Náttúran sér um sitt

-„Óttinn við erfðablöndun eldis- og villtra laxa hérlendis á sér varla stoð í raunveruleikanum, “ segir Albert K. Imsland prófessor í fiskeldisfræðum við háskólann í Bergen.

Albert K. Imsland prófessor í fiskeldisfræðum við háskólann í Bergen og rannsóknastjóri Akvaplan-Niva í Noregi segir að hinn mikli ótti við erfðablöndun milli eldislaxa og villtra laxa hérlendis eigi sér varla stoð í raunveruleikanum. „Hættan hér á Íslandi er mjög lítil sökum þess hvernig kerfið hefur verið sett upp frá byrjun. Þá er ég að tala um að eldi á laxi í sjókvíum er aðeins leyft á þeim svæðum þar sem mjög fáar eða engar laxveiðiár eru til staðar,“ segir Albert í samtali við Fiskeldisblaðið.

Albert bendir á að rannsóknir í Noregi sýni að hverfandi líkur eru á að fullorðinn lax sem sleppur úr eldiskvíum lifi af eða endurheimtist eða aðeins 0,09%. Opinberar tölur frá Noregi sýna að 15000 laxar sluppu úr kvíum í fyrra og af þeim munu því væntanlega einungis 13.5 lax lifa af og endurheimtast. Ef um yngri fisk er að ræða er hlutfallið aðeins hærra eða 0,4%. Þetta hefur m.a. komið fram í síðustu skrifum Ove Skilbrei eins helst sérfræðings Noregs í villtum laxastofnum en hann lést langt fyrir aldir fram í hittifyrra.

„Við verðum að horfa á að eldislax hefur verið kynbættur um langt skeið til þess meðal annars að auka vaxtarhraðan og ná niður fóðurkostnaðinum,“ segir Albert. „Hann hefur því nær engar forsendur til að þrífast utan kvía á sama hátt og villti laxinn og miklar líkur á að hann drepist í náttúrunni. Það eru því yfirgnæfandi líkur á að sá eldislax sem sleppur komi ekki til baka. Náttúruvalið lætur ekki að sér hæða enda sér náttúran um sitt.“

Aldrei hægt að koma alveg í veg fyrir sleppingar

Fram kemur í máli Alberts að aldrei verði hægt að koma alveg í veg fyrir að eldislax sleppi úr kvíum sínum. Laxeldi sé eins og hver önnur matvælaframleiðsla, að vísu í sjó, og sama hve menn vanda til verka sé ætíð hætta á slysum, mistökum eða skaða af völdum náttúrunnar. Hins vegar megi draga mjög verulega úr stroki laxa með ströngum kröfum um útbúnað. Hérlendis er notast við strangasta útbúnaðarstaðal sem fyrirfinnst. Með hjálp hans drógust sleppingar saman um 98% á árunum 2006-17.

„Og þó svo að eldislax sleppi og komi aftur á upprunaslóðir hér á Íslandi þá finnur hann ekki á til að ganga upp í nema þá í besta falli í næsta firði eða fjörðum. Og nái hann að ganga upp í viðkomandi á eru mjög litlar líkur á að hann nái að hrygna þar sem hrygningarferlið er ekki hluti af þeim kynbótum sem liggja að baki laxinum. Náttúruvalið sér um að villti laxinn hafi yfirburði í þessum efnum,“ segir Albert.

Albert segir að þó megi ekki gera lítið úr þeim sem óttast að sjálfbærar laxveiðar á stöng skaðist. „En það verður að ræða þau mál á vísindalegum grundvelli og með vísindalegum rökum en ekki tilvísunum í einhverja rómantík,“ segir Albert. „Hinsvegar má segja að ef mönnum er raunverulega annt um villta laxa væri góð byrjun að láta þá alveg í friði í ánum enda hefur sá fiskur sem gengur í árnar farið í gegnum mjög strangt náttúruval og lifað af á meðan um 99% af systrum hans og bræðrum hafa drepist. Þetta 1% á því skilið að lifa og hrygna óáreitt.“

Önnur og lakari staða í Noregi

Hvað sleppingar varðar segir Albert að Norðmenn glími við meira af vandamálum en Íslendingar þegar kemur að sleppingum eldislaxa. „Menn í Noregi hafa töluverðar áhyggjur af ástandinu,“ segir Albert. „Það sem gerðist í Noregi þegar laxeldi hófst þar fyrir um hálfri öld síðan var að eldiskvíar voru settar í alla firði hvort sem laxeldisá var til staðar eða ekki. Þar er staðan núna sú að íblöndun milli eldis- og villtra laxa finnst í 30 til 40% tilvika af öllum laxveiðiám á helstu hættusvæðunum. Vandinn er mestur þar sem árnar eru litlar og með lítinn náttúrulegan stofn. Stóru árnar með öflugum stofnum þola þetta mun betur. Almennt er íblöndunin á bilinu 5 til 10%. Nýjustu rannsóknar frá Noregi sýna, hins vegar, að sú íblöndun mun ekki hafa varanleg neikvæð áhrif á villta stofninn.“

Albert segir að samt sem áður sé enginn í Noregi að tala um að hætta eða draga verulega úr laxeldi. „Laxeldi er orðið ein helsta efnahagsstoð Noregs, raunar sú stærsta á eftir olíuiðnaðinum,“ segir Albert. „Ársframleiðsla Norðmanna á eldislaxi nemur nú um 1,3 milljónum tonna. Laxeldið heldur flestum strandbyggðum Noregs gangandi hvað atvinnusköpun og tekjur varðar og það mun vart breytast í náinni framtíð.“

Þarna komum við aftur að þeim lykilmun sem er á Íslandi og Noregi þegar kemur að laxeldi í sjó. Hérlendis var strax tekin sú ákvörðun að halda eldinu frá þeim stöðum þar sem stórar laxveiðiár eru til staðar í stað þess að setja þær upp við hliðina á þeim eins og gerðist í Noregi.

„Þótt að segja megi að þessar takmarkanir á staðsetningum séu íþyngjandi fyrir eldisfyrirtækin eru þær samt sem áður mikið gæfuspor fyrir framtíð laxeldisins á Íslandi,“ segir Albert.