Uppgjör SalMar undir væntingum

Norski laxeldisrisinn SalMar skilaði uppgjöri fyrir annan ársfjórðung fyrir helgina. Rekstrarhagnaður nam tæpum 879 milljónum nkr. eða sem svarar til tæplega 11,5 milljarða kr. Þetta er um 100 milljón nkr. minni hagnaður en á sama tímabili í fyrra. Jafnframt er þetta undir væntingum sérfræðinga sem gert höfðu ráð fyrir 922 milljóna nkr. rekstrarhagnaði.

SalMar á ríflega þriðjung í Arnarlaxi, langstærsta laxeldisfyrirtækis Íslands. Tekjur félagsins á ársfjórungnum námu 2,93 milljörðum nkr, eða um 38 milljörðum kr. sem er næstum á pari við tekjurnar á sama tímabili í fyrra. Alls nam framleiðslan 34.000 tonnum af eldislaxi samanborið við 35.000 tonn á sama tímabili í fyrra, að því er fram kemur á vefsíðunni e24.no.

Eftir birtingu uppgjörsins féllu hlutir í SalMar um rúm 4% í kauphöllinni í Osló og lækkuðu síðan áfram fram á föstudag. Um tíma fór gengi þeirra undir 400 nkr. á hlut og hefur sveiflast nokkuð síðan. Eftir að hafa rétt aðeins úr kútnum á mánudag er gengið aftur komið undir 400 nkr. um hádegisbilið í dag, þriðjudag.