Hafrannsókn segir Seyðisfjörð þola 10.000 tonna eldi

Hafrannsóknastofnun ráðleggur í samræmi við lög um fiskeldi að hámarksframleiðsla fiskeldis í Seyðisfirði verði 10.000 tonn.

Þetta kemur fram á vefsíðu stofnunarinnar.Þar segir m.a. að niðurstaðan byggi á mati á áhrifum eldisins á ýmsa umhverfisþætti strandsjávarvatnshlota eins og lýst er í reglugerð… um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Einkum er horft til álags á lífríki botnsins, súrefnisstyrks og styrks næringarefna. Ekki liggur fyrir matskerfi til að nota við mat á ástandi líffræðilegra gæðaþátta í strandsjávarvatnshlotum en hér er stuðst við aðrar skuldbindingar eins og t.d. OSPAR samninginn. Til vatnshlota í strandsjó, sem hafa gott eða mjög gott ástand, er gerð sú krafa að ástand þeirra skuli ekki hnigna þrátt fyrir fiskeldi eða aðra starfsemi. Tillit er tekið til stærðar fjarðarins, dýpis og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk.

„Í þessu mati er gert ráð fyrir að hámarkslífmassi verði aldrei meiri en 10.000 tonn og að nákvæm vöktun á áhrifum eldisins fari fram samhliða því. Slík vöktun er forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt væri á raungögnum. Jafnframt er bent á að æskilegra er að eldismassi sé frekar utar í firðinum en innar,“ segir á heimasíðunni.