningi á eldislaxi til Rússlands. Á tímabili fengu Færeyingar hátt í tvöfalt verð fyrir eldislax sinn á þessum markaði miðað við það verð sem norskar eldisstöðvar fengu almennt fyrir sinn eldislax í öðrum löndum.

Árið 2011 keypti Bakkafrost færeyska fóðurframleiðendann Havsbrún fyrir 1,1 milljarð dkr. Með þessum kaupum hefur Bakkafrost nú stjórn á öllum stigum framleiðslu sinnar, frá laxafóðri og upp í lax í neytendapakkningum. Ári áður eða 2010 var Bakkafrost skráð í kauphöllina í Osló. Við skráninguna var verðmæti fyrirtækisins metið á um 1,3 milljarða nkr. Í dag er markaðsvirðið nær 20 milljarðar nkr. eða um 250 milljarðar kr.