Hvers vegna er ekki meira af laxi?

Ólafur Sigurgeirsson skrifar:

Hvers vegna er ekki meira af laxi?  Þeirrar spurningar var m.a. spurt fyrir meira en 20 árum, og sjálfsagt bæði fyrr og síðar (https://www.fs.fed.us/…/1998_parrish_etal_reeves_cjfas_atla…). Engar viðhlítandi skýringar voru til þá og eru ekki enn, en hvatt til að leita þeirra víða og með opnum huga. Í mörgum löndum við Atlantshafið hefur fiskirækt á laxi verið stunduð í meira en 120-150 ár. Hún hefur einkum byggst á að taka klakfisk úr ám til framleiðslu seiða sem síðan var sleppt aftur í ár. Lengi vel var slíkum eldisseiðum af villtum uppruna sleppt hingað og þangað- þar sem talið var að seiði skorti í ám og nýliðun væri ónóg. Þá sögu þekkjum við ágætlega á Íslandi, og sjá má m.a. í skýrslu fyrrum Veiðimálstofnunar.

Á síðari árum voru hinsvegar sett skilyrði um að ef sleppa ætti seiðum í á skyldu þau vera upprunnin úr vatnakerfinu. Slíkar reglur voru t.d. settar árið 1985 í Noregi en síðar á Íslandi. Fram að þeim tíma hafði mörgum tugum milljónum seiða verið sleppt hist og her. Hér á landi eru, til viðbótar við þessa tegund fiskiræktar, enn umtalsverðar seiðasleppingar í nokkrar ár sem ekki bera náttúrulega laxastofna.

Erfðafræðilegur uppruni fiska sem sleppt er í „ónáttúrulegar laxveiðiár“ mun vera nokkuð á reyki. Þekkt er að fiskur úr fiskirækt (alinn í seiðastöð) á erfiðara með að finna sína heimaá í samanburði við villt seiði. Því er líklegra að villugöngur þeirra séu meiri en endurheimtur að jafnaði mun minni. Skiptir það einhverju máli fyrir náttúrulega laxastofna? Nei líklega ekki og ekki verður heldur séð að áratuga langar seiðasleppingar í aðrar ár hafi haft einhver sérstök erfðafræðileg áhrif – ef marka má stofnasamanbuðrarrannsóknir í íslenskum laxveiðiám. Hvað hefur þá orðið um þetta „framandi“ erfðaefni sem komið hefur í árnar í gegn um tíðina (t.d. voru um 40% laxa í Elliðaám taldir af eldisuppruna á níunda áratugnum)?

Gagnrýnendur laxeldis í kvíum, sem jafnframt telja sig vini og verndara villtra laxastofna, hafa einblýnt á þá kenningu að villtum laxastofnum stafi mest hætta af eldislaxi, einkum ef hann sleppur úr kvíunum og blandist við villta stofna. Niðurstaðan muni verða að eldislaxinn útrými villtu laxastofnunum. Sú kenning kom fram um 1990, m.a. af Hindar ofl. 1991 (https://www.nrcresearchpress.com/doi/abs/10.1139/f91-111…) í kjölfar þess að mikið hrun hafði orðið í viltum laxastofnum hvarvetna við N-Atlantshafið árin á undan. Þetta hrun varð þó meira í löndum suðlægari útbreiðslu laxins og á svæðum þar sem ekkert laxeldi í kvíum var eða er stundað. Ekki hefur enn tekist að sýna fram á raunveruleika þessarar kenningar, þrátt fyrir að mikill fjöldi fræðimanna hafi hamast um árabil við að reyna að staðfesta þessa tilgátu.

Árlega frá árinu 2014 hefur hópur norskra vísindamanna komið fram með nánast orðrétt samhljóða skýrslu um erfðablöndun villtra laxastofna við eldisstofna í Noregi (https://brage.nina.no/nina-xmlui/handle/11250/2619889). Þar er erfðablöndun metin, í nánast hverri á sem lax finnst (niður í ár sem gefa 5-10 laxa), út frá hlutfalli eldislaxa í metnum klakfiskastofni sem ganga á árnar. Það mat gefur þó ekki gott viðmið við mögulega erfðablöndun því margar rannsóknir hafa sýnt að eldislax á ekki gott með að blandast við villtan lax.

Nýjustu rannsónkir benda til að hæfni eldislaxa til að ljúka lífsferli sínum sé um 3,5-5,2% af hæfni villtra stofna. Það eitt sýnir gott dæmi um hvað eldislax á erfitt uppdráttar við að koma út erfðaefni sínu. Þær mögulegu breytingar sem orðið hafa á tíðni óvirkra svæða í erfðaefninu, utan virkra gena (SNP eða örtungla) miðað við áratuga gömul sýni sem höfð eru til viðmiðunar geta mjög vel átt aðrar skýringar en erfðablöndun við eldislax, þó eldislax hafi vissulega í sumum tilfellum náð að æxlast í ánum. Matið á á erfðafræðilegri samsetningu stofns getur ekki auðveldlega skilið á milli hvort hún hefur orðið vegna blöndunar við eldislax, orðið vegna náttúrulegrar villugöngu laxa (sem er nauðsynleg til að viðhalda erfðabreytileika), vegna náttúrulegs genareks (genetic drift – sem ekki er ólíkleg sérstaklega í litlum stofnum) eða eigi jafnvel rætur til fyrri seiðasleppinga í fiskræktarskyni.

Í samhengi útbreyðslu meintrar erfðablöndunar er einnig vert að hafa í huga að í Noregi þurrkuðust laxastofnar í 42 ám í SV-Noregi út að talið var vegna súrs gegns í kringum 1980 og að auki hafa laxaseiði í 55 ám verið þurrkuð út með rótenoni til að ráða niðurlögum sníkjudýrsins Gyrodactilus salaris. (Það hefur tekist vel en nú eru aðeins 7 ár taldar smitaðar. Þess má geta að sníkjudýrið er talið hafa borist frá Svíþjóð árið 1975 með laxaseiðum sem sleppt var í laxveiðiár í fiskræktarskyni). Endurheimt laxastofna og breytingar á erfðasamsetningu í þessum ám getur því vitaskuld verið af margvíslegum uppruna og erfðabreytingarnar ekki augljóslega vegna blöndunar við eldislax.

Í nýjustu skýrslu norska vísindahópsins (og í öðrum skýrslum) er sýnilegt að ganga sloppinna eldislaxa í norskar ár fer minnkandi og hefur farið minnkandi ár frá ári þrátt fyrir vaxandi laxeldi í Noregi síðustu áratugi. Ótrúlega lítið er gert úr þeirri staðreynd og einnig því að bæði laxa- -og urriðastofnar virðast sumstaðar vera vaxandi á þeim svæðum þar sem ógnin af laxeldinu hefur verið metin hvað mest af sömu aðilum, t.d. í Harðangursfirði í Noregi. Einvern veginn er þetta á skjön við áðurnefndar fyrri kenningar um að flúinn eldislax muni útrýma villtum laxi (og eða laxalús strá-drepi gönguseiði og urriða). Jafnframt hefur það aldrei fengist útskýrt á viðunandi hátt hvernig eldislax. sem hefur verið gerður að húsdýri eftir 12-14 kynslóða kynbætur, eigi að útrýma villtum laxastofnum sem hafa betri hæfni til að komast af og eru aðlagaðir að náttúrulegum aðstæðum í kynslóðir.

Ótal margar rannsóknir sýna og staðfesta lakari hæfni eldisfisks í náttúrunni í samanburði við villtan fisk og það á einnig við um önnur dýr sem reynt hefur verið að ala upp en sleppa í náttúruna.. Það er eins og menn séu hættir að trúa á kenningar Darwins um náttúruval. Sýnt hefur verið fram á að strax á fyrstu kynslóð í eldi (að taka hrogn villtra fiska og klekja og ala við eldisaðstæður) verður breyting á tjáningu mörg hundruð gena hjá laxfiskum, að því er virðist í þágu eldisumhverfisins (https://www.nature.com/articles/ncomms10676). Munurinn endurspeglast líklega einnig m.a. í þekktum mismun á endurheimtum villtra seiða og eldis-gönguseiða sem sleppt hefur verið í laxveiðiár hér á landi.

Hvers vegna er þá villti laxinn á undanhaldi? Á því er ekki til nein ein viðhlýtandi skýring en margar kenningar. Þær eru of umfangsmiklar til að ræða hér. Viðtekin staðreynd er þó að laxinn virðist skila sér mun ver úr hafi en fyrir nokkrum áratugum og gildir það um allt útbreyðslusvæði hans. Endurheimturnar eru sérlega litlar á sunnanverðu útbreyðslusvæðinu í N-Atlantshaf, bæði að austan og vestan. Sumstaðar er nýliðun einnig orðin afar lítil vegna lélagra laxagangna upp í árnar um ára bil og mögulegrar ofveiði. Þrátt fyrir það stunda menn áfram stangveiði (og jafnvel netaveiði) en sleppa fiskinum af króknum, líklega í friðþægingarskyni.

Að veiða og sleppa fiski hefur t.d. verið stundað á Englandi og í Skotlandi (bæði austan og vestan, en ekkert laxeldi er í austur Skotlandi) í áratugi og nú er sumstaðar nánast öllum fiski sleppt eftir veiði. Engu að síður eru stofnarnir á niðurleið, en veiðiálagið minnkar samt ekki!. Og einnig þarf að spyrja hvort og hversu miklar stofnerfðafræðilegar afleiðingar veiðarnar sjálfar hafa. Það er margt sem bendir til þess að áhrif veiðanna séu umtalsverð og ekki ætti að horfa framhjá því. Veiðarnar eru veljandi í sjálfum sér og því hluti af „náttúruvali“. (https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3352430/).

Erfðabreytileiki lífvera á jörðinni er talinn mjög þverrandi. Hann er hinsvegar mjög mikilvægur, bæði innan tegundar og stofna, svo hvoru tveggja geti staðist náttúruval síbreytilegrar náttúru og umhverfisáhrifa. Í nýrri rannsókn var virk stofnstærð (Ne) hjá 172 stofnum víða úr N-Atlantshafi skoðuð. Niðurstaðan var að hún hefði minnkað hjá meira en 60% laxastofna. Helsta skýringin var talin tengd breytingum á hitastigi, bæði í ferskvatni og sjó. Önnur helsta niðurstaðan var að erfðabreytileiki innan stofnanna hefði minnkað umtalsvert, einkum tendum genum hvar hitastig virðist skipta miklu máli, svo sem við þroskun, lífeðlisfræðilega ferla og æxlun (https://www.nature.com/articles/s41467-019-10972-w). Afar lítið er gert úr þætti laxeldis og erfðablöndunar sem skýringar á hnignun laxastofna og þverrandi erfðabreytileika.

Niðurstaðan er að ekki dugar að leita einfaldra skýringa á hnignun laxastofna í N-Atlantshafi. Látlaus áróður gegn laxeldi í kvíum verður aldrei annað en einmitt það, fyrr en viðunandi raunverulegar mælingar og niðurstöður sýna samhengið milli kvíaeldis og hnignunar laxastofna. Á sama tíma er leitin að öðrum skýringum vanrækt, en af nógu er að taka. Hvers vegna var laxveiðin á Íslandi svona léleg þetta sumarið? Hvers vegna veiddist enginn eldislax í íslenskum láxveiðiám þetta sumarið -þrátt fyrir vaxandi laxeldi? Hvernig ætlar Hafrannsóknarstofnun að nota þá niðurstöðu þ.e. töluna núll í margfeldinu í sínu áhættumati erfðablöndunar og hvernig samræmist raunveruleikinn líkaninu sem haft er til grundvallar þetta árið?

https://fiskeribladet.no/nyheter/?artikkel=69632&fbclid=IwAR0XmsuW-Z-dto6YXbc9GxwgvIVh2vIic3fWFWaUK8OUrTPRw1BL3P74q8g

Höfundur er lektor í Fiskeldis- og fiskalíffræðideild við Háskólann á Hólum.