Segja áskorun Hafró ekki verja ástand laxastofna

Í aðsendri grein sem birtist á Vísi í dag undir fyrirsögninni „Þegar áskorun verður ráðgjöf“ gagnrýna vísindamennirnir Dr. Þorleifur Ágústsson fiskalífeðlisfræðingur og Dr. Þorleifur Eiríksson dýrafræðingur áskorun Hafrannsóknarstofnunar til veiðifélaga og stangveiðimanna sem birtist á vef Hafró 19. júlí s.l. Í áskoruninni er þess óskað að veiðifélög og stangveiðimenn gæti hófsemi í veiði og að sleppa sem flestum löxum eftir veiði þar sem ljóst er að laxagöngur eru litlar í sumar. „Þetta er mikilvægt til að hrygningarstofninn í haust verði eins sterkur og unnt er,“ segir í áskorun Hafrannsóknarstofnunar. Ennfremur kemur þar fram að það sé á valdi veiðimanna að gæta þess að hrygningarstofnar séu nægilega stórir til að nýta þau búsvæði sem árnar búa yfir til seiðaframleiðslu. „Miðað við núverandi aðstæður er ljóst að hrygningarstofnar haustsins verða með minnsta móti,“ segir í niðurlagi áskorunar Hafrannsóknarstofnunar.

Dr. Þorleifur Ágústsson fiskalífeðlisfræðingur og Dr. Þorleifur Eiríksson dýrafræðingur.

„Veiða og sleppa“

Í meginmáli er áskorunin ábending til stangveiðimanna um þá umdeildu aðferð, að veiða og sleppa. Í greininni gagnrýna þeir vísindaleg gildi slíkrar áskorunar. „Hér er ekkert verið að velta fyrir sér hver séu raunveruleg áhrif slíkrar meðferðar, hvorki á fiskinn sem einstakling, né stofninn í ánni. Allt þetta, þrátt fyrir að fjölmargar vísindagreinar hafi fjallað nákvæmlega um það, hvaða áhrif slík meðferð hefur á laxinn sem því miður endar oft með að laxinn drepst. En þegar kemur að umræðu um dýravelferð þá má ekki ræða þetta. Í besta falli gleymist það.“

Ráðgjöf Hafró er lykilatrið

Dr. Þorleifur Ágústsson segir opinberu eftirliti með laxveiðiám á Íslandi og viðbrögðum við alvarlegu ástandi ábótavant.  „Í Noregi er það hlutverk Umhverfisstofnunnar að halda úti stöðugu eftirliti með ástandi villtra laxastofna.  Stofnunin grípi strax til viðeigandi aðgerða þar sem þess er þörf.“  Hátt hitastig og þurrkar síðustu ára hafa einnig haft neikvæð áhrif á villta laxastofna í Noregi en veiðifélög og Umhverfisstofnun þar í landi hafa brugðist við með afgerandi aðgerðum og ekki látið einföld tilmæli nægja.

Ábyrgðin hjá veiðimönnum

„Það á ekki að vera á valdi veiðimanna að meta ástand hrygningarstofna.  Eins og hér í Noregi þarf ábyrgðin að vera hjá opinberum eftirlitsstofnunum og virkja þarf viðbragðsáætlanir á grundvelli rannsókna þar sem þess er þörf.  Í Noregi eru mörg dæmi þess að veiðitímabilið sé stytt. Byrjað er á því að fækka stöngum og ástandið metið í kjölfarið,“ segir hann og bendir á dæmi þess að í Noregi hafi veiðar alfarið verið stöðvaðar þar sem ástandið er verst. Í greininni segja þeir áskorun Hafrannsóknarstofnunar í raun til þess fallna að vinna gegn hagsmunum laxveiðimanna, laxins sjálfs og menningu þjóðarinnar. Hafrannsóknarstofnun ætti að taka virkan og ábyrgan þátt í stjórnun laxveiða í ám. Stjórna uppbyggingu íslenska laxastofnsins með því að beita sömu aðferðum og gert er með fiskistofna hafsins, takmarka eða banna veiðar.

Fiskistofa hefur óskað eftir frekari ráðgjöf vegna áskorunar

Sigurður Guðjónsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunnar segir að á þessu séu tvær hliðar. Önnur er líffræðileg hin lögfræðileg.  „Við viljum vernda og tryggja að laxastofnar viðhaldi sér. Veiðar eiga að vera sjálfbærar. Hafrannsóknastofnun er rannsókna- og ráðgjafarstofnun og þar er hennar hlutverk“, segir Sigurður og bendir á að veiðifélög landsins séu í raun stjórnvald þegar kemur að veiðum á þeirra félagssvæði. Veiðifélögum ber að skila inn nýtingaráætlun til Fiskistofu til samþykktar.

„Nú sendum við út áskorun þar sem allt stefnir í að hrygning verði víða lítil í haust. Vel er fylgst með seiðabúskap í laxveiðiám og mun árangur hrygningar í haust sjást á næsta ári og komandi árum. Stofnar eru ekki í stórhættu þó einn árgangur sé slakur en ef slíkt ástand verður viðvarandi þarf að grípa til aðgerða,“ segir Sigurður.  Guðni Magnús Eiríksson er sviðsstjóri lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu.  Hann segir Fiskistofu nú þegar hafa óskað eftir ráðgjöf frá Hafrannsóknastofnun í tilefni af áskorun Hafrannsóknastofnunar. „Ekki hefur verið ákveðið hvort eða til hvaða aðgerða verði gripið til vegna stöðunnar,“ segir Guðni.

Þrátt fyrir að stjórnvaldið sem slíkt sé hjá veiðifélögum á þeirra félagssvæðum getur Fiskistofa bannað veiðar meti Hafrannsóknarstofnun ástand stofna á þann veg.  Í Noregi er stjórnvaldið alfarið hjá Umhverfisstofnun sem heldur úti stöðugu eftirliti með villtum laxastofnum. Umhverfisstofnun hér á landi hefur stjórnvald og eftirlitskyldur með veiðum á öllum villtum dýrum öðrum en fiskum í ám og vötnum ólíkt Umhverfisstofnun Noregs sem ber ábyrgð á eftirliti með veiðum allra villtra dýra á landi, ám og vötnum.