Arnarlax og Fisktækniskóli Íslands hafa gert með sér samning um fræðslu starfsfólks í fiskeldi.
Námið er hagnýtt og hefur að markmiði að auka sérþekkingu starfsfólks á rekstri og öryggismálum á sínu starfssviði. Námið stendur sem sjálfstætt námsframboð, en gengur jafnframt að fullu til eininga og samsvarar þá einnar annar námi á námsbraut Fisktækniskóla Íslands í Fisktækni með sérstaka áherslu á fiskeldi.
Björn Hembre forstjóri Arnarlax segir mikilvægt að byggja upp námsbraut í fiskeldi. „Laxeldi er í örri þróun. Við verðum að tryggja að starfsmenn okkar hafi tækifæri til menntunar og fræðslu í greininni. Markmið okkar er að 50% starfsmanna ljúki því námi fiskeldi sem við höfum nú samið við Fisktækniskóla Íslands að hafa umsjón með og þróa til framtíðar í samræmi við þá hröðu þróun sem á sér stað í greininni. Við stefnum að því að hámarka framleiðsluna og því mikilvægt að auka sérþekking starfsmanna. Hjá Arnarlaxi starfar frábært starfsfólk og við teljum mikilvægt að tryggja því tækifæri til að byggja upp sérþekkingu í greininni og vaxa í störfum sínum hjá okkur til lengri tíma,“ segir Björn sem á frumkvæði að þessu mikilvæga verkefni.
Gert er ráð fyrir að um 20 starfsmenn Arnarlax hefji nám á brautinni nú í haust. Náminu verður síðan dreift á þrjár annir þannig að flestir geti stundað námið samhliða vinnu og þannig tengt einstaka námsþætti við dagleg störf. Kennt verður á Bíldudal og öðrum starfsstöðvum á Vestfjörðum í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða, en einnig verður notast við fjarfundi.
Starfsmönnum Arnarlax, sem taka þátt í verkefninu, verður boðið í raunfærnimat og þannig gefið tækifæri til að fá reynslu sína og fyrra nám metið til eininga á brautinni. Þá mun skólinn skilgreina leiðir fyrir þátttankendur, þannig að þeir geti lokið formlegu námi sem „Fisktæknar“ – óski þeir þess.
Markmið samstarfsaðila er að koma á samræmdu starfsnámi fyrir starfsfólk í fiskeldi sem öll fyrirtæki í greininni geta boðið sínu starfsfólki.
Kennsluefni er unnið af Fisktækniskóla Íslands og í samstarfi við Guri Kunna og Froyja Vgs í Þrándheimi og Strand Vgs í Stavanger, en skólarnir í Noregi munu einnig leggja til námsefni og sérþekkingu á einstaka sviðum.
Fisktækniskóli Íslands, Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Háskólinn að Hólum eru, ásamt Norðmönnum og Skotum þátttakendur í tveimur þriggja ára samstarfsverkefnum á sviði fiskeldis (BlueEdu og BlueMentor). Markmið verkefnanna er m.a., að vinna að samræmingu náms og kennslu almenns starfsfólks í greininni og mun þetta verkefni, sem Fisktækniskólinn og Arnarlax setja á laggirnar nú í haust njóta góðs af því samstarfi.