Fullkomnasta sláturskip í heimi aðstoðar við laxslátrun

Veðrið á Vestfjörðum hefur verið með versta móti í vetur. Snjóflóð hafa verið tíð og ekki orðið annað eins tjón í byggð að þeirra völdum í 25 ár. Sem betur fer hafa hamfarirnar nú ekki valdið mannskaða en eignatjónið er mikið. Vegir hafa skemmst, raflínur sem standast eiga verstu veður hafa gefið sig og hross drepist í haga nú í vetur sem er líklega einn sá harðasti í áratugi. Það er mikil blessun að ekki hafi orðið mannskaði á Vestfjörðum í hamförunum vetur.

Fiskeldið hefur ekki farið varhluta af því hamfaraveðri sem verið hefur á Vestfjörðum og eru afföll fisks í Hringsdal í Arnarfirði meiri en áætlanir gerðu ráð.  Ástand fisks á öllum öðrum eldissvæðum: Tjaldanesi, Laugardal og Þúfnaeyri, er hinsvegar með miklum ágætum. Ofsaveðrið hefur ekki valdið tjóni á búnaði og ástand eldiskvía er gott.

Starfsmenn Arnarlax hafa unnið að því síðustu daga að fá fleiri skip á svæðið til að hægt verði að vinna hratt úr aðstæðum í Hringsdal. Sláturskipið Norwegian Gannet er komið til landsins til að aðstoða við slátrun við þær erfiðu aðstæður sem nú hafa skapast vegna veðurofsans í vetur.  Skipið hefur reynst vel þar sem komið hafa upp neyðaraðstæður við sjókvíar. Það er varla hagkvæmt að sigla skipinu frá Noregi í svona verkefni nema í því neyðarástandi sem hamfaraveðrið hefur skapað.  Hugleiðingar um að skipið sem er eina sinnar tegundar muni taka yfir vinnslu í landi, eiga sér ekki stoð í raunveruleikanum. Gríðarleg fjárfesting hefur átt sér stað í stækkun vinnslunnar á Bíldudal og áætlanir um enn meiri uppbyggingu á hafnarsvæðinu á Bíldudal á næstu árum.