Eitt flottasta tækifæri þjóðarinnar

Viðtal við Gunnar Stein Gunnarsson

Í Reyðarfirði á Austfjörðum er stundað laxeldi í sjókvíum á vegum Laxa fiskeldis ehf. Þar voru fyrstu seiðin sett út í júní á síðasta ári, en þau komu úr seiðastöðvum fyrirtækisins í Ölfusi. Slátrun á fisk úr kvíunum hófst fyrir skemmstu og starfsemin í firðinum hefur gefið góða raun.

Fiskeldisblaðið tók einn af sérfræðingum og stofnendum Laxa fiskeldis ehf Gunnar Stein Gunnarsson tali en hann lauk Cand Scient gráðu frá Háskólanum í Bergen í fiskalíffræði og fiskeldisfræðum og er um þessar mundir að leggja lokahönd á doktorsgráðu sína í fisksjúkdómafræðum frá sama háskóla. Gunnar Steinn hefur aflað sér áratuga reynslu á sviði fiskeldis, bæði hér á landi og erlendis. Árið 1999 var hann einn stofnanda laxeldisfyrirtækisins Salar Islandica í Berufirði en hann rak félagið og veitti því forstöðu um sex ára skeið. Uppbyggingu Laxa fiskeldis ehf hóf Gunnar Steinn síðar árið 2010 ásamt góðum vinum. Fyrstu leyfin litu dagsins ljós árið 2012 og í kjölfarið hófst undirbúningur við framleiðslu á seiðum. Kaup voru fest á tveimur seiðastöðvum í Ölfusi, og ein stöð til viðbótar að Laxabraut í Þorlákshöfn er nú í byggingu.

Breytt viðhorf

Gunnar Steinn segir að þegar hann stofnaði Salar Islandica ehf hefði fólki ekki verið ljós tækifærin til fiskeldis sem felast í íslenskum fjörðum, en bætir við að það sé óðum að breytast: “Þegar við horfum yfir alla þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað í kringum fiskeldi á síðustu árum er augljóst hvað við á Íslandi búum yfir verðmætu og mikilvægu tækifæri. Laxeldi er stundað bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum og aðstæðurnar á þessum svæðum eru kjörnar fyrir sjókvíaeldi. Þetta er alltaf að koma betur og betur í ljós og laxinn sem er framleiddur í íslensku sjókvíaeldi er í úrvalsflokki.”

 Brýn uppbygging innviða

“Það er lítil hefð fyrir sjókvíaeldi hér á landi og því mikil þörf á uppbyggingu innviða fyrir greinina,” segir Gunnar Steinn.”Slík uppbygging er kostnaðarsöm og fyrir henni eru ákveðnar forsendur. Þannig þarf að minnsta kosti 40.000 tonna ársframleiðslu á laxi á Austfjörðum til að mögulegt sé að reisa afkastamikið og nútímalegt laxasláturhús og vinnslu. Önnur starfsemi sem brýnt er að byggja upp er öflug staðbundin dýralæknaþjónusta, þvottur á nótum og vottun búnaðar, framleiðsla á umbúðum fyrir afurðir, vinnsla aukaafurða í verðmæt sjávarprótein og olíur, flutningur á fiski, fóðri og svo mætti lengi telja.”

 Rúmlega 600 ársstörf á Austurlandi

Samkvæmt fyrirliggjandi burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar er mögulegt árlegt eldismagn 52.000 tonn á Austfjörðum en þar eru starfandi tvö eldisfyrirtæki þ.e. Laxar fiskeldi og Fiskeldi Austfjarða. Með fullri framleiðslu beggja fyrirtækjanna myndu skapast að minnsta kosti   350 ársstörf á Austurlandi beint við eldi og vinnslu eða samtals 615 ársstörf sé litið til afleiddra starfa. Ætla má að heildarverðmæti útfluttra laxaafurða frá Austurlandi, m.v. 50.000 tonna framleiðslu gæti numið um það bil 40 milljörðum íslenskra króna árlega, eða sem svarar um það bil 15% af heildarútflutningi sjávarafurða frá Íslandi og um það bil 4% af heildar gjaldeyristekjum þjóðarbúsins. “Allar aðstæður eru til þess að byggja upp greinina með faglegum hætti á fáeinum árum,” segir Gunnar Steinn. “Hér er um að ræða eitt flottasta tækifæri þjóðarinnar til að snúa neikvæðri byggðaþróun við og tryggja tilvist blómlegra byggða til frambúðar”.

Óásættanleg tregða í stjórnsýslunni

Gunnar Steinn segir átakanlegt að stærstu hindranir í uppbyggingu sjókvíaeldis á Íslandi sé óskilvirk stjórnsýsla og oft á tíðum ómálaefnaleg sjónarmið. “Undir eðlilegum kringumstæðum og samkvæmt gildandi lögum ætti að taka um tvö ár að fá tilskilin leyfi til laxeldis”.

Reyndin hefur hins vegar orðið önnur í tilfelli Laxa, en fyrirtækið hefur nú verið með mál í ferli í rúm sex ár. Tafirnar má einkum rekja til breyttra áherslna í stjórnsýslunni og síbreytilegs lagaumhverfis sem hefur ítrekað sett ferlið í uppnám. Ein helsta töfin á ferlinu var þegar Löxum var gert að bíða í um það bil tvö ár eftir að niðurstöður lægju fyrir úr sérstöku burðarþolsmati Hafrannsóknarstofnunar vegna Reyðarfjarðar. Rúmu hálfu ári eftir að niðurstöður lágu fyrir úr því mati kom sama stofnun fram með svokallað Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Með áhættumatinu var lagt til að eldismagn yrði minna á Austfjörðum en burðarþolsmat sömu stofnunar kvað á um. Mikilvægt er að halda því til haga að ekki var gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum í módelinu. Frá því að áhættumatið var birt hafa fyrirtækin, ásamt Landsambandi Fiskeldisstöðva, átt fjölda funda með Hafrannóknarstofnun. Á fyrstu fundunum kom fram að Hafrannsóknarstofnun myndi taka tillit til mótvægisaðgerða og var niðurstaðan sú að notkun stærri seiða, tilgreindrar möskvastærðar og ljósastýring fisksins myndi leiða til aukins eldismagns.

“Það er ansi djúpt á niðurstöðum útreikninga og höfum við nú beðið þeirra í um það bil átta mánuði. Á sama tíma hafa sjálfstætt starfandi sérfræðingar sem hafa módelið undir höndum reiknað út eldismagn án vandræða. Áhættumatið hefur verið gagnrýnt verulega af fagfólki enda verður seint talið að hér sé um vísindalegt framlag að ræða en það er önnur umræða. Á hitt er þó að líta að áhættumatið hefur ekki lagalegt gildi og er ekki hluti af gildandi regluverki þó að hugmyndir hafi verið uppi um að innleiða það í lög“.

Eldið verður ekki flutt úr byggðunum

Einn helsti kosturinn við fiskeldi sem atvinnugrein er sú staðreynd að eldið er bundið ákveðinni staðsetningu og verður því   aldrei flutt úr byggðunum eins og mögulegt er að gera við fiskveiðikvóta.

“Nú starfa í heildina rúmlega 30 starfsmenn hjá Löxum fiskeldi ehf. Þetta er breiður hópur af fólki með fjölbreytta menntun og ólíkan bakgrunn. Innan fyrirtækisins er nú þegar mikil þekking og reynsla af fiskeldi sem skilar sér vel í daglegum rekstri. Við höfum verið að bæta við okkur starfsfólki á öllum starfsstöðum og áhugi fyrir þeim störfum sem við höfum auglýst er mikill. Fiskeldi er fyrst og fremst þekkingariðnaður og þörfin á sérhæfðu starfsfólki er í samræmi við það. Það er því bæði ánægjulegt og hvetjandi að sjá hvað áhugi fyrir greininni er orðinn mikill. Samfélagið fyrir austan hefur tekið okkur vel”.

Íslensk stjórnvöld eru varká

“Við sem að eldisfyrirtækjunum stöndum viljum gera hlutina vel og fögnum öllum eðlilegum og faglegum kröfum sem gerðar eru til okkar. Íslensk stjórnvöld gera ríkar kröfur til búnaðar og reksturs laxeldis. Þannig hefur t.d. Norski staðallinn NS9415 verið innleiddur hér á landi. Til að standast kröfur staðalsins þarf að gera mælingar á straumum og öldufari á eldissvæðinu. Svo er valinn framleiðsluvottaður búnaður og festingum komið fyrir í samræmi við niðurstöður mælinga og aðra staðarhætti. Búnaðurinn er svo tekinn út af faggildri skoðunarstofu sem gengur úr skugga um að hann sé settur upp rétt og í samræmi við tilmæli frá framleiðanda”.

Gunnari Steini finnst miður hvað umræða um svokallað erfðablöndun er iðulega á villigötum og litast af tilfinningahita og æsingi.

“Staðreyndin er sú að stöðugar og stórar sleppingar úr kvíum þurfa að standa yfir áratugum saman til að erfðamengi villtra laxa taki merkjanlegum breytingum. Mönnum hættir til að vanmeta náttúrulegt val” bætir Gunnar Steinn við. “Í fyrsta lagi er lifun eldislaxa í náttúrulegu umhverfi hverfandi lítil. Eldislaxinn er afrakstur markvissa kynbóta sem leiðir til þess að hann á erfitt uppdráttar í villtu umhverfi. Þar af leiðandi lifir hann illa af utan kvíanna og strokulaxar týna fljótt tölunni. Í öðru lagi er hrygingarárangur eldislaxa mun lélegri en villtra laxa. Það þýðir að þó að eldislax gangi í á er alls óvíst að honum takist að hrygna með villta fiskinum. Ástæðan er sú að hann er einfaldlega lélegri í því en villtu fiskarnir. Eldislax nær líka kynþroska seinna en villti laxinn sem skapar aukinn aðskilnað þarna á milli. Lifun seiða sem koma úr klaki eldislax og villts lax er líka mun minni en lifun þeirra seiða sem koma undan tveimur villtum foreldrum. Þannig velur náttúran gegn eldislaxinum á öllum stigum málsins og nýtt erfðaefni festir sig illa í sessi”.

Í þessu sambandi segir Gunnar að erfitt sé að heimfæra reynslu Norðmanna af erfðablöndun yfir á íslenskt laxeldi. “Í Noregi voru framleiddar 1.3 milljónir tonna af laxi á síðasta ári. Á sama tíma framleiddum við rúm 10.000 tonn af laxi á landinu öllu. Við erum enn að framleiða lítið magn og framleiðslan verður aldrei nálægt því sem við sjáum hjá Norðmönnum. En á sumum sviðum laxeldis höfum við sýnt meiri fyrirhyggju við uppbyggingu greinarinnar en Norðmenn gerðu á sínum tíma. Á Íslandi var innleiddur besti mögulegi búnaður rétt áður en greinin tók vaxtarkipp. Auk þess eru þau svæði sem standa nálægt Íslenskum laxveiðiám einfaldlega lokuð fyrir eldi á laxfiskum og hafa verið lokuð síðan 2001. Á meðan laxeldiskvíar liggja meðfram allri norsku strandlengjunni er laxeldi á Íslandi eingöngu heimilt á Vestfjörðum, í Eyjafirði og Austfjörðum, fjarri stórum laxveiðiám.”

Gunnar Steinn er bjartsýnn á að frekari leyfi til eldisins fáist á næstu mánuðum og að uppbygging þessarar mikilvægu atvinnugreinar muni ganga vel þar sem allar náttúrlegar aðstæður eru góðar, fagleg þekking er til staðar og fjármagn tryggt til starfseminnar. Jafnframt er vilji ríkisstjórnarinnar ljós en þar á bæ segja menn að laxeldið sé komið til að vera. Jákvæðra áhrifa uppbyggingar eldisins er þegar farið að gæta á Austfjarðasvæðinu og með auknum framleiðsluheimildum skapast ný afleidd atvinnutækifæri á ólíkum sviðum.

 

Ljósmynd: Stefán Bjarnason