Lax dregur úr líkum á óreglulegum hjartslátti og blóðtappa í æðum

Grein á vef Hjartalíf.is

Mikið er skrifað um mataræði og hverjum degi birtist efni um mat í fjölmiðlum. Það er þó þannig að sumar tegundir af fæðutegundum eru betri fyrir okkur en aðrar og hér er dæmi um topp fimm tegundir sem geta hjálpað okkur við að koma í veg fyrir hjarta og æðasjúkdóma að mati sérfræðinga á hjartamiðstöðinni á Beth Israel í Bandaríkjunum.

Hjarta og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök bæði kvenna og karla í hinum vestræna heimi. Það er þó ýmislegt hægt að gera til að draga úr líkum á því að þróa með sér þessa sjúkdóma.

Eitt af því mikilvægasta í forvörn hjartasjúkdóma er heilbrigt hjartavænt mataræði. Það eru sérstakar fæðutegundir sem ættu að vera hluti af hjartavænu mataræði eins og matvæli með háu trefjainnihaldi, lítið af mettaðri fitu og transfitu en mikið af ómettaðri fitu.

„Í heildina tekið, í vörnum gegn hjartasjúkdómum, ætti hjartavæna mataræðið að innihalda ávexti og grænmeti, heilkorn, fiturýrt kjöt, hollar fitur og fæðu sem inniheldur lítið magn af sodium sem er að stórum hluta salt“ segir Elisabeth Moore, næringarráðgjafi hjá hjartastofnun Beth Israel Medical Center. „Það ætti að takmarka allar matvörur sem eru mikið unnar, innihalda transfitur eða mikið af mettaðri fitu og lítið magn trefja“.

Innan þessara fæðuhópa eru ákveðin matvæli eða matvörur sem eiga að vera þær bestu til að vernda og styrkja hjarta þitt og geta einnig hjálpað til við að ná stjórn á ástandinu hjá þeim sem nú þegar eiga við hjartavandamál að stríða.

Þær topp fimm fæðutegundir sem eiga að sporna við hjarasjúkdómum samkvæmt Moore eru (ekki í sérstakri röð):

Lax

Er frábær uppspretta omega 3 –fitusýra sem geta komið í veg fyrir óreglulegan hjartslátt, dregið úr líkum á blóðtappa í æðum, bætir hlutfall bæði góðs og slæms kólesteróls og kemur í veg fyrir að kólesteról setjist innan á æðarnar.

Grænkál

Þetta græna grænmeti inniheldur mikið af vítamínum, steinefnum og trefjum og bæði andoxunarefnum og hefur bólgueyðandi eiginleika. Það er líka mjög ríkt af próteinum.

Bláber

Þau eru stútfull af andoxunarefnum, trefjum og steinefnum. Bláber innhalda einnig mikið af polyphenols, sem kemur í veg fyrir frumuskemmdir sem valda því að æðarnar verði óheilbrigðar.

Valhnetur

Þessar bragðgóðu hnetur innihalda mikið af hollum ómettuðum fitusýrum, próteini og trefjum. Valhnetur má nota í næstum alla rétti til að bragðbæta.

Baunir

Flestar baunategundir eru próteinríkar, fitusnauðar og trefjaríkar. Þær má borða einar sér eða nota í súpur eða pottrétti.

Hvað fleira?

Moore mælir með því að borða lax tvisvar í viku og að neyta þessarar súperfæðu á listanum eins oft og hægt er. Hún tekur einnig fram að til eru aðrar hjartavænar matvörur sem má bæta við þennan hollustulista. Þar má meðal annars nefna túnfisk, jarðaber, granatepli, möndlur og fræ.

Aðrir sérfræðingar mæla auk þess með hvítlauk, rauðvíni í hófi, linsubaunum, ólífuolíu og sardínum.

Öll þessi matvæli eiga að geta lækkað LDL kólesteról/lággæða kólesteról og hækkað HDL/hágæða kólesteról og draga þannig úr óæskilegri söfnun þríglýseríðs í blóði. Þau eiga auk þess að stuðla að jafnvægi í blóðþrýstingi.” Trefjar bæta alla þessa vinnu líkamans, ýta undir framleiðslu góða kólesterólsins og hafa sérlega seðjandi áhrif og minnka þar með líkurnar á því að þú borðir of mikið“, að því er Moore segir.

– Auglýsing –

„Þeir sem vilja bæta heilsu sína og styrkja hjartað ættu einnig að stunda reglulega hreyfingu“ , bætir Moore við. Hóflegt þyngdarfar og reglulegt eftirlit hjá lækni er líka hluti af heilbrigðum lífsstíl.

Þýtt og endursagt af vef CardioVascular Institute á Beth Israel Deaconess Medical Center