Útilokað að byggja laxeldi eingöngu uppi á landi

Samanburður á landeldi og sjóeldi:

Arnar Freyr Jónsson, rekstrarstjóri Samherja fiskeldis í Öxarfirði.
Arnar Freyr Jónsson, rekstrarstjóri Samherja fiskeldis í Öxarfirði.

Arnar Freyr Jónsson, rekstrarstjóri Samherja fiskeldis í Öxarfirði,segir að útilokað sé að byggja laxeldi eingöngu upp á landi. Þetta kom fram í erindi sem Arnar Freyr hélt á ráðstefnunni Strandbúnaður 2018 á Hótel Grand í síðasta mánuði. Hinsvegar séu margir kostir við landeldi á laxi þótt þeir vegi ekki upp á móti þáttum eins og kostnaði og mannahaldi miðað við sjóeldið.

Samherji fiskeldi rekur landeldisstöðina Silfurstjarnan í Öxarfirði. Á síðustu árum hefur stöðin alið bæði bleikju og lax en í ár verður þar eingöngu um laxeldi að ræða og reiknað er með um 1.300 tonna framleiðslu í ár. Á næsta ári er áætlað að framleiðslan nái 1.600 tonnum.

Stöðugt umhverfi og framleiðsla

„Meðal kosta við landeldið umfram sjóeldið má nefna þætti eins og stýringu á umhverfisþáttum, það er breytilegt árferði og óstöðugar umhverfisaðstæður eru ekki til staðar í landeldinu eins og í sjóeldinu,“ segir Arnar Freyr. „Einnig má nefna að í landeldinu er framleiðslan stöðug en ekki árstíðabundin og minni sjúkdómahætta fylgir landeldinu. Við þetta má svo bæta þáttum eins og að laxalús er ekki vandamál í landeldinu og þar er engin hætta á slysasleppingum.“

Í máli Arnars Freys kemur fram að hvað varðar ókosti landeldis umfram sjóeldi sé það einkum stærðarhagkvæmnin og kostnaðurinn sem spili stórt hlutverk. Hann nefnir sem dæmi að Silfurstjarnan sé nú með 26 ker í notkun sem samtals eru 28 þúsund rúmmetrar að stærð. Kvíaþyrping með 10 sjókvíjum sé hinsvegar um 300 þúsund rúmmetrar að stærð.

„Og hvað kostnaðinn varðar má áætla að nýfjárfestingar í landeldi séu að minnsta kosti tuttugufalt dýrari en í sjóeldinu,“ segir Arnar Freyr.

Launakostnaður og landrými

Fram kemur í máli Arnars Freys að aðrir þættir sem halla á landeldið miðað við sjóeldið séu m.a. launakostnaður og landrými. „Í landeldið þarf mun fleira starfsfólk á hvert framleitt tonn en í sjóeldinu,“ segir Arnar Freyr. „Þá þarf landeldið mikið landrými eða á bilinu tvo til þrjá hektara á hver framleidd 1.000 tonn. Land almennt er dýrt og eftirsóknarvert og það dregur úr stækkunarmöguleikum landeldis miðað við sjóeldið.“

Arnar Freyr nefnir einnig að vatnsnotkun hamlar stærð landeldis. Þannig þurfi um 1.000 lítra á sekúndu fyrir framleiðslu á 1.000 tonnum af laxi á ári. 10 þúsund tonna laxeldi á landi þyrfti því 10 þúsund lítra af vatni á sekúndu en til samanburðar er það tvöfalt virkjað rennsli hjá Mjólkárvirkjun, stærstu virkjun Vestfjarða. Því til viðbótar þyrfti um 500 lítra á sekúndu af heitu vatni til að halda kjörhita á fiskinum, en það er talsvert meira en hitaveita Norðurorku hefur aðgang að í dag. Arnar Freyr bendir síðan á að umtalsverða raforku þurfi til dælingar á bæði köldu og heitu vatni en landeldið njóti engra afsláttarkjara við kaup á þeirri raforku.dælingar

Sama mengun

Arnar Freyr segir aðhlutfallslega sé sama magn lífrænna úrgangsefna í landeldi og sjóeldi. Hinsvegar séu úrgangsefni í frárennsli landstöðva mjög útþynnt og dreifast jafnt yfir árið. Frárennslið rennur út í sjó þar sem úrgangsefnin í því brotna hratt og auðveldlega niður. Í sjóeldinu eru hin lífrænu úrgangefni aftur á móti staðbundnari undir kvíjunum.

„Ef þetta er allt tekið saman má segja að útilokað sé að byggja laxeldi eingöngu upp á landi,“ segir Arnar Freyr. „Þótt aðgengi að vatni, hita og plássi séu takmarkandi fyrir uppbyggingu landeldis má segja að Ísland standi vel þar að vígi í samanburði við önnur lönd. En eins og áður segir er landeldið ekki samkeppnishæft við sjóeldið hvað kostnað varðar. Hinsvegar er ljóst að laxeldi hvort sem er á sjó eða landi er umhverfisvæn framleiðsla.“