Mikil umræða á sér stað á samfélagsmiðlum um ákvörðun Úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi fyrir helgi úr gildi tvö rekstrarleyfi sem Matvælastofnun hafði veitt til laxeldis í Patreksfirði og Tálknafirði. Ljóst er að úrskurður nefndarinnar er gríðarlegt áfall fyrir fjölskyldur og fyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum: Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal.
Haraldur Benediktsson fyrsti þingmaður NV kjördæmis skrifar á facebooksíðu sína um úrskurð Úrskurðarnefndarinnar:
„Ekkert minna en hamfarir“
Hér um ræðir ekkert minna en hamfarir. Þróist mál með þeim hætti sem þarna teiknast upp þýðir það mögulega endalok uppbyggingar og sóknar í landshlutanum. Það getur ekkert annað verið í boði en að taka þegar til varna fyrir atvinnu og mannlif þessara byggðalaga.
Ég hef kallað saman þingmannahóp NV kjördæmis í hádeginu til að byrja að greina þá stöðu sem komin er upp. Ráðherrar munu ræða stöðu málsins í tengslum við ríkisstjórnarfund.
Teitur Björn Einarsson sem situr nú á þingi í forföllum Þordísar Kolbrúnar ráðherrar, skrifar á sína síðu
„Óskiljanleg stjórnsýsla“
Þetta er hrikalegt mál og hreint óskiljanleg stjórnsýsla. Það getur ekki hafa verið vilji löggjafans að koma málum þannig fyrir í okkar landi að hægt sé að stöðva alla innviðauppbyggingu og auðlindanýtingu á óljósum, afturvirkum og matskenndum þáttum sem virðst ekki eiga sér stoð í lögum samkvæmt orðanna hljóðan. Við slíka stjórnsýslu verður ekki unað og eðlilegt að spurt sé í framhaldinu hvaða lögum ber þá að breyta til að koma okkur uppúr þessu kviksyndi.
Ágúst Garðarsson fráfarandi ráðherra aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra og núverandi bæjarfulltrúi í Hafnarfirði svarar: Rétt. Þetta er með ólíkindum.