Hvað er að gerast hér?
Verð á laxi hefur ekki verið lægra í þrjú ár. Síðustu þrjár mánuði hefur kílóverðið verið undir 5 evrum og verðin aldrei verið lægri á tímabilinu frá 2017 til 2019 en þau eru nú. Í október féll verð á laxi niður í 4.33 evrur sem er 47% lækkun frá því fyrir tæpum þremur árum eða í janúar 2017 þegar kílóaverðið var hæst 8,16 evrur.
Skýringin á lágu laxaverði nú er óvenju mikið framboð síðustu mánuði og auk þess sem hlutfall lítilla verðminni fiska (3-4 kg) hefur verið umtalsvert meira en verðmætari premium fiska sem eru 6 kíló eða meira. Flest bendir til þess að meðalverð ársins 2019 verði um 5,7 evrur á kíló sem var 6,2 evrur árið 2018. DNB bankinn í Noregi spáir að meðalverð 2019 endi í 5,9 evrum á kíló. Frá árinu 2017 til 2019 hefur meðalverð laxafurða lækkað um 10%. Mesti verðstöðugleiki síðustu þriggja ára er í mars og apríl þegar verðið hefur að jafnaði verið um eða yfir 7 evrur. Fishpool spáir lítilli breytingu á milli ára og að meðalverðið muni hækka um 3% árið 2020 eða í 5,86 evrur á kíló.
Hvað þýðir þetta?
Á tímabilinu 2017 til 2019 hefur framleiðsla á laxi í Evrópur aukist um 8% á sama tíma hafa verðin lækkað um 10%. Aukið framboð hefur ekki haldist í hendur við eftirspurn sem hefur verið stöðugri og afurðaverð því lækkað. Þar fyrir utan er töluvert magn af Chile laxi flutt inn á Evrópumarkað sem er ekki inn í þessum tölum.
Hvernig varðar þetta mig?
Flest bendir til þess að stöðugleiki verði á markaðnum 2020 og litlar breytur á milli ára. Lágt verð síðustu mánuða er á hraðri uppleið og er nú þegar komið í 5,14 evrur á kíló. Það verður hinsvegar spennandi að fylgjast með hversu hratt Kínverski markaðurinn tekur við sér sem gæti breytt heildarmynd næsta árs töluvert og sérstaklega fyrir útflutning frá Íslandi sem nýtur þeirrar sérstöðu að vera með fríverslunarsamning við Kína eins og reyndar Chile.
Stóra myndin
Stöðugleiki markaðarins síðustu þrjú ár er að miklu leiti vegna þess hversu takmörkuð tækifæri hafa verið til að stækka markaðssvæðið. Kína hefur ekki verið stór markaður fyrir evrópska laxinnn en er engu að síður langstærsti neytendamarkaður sjávarafurða í heiminum. Bann við innflutningi á norskum sjávarafurðum til Kína var aflétt á síðasta ári og allt útlit er fyrir að þessi risa markaður sé að opnast fyrir evrópskar sjávarafurðir í Kína og öðrum Asíuríkjum. Mikill útflutningur Kínverja til Evrópu hefur gjörbreytt flugsamgöngum sem skapar hagkvæmari útflutningstækifæri með flugsamgöngum á ferskum laxi frá Evrópu til Asíu.
Fjögur kínversk flugfélög hafa sett stefnuna á Íslandsflug á næsta ári. Eitt þeirra, Juneyao Air, hyggst hefja flug frá Kína til Íslands með viðkomu í Helsinki næsta vor. Líklegt er að fríverslunarsamnigur Íslands og Kína og bættar flugsamgöngur muni breyta stóru myndinni gagnvart íslenskum útflutningi á laxi í nánustu framtíð þar sem eru mjög spennandi tímar framundan og útliti fyrir mikil vaxtartækifæri.