Fjárstyrkir í nafni "verndunar á villtum laxi"

Dr. Þorleifur Ágústsson skrifar:

2019 er ár villta laxins. Það er jú alveg ljómandi enda mikilvægt að vernda svo mikilvægan hluta af sögu okkar sem laxinn er.
Laxinn er mikilvægur. Laxinn á sér langa sögu – langmest einn og sér – en hefur og verið hluti af lífi margra.

Af þessu tilefni hefur villti laxinn fengið eigin heimasíðu hér í Noregi – villaks2019.no og er þar að finna eftirfarandi upplýsingar sem ég leyfi mér að snara yfir íslensku:

„NASCO og NPAFC“ – sem eru samtök til verndar bæði atlantshafs-og kyrrahafslaxinum – hafa ákveðið að árið 2019 sé ár villta laxins. Til að ná þessum markmiðum á að efla alþjóðlegt samstarf um rannsóknir og ræktun. Umhverfisráðuneytið norska vill ennfremur að slíkt verði einnig unnið innanlands í Noregi og hafa því veitt bæði „Norsku skot-og fiskveiðisamtökunum“ ásamt „Norskum laxveiðiám“ fjárstyrk að leiða slíkt verkefni í ár. Markmið verkefnisins og fókus á að vera á villilaxinum og því mikilvæga hlutverki sem hann gegnir í lífi norðmanna.

Nú hefur það ekki farið framhjá neinum að umræðan á Íslandi líkt og í Noregi er að fiskeldi sé nánast að ganga af villta laxinum dauðum. Og því kærkomið að stuðla að því að vernda villta laxinn.

Eða svo mætti ætla.

En bíðum við. Hvernig ætla þessi samtök sem hafa hlotið fjárhagsstyrki í nafni „verndunar á villtum laxi“ að nýta peningana?
Jú með því að laða til sín fleiri áhugamenn um veiðar – á einmitt villta laxinum – sem er samkvæmt þeim sjálfum – í útrýmingarhættu!

Ef þessi ágæta síða villaks2019.no er skoðuð – og hvað þar er boðið uppá – þá er aðal áherslan á námskeið í fluguhnýtingum, fluguveiðum og þar fram eftir götunum.

Hvernig má það vera að þeir sem berjast hvað mest – að eigin sögn – fyrir verndun villta laxsins eru einmitt þeir sem leggja hvað mest á sig við að búa til nýja veiðimenn? Hvernig má það vera í þágu villta laxins?

Hér hlítur auðvitað að vera einhver grundvallar misskilningur á ferðinni. Í það minnsta á ég erfitt sem fræðimaður að skilja það samhengi.

Hví ekki að segja eins og er. Laxveiðar eru bisness. Og til þess að sá bisness gangi þarf veiðimenn.

Það er hið besta mál.

En, köllum þetta réttum nöfnum og verum ekki alltaf að blanda þessu saman – laxveiði er ekki til þess fallin að vernda villtan lax.

Höfundur er doktor í dýra­lífeðlis­fræði.