Úrskurður ÚUA sambærilegur ályktun Landverndar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) sem er á forræði umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ógilt rekstrar- og starfsleyfi fyrir 17.500 tonna laxeldi Arnarlax og Arctic Fish í Patreksfirði og Tálknafirði.  Megin forsendur ógildingar eru nánast þær sömu og koma fram í ályktun Landverndar þegar núverandi umhverfisráðherra var framkvæmdastjóri Landverndar.

Á heimasíðu Landverndar 15. maí 2017 birtist grein sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra (þáverandi framkvæmdastjóri Landverndar) skrifaði á vef samtakanna.  Greinin fjallar um áætlanir Landverndar til að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum. Fyrirsögn greinarinnar er „STJÓRNSÝSLUKÆRUR“.  Undirfyrirsögn greinarinnar er „Bann gegn ræktun frjós eldislax í sjó.“  Í formála kemur fram að aðalfundur Landverndar hafi samþykkt 3 ályktanir; um þjóðgarð á miðhálendinu og þjóðgarð á Ströndum og um laxeldi í sjó (sjá ályktun Landverndar um laxeldi pdf).

Úr ályktun Landverndar 2017

„Vilja bann á ræktun frjós eldislax í sjó

Aðalfundurinn krafðist þess að stjórnvöld móti skýra stefnu sem banni ræktun á eldislaxi í sjó nema tryggt sé að erfðablöndun geti ekki átt sér stað við íslenska laxastofna. Þetta má tryggja með notkun ófrjórra stofna eða ræktun í lokuðum kerfum í sjó eða á landi…

… Áhættan sem tekin er með stórauknu laxeldi í sjó hérlendis með þeim aðferðum sem kynntar hafa verið er því geigvænleg og með öllu óásættanleg fyrir íslenska náttúru.

 Vísindaleg þekking á áhrifum laxeldis í sjó á villta laxastofna er vel þekkt og verður að vera leiðarljós stjórnvalda við að móta leikreglur um fiskeldismál á Íslandi. Ekki verður séð að fiskeldi með frjóum norskum eldislaxi standist ákvæði náttúruverndarlaga um ræktun og dreifingu framandi lífvera…

 Starfshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vinnur nú að stefnumótun í fiskeldi. Mikilvægt er að í þeirri vinnu móti stjórnvöld skýrar leikreglur sem taki tillit til ofangreindra atriða og banni ræktun á eldislaxi í sjó af erlendum stofnum nema tryggt sé að erfðablöndun geti ekki átt sér stað við íslenska laxastofna, s.s. með notkun ófrjórra fiska eða ræktun í lokuðum kerfum í sjó eða á landi.“

Vildu samanburð á sjókvíeldi og eldi á landi, geldfiski og í lokuðum kerfum

Náttúruverndarsamtök, veiðiréttarhafar og nokkrir landeigendur kærðu leyfisveitinguna til úrskurðarnefndarinnar í janúar á þessu ári. Tæpum 10 mánuðum síðar, úrskurðaði ÚUA að fella skildi niður rekstrar- og starfsleyfi og eru forsendurnar byggðar á sömu hugmyndafræði og koma fram í ályktun Landverndar frá 2017: „Þá hafi Matvælastofnun ekki sinnt þeirri skyldu sinni að rannsaka, fjalla um og bera saman þá aðra valkosti sem til greina komi varðandi framkvæmdina, svo sem notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum, minna sjókvíaeldi eða svokallaðan núll valkost, sem hefðu í för með sér minni eða enga skaðsemi fyrir náttúruna og eignir annarra aðila,“ segir orðrétt í úrskurði ÚUA.

Nefndin leitaði ekki álits sérfræðinga eins og vísað er til í lögum

Allt eru þetta valkostir sem leyfishafar telja óraunhæfa.  Á þeim 10 mánuðum sem tók nefndina að komast að niðurstöðu í málinu er var aldrei óskað eftir gögnum eða röksemdum frá laxeldisfyrirtækjunum fyrir því að sjókvíeldi hefði umtalsverða kosti yfir aðra og í raun óraunhæfa valkosti. Í 3. grein laga um ÚUA segir: „Nefndinni er heimilt að kveðja sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða menn við úrskurð einstakra mála. Starfa þeir með nefndinni við undirbúning og meðferð máls eftir ákvörðun formanns.“

Í bréfi Umhverfisstofnunar til ÚUA, dagsett 2. október 2018 kemur fram gagnrýni á rannsókn ÚUA m.a. vegna þess að nefndin leitaði ekki umsagnar faglegra stofnunar áður en hún kvað upp úrskurð sinn.  Í bréfi Umhverfisstofnunar er sagt: „Einnig skal bent á að úrskurðarnefndin leitaði ekki umsagnar Skipulagsstofnunar, hinnar faglegu stofnunar umhverfismats, í rannsókn sinni á málinu áður en hún kvað upp úrskurð sinn, sem lýsti annmörkum á umhverfismatsferlinu. Stofnunin telur því að úrskurðarnefndin hafi ekki haft mikilvæg sjónarmið til grundvallar áður en úrskurður féll, einkum hvað varðar umfjöllun um raunhæfa valkosti.  Umhverfistofnun hefur í kjölfarið farið yfir samantekt Skipulagsstofnunar um málin, samantekt um sjónarmið sem Umhverfisstofnun telur úrskurðarnefndin hefði átt að hafa til hliðsjónar áður en úrskurður var felldur,“ segir m.a. í bréfi Umhverfisstofnunar til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Spurningar um sjálfstæði nefndarinnar?

Nefndin tók sér 10 mánuði til að komast að niðurstöðum en hefur að hámarki 6 mánuði samkvæmt 4. grein í lögum:  „Nefndin kveður upp úrskurð eins fljótt og kostur er og jafnan innan þriggja mánaða frá því að málsgögn bárust frá stjórnvaldi, sbr. 5. mgr., en innan sex mánaða frá sama tímamarki sé mál viðamikið. [Mál sem varða verulega fjárhagslega hagsmuni aðila, hvort sem er kærða eða kæranda, skulu sæta flýtimeðferð.].

Óhætt er að fullyrða að hér sé um að ræða mál sem varðar verulega fjárhagslega hagsmuni fyrirtækja og ófyrirséð samfélagsleg áhrif á sunnanverðum Vestfjörðum.  Líkindi með úrskurði nefndarinnar við ályktun Landverndar þegar umhverfisráðherrra var framkvæmdastjóri Landverndar varpar óneitanlega upp spurningum um sjálfstæði nefndarinnar ekki síst í því ljósi að nefndin nýtti sér aldrei heimildir til að kalla eftir áliti sérfræðinga eða vísindamanna í fiskeldisfræðum.  Slíkir sérfræðingar hefðu getað upplýst nefndina um að samanburður á sjókvíeldi og þeim valkostum sem nefndin vísar til er óraunhæfur.