"Staðreynd er að laxeldi í kvíum er sú dýrapróteinframleiðslu sem hefur minnst umhverfisáhrif"

Ólafur Sigurgeirsson, lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum skilaði vísindalegum athugasemdum sínum inn á samráðsgátt Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins vegna draga að frumvarpi til laga um breytingar á lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.  Grein Ólafs hefur vakið mikla athygli og er því tilefni til að birta hana í heild sinni hér á vef Fiskeldisblaðsins.

Ólafur Sigurgeirsson, lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Umsögn eða athugasemd þessi snýr að áhættumati Hafrannsóknarstofnunarinnar vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi.

Ólafur I. Sigurgeirsson
Lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum.

Inngangur.

Staðreynd er að laxeldi í kvíum er sú aðferð dýrapróteinframleiðslu sem hefur einna minnst umhverfisáhrif. Fyrir uppbyggingu kvíaeldis er gerð krafa um mat á umhverfisáhrifum. Við matsgerðina er ætlast til að besta mögulega þekking og traustustu upplýsingar séu notaðar til að reyna að sjá fyrir hugsanleg umhverfisáhrif starfsemi eða framkvæmdar í bráð og lengd. Í tengslum við uppbyggingu laxeldis í kvíum hér á landi hefur mest verið fjallað og deilt um hugsanlega erfðablöndun norsks kynbætts eldislax við villta íslenska laxastofna. Til að koma til móts við ólík sjónarmið voru með reglugerð (2004) ákveðin landsvæði afmörkuð hvar kvíaeldi á frjóum eldislaxi mætti fara fram. Uppbygging atvinnugreinarinnar hefur síðan þá tekið mið af því auk burðarþolsmats á einstaka fjörðum innan svæðanna.

Hafrannsóknarstofnun lagði í júlí 2017 fram svonefnt áhættumat vegna hugsanlegrar erfðablöndunar laxastofna (Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi; http://www.hafogvatn.is/wp content/uploads/2016/11/hv2017‐027.pdf). Matinu er ætlað að gegna lykilhlutverki við stefnumótun og uppbyggingu laxeldis í kvíum við strendur Íslands og er lagt til grundvallar við úthlutun starfs‐ og rekstrarleyfa og heimilt framleiðslumagn á hverju svæði. Áhættumatið er því einnig nátengt umhverfismati hverju sinni. Við útgáfu áhættumatsins og kynningu á því var tekið fram að um lifandi plagg væri að ræða sem kæmi reglulega til endurskoðunar í krafti nýrri og betri upplýsinga. Í ágripi og formála er þess getið að notast sé við bestu fáanlegu gögn bæði innlend og erlend til að leggja mat á hugsanlega erfðablöndun.

Með þessari athugasemd er orðið við þeirri hvatningu og ábendingar dregnar fram sem vísa til að ekki er notast við bestu fáanlegu gögn og staðreyndir. Mikilvæg gögn og nýjar upplýsingar frá útkomu áhættumatsins, sem varða forsendur og leitt geti til annarar niðurstöðu, hafa komið fram liggja fyrir. Ekkert tillit hefur verið tekið til þeirra við endurskoðun áhættumatsins. Að mati undirritaðs væri rangt ef lagagrundvöllur fyrir laxeldi í kvíum verður byggður á áhættumatinu eins og það liggur fyrir. Forsendur áhættumatsins eru rangar, byggja ekki á nýjustu gögnum um fjölda strokulaxa sem sleppa úr eldi, afdrifum þeirra í villtri náttúru, mögulega erfðablöndun við villta stofna né staðreyndum um framkvæmd nútíma laxeldis sem hafa áhrif á hugsanlega erfðablöndun.

Mikilvægustu spurningarnar sem þarf að leitast við að svara varðandi hugsanlega erfðablöndun eldislaxa við villta laxa eru:

  1. Hversu margir eldislaxar strjúka úr eldiskvíum?
  2. Hversu margir strokulaxar lifa af og geta tekið þátt í æxlun?
  3. Munu strokulaxar sem æxlast hafa varanleg erfðafræðileg áhrif á villilaxastofninn eða mun náttúruvalið standa gegn erfðablönduninni?

Gagnvirka áhættulíkanið og fjöldi strokufiska.

Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar um áhættulíkanið segir m.a. að tilgangur þess sé að gefa rétta mynd af fjölda stokufiska sem gætu tekið þátt í klaki í hverri á, enda sé sá fjöldi í beinu sambandi við áhættu á erfðablöndun. Ekki eru þó færð frekari rök fyrir að um slíkt beint samband sé að ræða og hvernig því er háttað. Fullyrðingin stangast á við raunverulegar athuganir (sjá t.d. Skaala et al. 2016). Ekki er sjálfgefið að eldislax eigi hlutdeild í æxlun og erfðablöndun villtra stofna þó hann gangi upp í ár.

Lagt er upp með að þröskuldsgildi yfir hlutfall strokulaxa í laxastofni ár megi að hámark verða 4% en þá sé engin eða nær engin hætta á neikvæðri erfðablöndun við villta stofna. (Nánar er fjallað sérstaklega um þröskuldsgildið hér neðar). Því er ljóst að auk fjölda eldisfiska sem sleppa og líklegir eru til að ganga upp í tiltekna á (kallað Fa‐ í líkaninu) er stærð villts laxastofns í viðkomandi á lykilþáttur (kallað Aa –í líkaninu). Til viðbótar þessum breytum eru a.m.k. 9 aðrar breytur í líkaninu sem hver og ein getur í mörgum tilfellum verið háð nokkrum öðrum innbyggðum breytum, þó ekki sé alltaf gerð tilraun til að skilgreina þær eða skýra nánar. Við þær bætast allar þær breytilegu aðstæður sem finna má í sjó og í einstaka ám auk ástands og samsetningar (einnig stofnerfðafræðilegrar) laxastofna sem þær bera. Niðurstöður líkansins eru síðan notaðar til að meta hvar óhætt er að stunda laxeldi í kvíum án þess að of mikil áhætta sé tekin m.t.t. erfðablöndunar við villta stofna. Við slíka tilraun skiptir auðvitað megin máli hvaða forsendur menn gefa sér fyrir hverja og eina breytu og hvaða tölur eru settar inn í líkanið. Vert er að skoða nokkrar breytanna nánar.

Umfang eldis og fjöldi fiska. Umfang eldis (Fx) í firði x‐ mælt í tonnum á ári, og hlutfall þeirra fiska sem sleppa fyrir hvert tonn framleitt (S‐ mælt í fjölda fiska á hvert tonn framleitt): Við þetta mat er stuðst við opinberar tölur frá Noregi um fjölda strokulaxa. Talið er víst að opinberu tölurnar séu undirmat því ekki sé allt strok tilkynnt (Glover et al. 2017) og að það sjáist meðal annars á að samband tilkynnts magns og fjölda strokulaxa fylgist ekki að. Jafnframt er fullyrt að línulegt samband ætti að vera þar á milli.

Niðurstöður tilrauna og uppgefnar og skráðar tölur frá eldisstöðvum á tímabilinu 2005‐2011 voru notaðar á sínum tíma til að þróa reikniaðferð (Monte Carlo) til að leggja mat á raunverulegt strok (Skilbrei et al. 2015). Með öllum fyrirvörum sem settir voru við útreikningana komast höfundar að þeirri niðurstöðu að raunverulegt strok gæti verið 2‐4 sinnum hærra en uppgefnar tölur. Stuðullinn var metinn út frá uppgefnum fjölda tapaðra fiska frá kvíaeldisstöðvunum á áður greindu árabili. Frávikið frá uppgefnum tölum og tölum líkansins var einna líklegast talið stafa af því að ný‐ eða nýlega útsett gönguseiði hafi sloppið í mun meira mæli á þessum árum en menn gerðu sér grein fyrir og tilkynntu. Misræmið var talið helgast einna helst af of stórum möskva í nótapokum (smug smæstu seiða) miðað við stærð og stærðarbreytileika í hópum útsettra seiða á tímabilinu, enda lítið (ca 4%) um tilkynnt tilvik á töpuðum gönguseiðum. Algengast var að gönguseiði af hefðbundinni stærð (50‐ 100g) væru sett út á vorin, snemmsumars eða að hausti á þessu tímabili. Þarna er sumsé kominn stuðullinn (4) sem áhættumatslíkan Hafró notast við til uppreiknings á mati þess fjölda fiska sem sleppa fyrir hvert tonn framleitt. Þannig fæst talan um að 0,8 fiskar strjúki á hvert framleitt tonn.

Árið 2008, þ.e. undir lok áðurnefnds rannsóknartímabils norsku hafrannsóknarstofnunarinnar (MRI) sem stóð frá 2005‐2010, voru settar strangari reglur til að draga úr áhættu við fiskeldi í Noregi. Þar á meðal var krafa um áhættumat við meðhöndlun og flutning seiða í sjó og kröfur til að tryggja að möskvastærð passaði fiskstærðinni og breytileka innan hópsins (Regulation 2008‐06‐17 No. 822). Þessar starfsreglur hafa haft þau áhrif að fjöldi laxa sem sleppur hefur minnkað umtalsvert á síðustu árum. Sé litið á síðustu 16 ár var meðaltalið rúmlega 0,5 laxar á hvert framleitt tonn, á síðustu 8 árum 0,2 laxar og á síðustu 5 árum 0,13 laxar á hvert framleitt tonn (unnið út frá tölum Statistisk sentralbyraa, wwwSSB.no). Þessi þróun hefur orðið á sama tíma og eldið hefur aukist verulega en jafnframt hafa auknar kröfur verið gerðar til alls búnaðar. Að auki hefur þróunin verið í átt að útsetningu stærri seiða hin síðari ár og því má fastlega búast við að færri smáfiskar smjúgi út um möskva. Árið 2018 var elsisframleiðsla á laxi í Noregi rúmlega 1,2 milljónir tonna. Ef notast ætti við þessar gömlu reikniaðferðir fengist að um 960 þúsund laxar hefðu sloppið. Uppgefnar opinberar tölur eru 54 þúsund laxar og þó stuðullinn 4 væri notaður sést hvað þetta er víðsfjarri raunveruleikanum.

Af einhverjum ástæðum er valið að styðjast ekki við nýjustu tölulegu gögn um fjölda strokinna laxa frá Noregi í áhættumati Hafró heldur kosið að nota tölur allt frá tímabilinu 2009 á tilkynntu og raunverulegu stroki þó flest bendi til að gönguseiðasmug um möskva hafi minnkað verulega. Sé einnig litið til þess að meðalstærð útsettra gönguseiða (smolt og post‐smolt) hefur hvarvetna aukist í kvíaeldi á laxi undanfarin ár (og sú þróun er hvergi nærri hætt) er notkun þessa stuðuls við útreikninga á fjölda strokinna fiska í reiknilíkaninu örugglega fjarri því að lýsa raunveruleikanum. Væri stuðst við nýrri tölur yfir strok í norsku laxeldi ætti stuðullinn í líkaninu að vera á bilinu 0,26‐ 0,52 fiskar á hvert framleitt tonn en ekki 0,8. Tekið er fram að með stuðlinum 0,8 ættu u.þ.b. 9000 laxar að strjúka úr íslenskum sjókvíum miðað við framleiðsluna á árinu 2017 en nefnt að sá fjöldi sé líklega mun meiri en rauntölur. Hér er sumsé viðurkennt að um ofmat sé að ræða en ekki rauntölur. Þess er getið að stuðlinum sé einnig ætlað að ná yfir stórslysasleppingar sem gætu átt sér stað með löngu árabili. Það hlýtur að vera mikið álitaefni hversu mikil erfðablöndunaráhrif stórslysaslepping með löngu árabili hefur, sérstaklega í ljósi þess að miklu máli skiptir á hvaða stigi eða aldri fiskurinn er sem sleppur og á hvaða árstíma slíkt gerðist. Lífslíkur ólíkra stærða sloppins eldislax í sjó eru afar mismunandi og er lýst hér neðar. Einnig má búast við minni afkomumöguleikum fisksins þegar hann sleppur að vetri en að vori og jafnframt má velta fyrir sér hvort teljist líklegra við íslenskar aðstæður. Síðan má einnig spyrja hvenær á að styðjast við rauntölur og hvenær ekki við gerð áhættumats? Eru til einhverjar ábyggilegri tölur en raun‐ og reynslutölur til að setja inn í líkan?

Stuðullinn yfir áætlað strok hefur umtalsverð áhrif á reiknaða útkomu áhættumatslíkansins.

Hvað verður um eldislax sem sleppur?

Sterkar vísbendingar eru um að kynbættur eldislax tapi ratvísinni eftir því sem kynslóðir líða og eigi sér sífellt minni lífsvon í villtri náttúru. Þeim eldisfiskum fer því fækkandi sem ganga upp í ár ef slysasleppingar verða. Það er staðfest í mörgum rannsóknum í norskum ám hvar notaðar eru beinar talningar en ekki líkön (sjá t.d. Skoglund et al. 2016; Kanstad et al. 2016; Lamberg et al. 2016; NN, Veterinærinstituttet, 2017). Norskur eldislax hefur verið kynbættur í 12+ kynslóðir og er því smám saman að verða ólíkari villtum laxi í atferli en meira húsdýr í gerðinni. Kynbæturnar miða m.a. að hröðum vexti en gegn snemmkynþroska en hafa einnig önnur lífssöguleg áhrif, m.a. á atferli í náttúrunni, sem gerir fiskinn óhæfari til að komast af. Til dæmis hefur skoðun leitt í ljós að 60‐96% eldisfisks sem endurveiddur er í náttúrunni er með tóman maga (t.d. Soto et al., 2001,; Abrantes et al., 2011; Hislop & Webb, 1992).

Hegðun og lifun strokulaxa sem sleppa úr kví.

Alin gönguseiði til fiskræktar eru talin ganga tiltölulega hratt til sjávar úr þeirri á sem þeim er sleppt í. Villt gönguseiði eru álitin ganga til sjávar yfir lengri tíma, ferðast niður ána að næturlagi og verða smám saman virkari í dagsbirtu þegar hitastig hækkar og fullu seltuþoli er náð (t.d. Thorpe et al., 1994). Mögulega á innprentun á ratvísi sér því stað allan þann tíma sem þau dvelja í ánni og hafi áhrif á ratvísina til baka seinna meir. Því virðist vera margvíslegur munur á atferli og lífsmöguleikum villtra gönguseiða og alinna gönguseiða af villtum uppruna sem sleppt er í á í fiskræktarskyni, sem endurspeglast einnig í endurheimtutölum.

Ef eldisfiskur sleppur úr kví eru líkurnar á að hann snúi til baka á sama svæði háðar mörgum þáttum, svo sem sleppistaðnum (utarlega / innarlega í firði), hvenær árs flóttinn varð, hvar fiskurinn var staddur í lífsferlinum (aldur, stærð) hvort fiskurinn var á leið í kynþroska, hvort vatnsfall er nálægt, og örugglega einnig mörgum öðrum landfræðilegum og vistfræðilegum aðstæðum (Taranger et al., 2014) sem geta sveiflast eftir árferði til lands og sjávar (Saloniemi, I. et al., 2004). Lang víðtækustu rannsóknir sem gerðar hafa verið um afdrif og endurheimtur stokulaxa úr kvíum voru framkvæmdar af norsku Hafrannsóknarsofnuninni (MRI), einkum á árabilinu 2005‐2010 (Skilbrei, 2010a.; Skilbrei, 2010b.; Skilbrei, 2013.; Skilbrei, O.T. et al. 2013; Skilbrei,O.T., et al. 2009; Skilbrei, O. T., et al. 2010; Skilbrei & Jørgensen, 2010; Skilbrei, et al., 2014.; Skilbrei & Wennevik, 2006; Skilbrei et al. 2015). Hegðun ungra sjógönguseiða sem strjúka er önnur en eldri fiska sem sleppa. Þetta er lykilatriði fyrir allt áhættumatið og því er snemmbúið strok meðhöndlað sérstaklega í áhættumatslíkaninu. Almennt er álitið að eftir því sem laxinn hefur verið lengur við eldisaðstæður tapist ratvísi hans og afkomumöguleikar í villtri náttúru minnka mikið. Það endurspeglast síðan í fjölda kynþroska fiska sem skila sér úr sjó upp í ferskvat til að hrygna (t.d. Jonsson et al., 2003; Keffer, M.L. & Caudill, C.C., 2014). Íslenskur samanburður á endurheimtum villtra gönguseiða og seiða sem framleidd voru í eldi (samtals 750 þúsund seiði) en upprunnin úr sömu á sýnir að eldisumhverfið hefur mjög neikvæð áhrif og endurheimtur alinna seiða eru mun minni en villtra. Þannig voru endurheimtur örmerktra gönguseiða í fiskirækt á Íslandi á árabilinu 1986‐1994 að meðaltali um 0,61% (Magnús Jóhannsson og Sigurður Guðjónsson, 1996 ). Endurheimtur alinna gönguseiða úr sleppingum í Laxá í Aðaldal hafa að meðaltali verið um 0,5% í veiði og svipaðar í Hofsá í Vopnafirði (Guðni Guðbergsson 2010; Þórólfur Antonsson og Ingi Rúnar Jónsson 2004). Því er ljóst að afföll seiða sem komið er á legg í eldiskerjum eru gríðarleg í hafi. Það á að sjálfsögðu einnig og ekki síður við um kynbætt eldisseiði sem sett eru í sjókvíar.

Þó endurheimtuhlutfall gönguseiða í náttúrunni sé almennt mjög lágt gæti ógnin af gönguseiðum sem tapast úr kvíum einna helst falist í miklum fjölda þeirra. Smolt (sjógönguseiði) og post‐smolt (<230g) sem sleppa úr eldiskví eru talin ganga hratt út á opið haf (Jonsson, B. & Jonsson, N., 2006; Skilbrei, O. et al., 2009). Því er augljóslega afar erfitt að ætla sér að minnka skaðann með því að veiða þau í net eða gildrur nærri fiskeldisstöðinni (Skilbrei et al., 2015). Eldis‐gönguseiði sem strjúka skömmu eftir sjósetningu dvelja í 1‐3 ár í sjó áður en kynþroska er náð og þau taka að leita uppi ferskvatn til hrygningar. Lengdur dvalartími í sjó hefur að sjálfsögðu áhrif á lífslíkurnar. Árstími sleppingarinnar skiptir einnig máli. Í umfangsmiklum sleppi‐ og endurheimtutilraunum MRI, hvar eldisfiski var sleppt úr eldiskví, en var bæði endurheimtur með veiðum í sjó og í ferskvatni, var heildar endurheimtuhlutfall gönguseiða sem sleppt var að vori eða fyrri part sumars (n= 64 þúsund, þyngd <230g) samtals 0,36% (Skilbrei et al. 2015). Ekki er sjálfgefið að sá hluti fisksins sem veiddur var í net og gildrur á strandsvæðum hefði náð að ganga upp í ferskvatn. Tilraunir MRI á endurheimtum strokulaxa náðu einnig til sleppinga gönguseiða utan hefðbundins göngutíma (haustsmolt). Í sleppi‐ og endurheimtutilraunum á haustsmoltum (n=23 þúsund, þyngd <230g) skilaði aðeins einn fiskur sér til baka, eftir 3.ja ára sjávardvöl (0,004%). Líklega ganga seiðin hratt á haf út jafnvel þó þau sleppi að hausti en lifun þeirra virðist vera hverfandi lítil (Skilbrei, 2013).

Stærð og útsetningartími í kvíaeldi (smolt og post smolt).

Undangengin ár hafa um 40% útsettra gönguseiða í norsku laxeldi verið svokölluð haustsmolt. Slík seiði eru framleidd með ljósastýringu sem er lykilþáttur við myndun seltuþols laxaseiða. Tilgangurinn er að stýra framleiðslu eldisstöðva þannig að framboð fisks verði jafnara og nýting búnaðar sé sem best. Auk þess taka slík seiði jafnan mikinn vaxtarkipp fljótlega eftir sjósetningu. Eftir einn vetur í sjó (að vori) eru þessi seiði oft orðin 5‐8x þyngri en jafnaldrar þeirra sem aldir eru í ferskvatni yfir veturinn, jafnvel þrátt fyrir mun læga hitastig í sjónum. Þetta er því álitleg framleiðsluaðferð sem hefur reynst vel, en skilyrði er að sjávarhiti haldist yfir 4°C í nokkrar vikur eftir sjósetninguna. Seiðaframleiðsla á laxi fram að sjósetningu nýtir gjarnan hærra hitastig ferskvatns til að hvetja vöxtinn. Jarðhiti á Íslandi og víða góður aðgangur að ferskvatni gefur einstök tækifæri til framleiðslu gönguseiða utan náttúrulegs tíma sem og stórra gönguseiða. Jafnframt er hér víða góður aðgangur að jarðsjó eða saltvatni til að framleiða fiskinn stærri á landi eftir smoltun, bæði með og án mikillar endurnýtingar vatns, áður en hann fer í sjókvíar. Orka og góður aðgangur að vatni í landeldi eru lykil atriði til lækkunar kostnaðar og áhættu í kvíaeldinu hér á landi. Stærri útsett seiði standa sig einnig betur við kaldar vetraraðstæður en smærri fiskur og eru óháðari útsetningartíma. Því er þróunin í átt að aukinni útsetningarstærð, sem hvarvetna á sér stað, líkleg til að bæta samkeppnisstöðu eldisfyrirtækja á Íslandi.

Stærri seiði (kringum 500g) sem hafa verið sumarlangt í sjó en sleppa að hausti eru staðbundnari og því mun meiri möguleiki til endurveiða í net ef þau tapast út (Olsen & Skilbrei, 2010; Skilbrei 2010). Í tilraununum tókst að endurheimta tæp 11% fljótlega eftir flóttann en samanlagðar endurheimtur eftir 1‐3 ár í sjó voru 0,2% (Skilbrei et al. 2015). Haustseiði eða stærri seiði sem sleppa að hausti til (eftir að náttúruleg ljóslota tekur að styttast og göngur villtra seiða eru afstaðnar) eru því talin vera mun minni ógn og afar ólíkleg til að blandast við villta laxastofna samanborið við vorseiði (Skilbrei, 2013). Samanburður á lífslíkum haustsmolta og vorsmolta í hafi eru taldar vera 1:39 (Taranger et al. 2012). Mikil áhrif útsetningatíma villtra gönguseiða á endurheimtuhlutfall þeirra og lifun í náttúrunni hafa einnig fundist (Hansen & Jonson, 1989 og 1991).

Merkilegt má telja að þessara umfangsmiklu rannsókna MRI og niðurstaðna um flótta gönguseiða eða stórseiða að hausti sé ekki getið sérstaklega né tillit tekið til þeirra í áhættumati Hafrannsóknarstofnunarinnar, bæði við mat á líkindum til blöndunar við villta stofna en ekki síður í tillögum og mótvægisaðgerðum. Skilyrði um stærð seiða og stærð vs. útsetningartíma í kvíar eru því sjálfsagðar mótvægisaðgerðir sem draga mjög úr mögulegri erfðablöndun milli eldislaxa og villtra laxa.

Í líkaninu eru aðeins metin áhrif gönguseiðasleppinga (snemmbúið strok) en annar fiskur sem kynni að sleppa, óháð árstíma, settur í flokkinn síðbúið strok en ekki getið um stærð eða tíma. Raunar er þess getið (bls. 21) að lax sem sleppur á öðrum æviskeiðum en sem vor‐gönguseiði eða fullorðinn eigi minni möguleika og að lax sem sleppur að vetri drepist að lang stærstu leyti. Þessum staðreyndum hefði þurft að gefa betri gaum og þær átt að hafa mikið vægi í áhættumatinu og tillögum að mótvægisaðgerðum. Báðar aðferðirnar stytta framleiðslutíma í sjó og því minnkar erfðablöndunaráhætta stórlega. Búast má við að slíkar forsendur, sem einnig mætti kalla skilyrði eða

mótvægisaðgerðir fyrir kvíaeldi á laxi, myndu t.d. einar og sér kollvarpa niðurstöðu áhættumatsins gagnvart takmörkun eldis í Ísafjarðardjúpi og Berufirði sem og þeim afleiðingum sem niðurstaðan hefur fyrir nærliggjandi svæði eins og t.d. Stöðvarfjörð, Fáskrúðsfjörð og Reyðarfjörð.

Síðbúið strok, eldistími og kynþroskahlutfall.

Stór lax (>900g) sem sleppur úr eldiskví hefur allt aðra og almennt staðbundnari hegðun en gönguseiði sem sleppa að vori. Stór hluti hans sveimar í vikur eða mánuði í yfirborðinu nærri eldisstaðnum (t.d. Solem et al., 2013; Chittenden et al., 2011), svipað og stór seiði (ca 500g) sem sleppa á hausti (Skilbrei et al. 2015). Þó kann fjarlægð frá opnu hafi og straumar að hafa þar áhrif, bæði á dreifingu fisksins og getu hans og eiginleika til að rata aftur upp í ferskvatn þegar líður að hrygningartíma (Hansen, 2006; Hansen & Yongson, 2010) ef fiskurinn lifir svo lengi. Staðbundin hegðun gefur mun meiri tækifæri til að veiða upp sloppinn fisk samanborið við flúin gönguseiði, og búnaður til þess og tilbúin viðbragðsáætlun ætti að vera sjálfsögð krafa í starfsleyfi kvíaeldis. Í sleppitilraunum MRI (n= 8023, þyngd >900g) endurveiddust 23% , mest á fyrstu tveimur mánuðunum í námunda við sleppistað. Aðeins 0,09% laxanna lifðu af 1 ár í sjó eða lengur (Skilbrei et al. 2015). Sé fiskurinn ekki kynþroska, eða á leið í kynþroska um haustið þegar hann sleppur eru litlar líkur á að hann leiti upp í ferskvatn. Lífslíkur hans til að lifa í villtri náttúru til hausts árið síðar eru mjög litlar. Þess vegna er tíðni kynþroska eldisfisks á framleiðslutímanum, einkum að sumri og hausti mikilvægar upplýsingar fyrir áhættumatið því þær varða áhættuna af því að kynþroska stór lax gangi upp í ferskvatn.

Kynþroskahlutfall.

Í áhættulikani Hafrannsóknarstofnunarinnar er „hlutfall þeirra sem kynþroskast og leita upp í á“ ein breytistærðin yfir breytur fyrir síðbúið strok (stór fiskur) og er gert ráð fyrir að 15% fiskanna nái kynþroska og gangi upp í ár. Óhætt er að segja að hugmyndin um 15% kynþroska laxa í eldi er algerlega út í hött og verulegt ofmat. Ef hún ætti við einhver rök að styðjast væri kynþroski gríðarlegt vandamál í nútíma laxeldi ef rétt væri. Það er hinsvegar ekki alls ekki raunin.

Kynbætur á eldislaxi hafa frá byrjun leitast við að draga úr tíðni kynþroska enda rýrir kynþroskinn gæði framleiðslunnar og dregur úr vexti fisksins. Meiri líkur eru á að hængar verði fyrr kynþroska en hrygnur í eldi laxa, enda tengsl milli vaxtarhraða (stærðar) og kynþroska (t.d. Harmon et al., 2003). Auk heildar kynþroskatíðni í hópi stórra laxa sem sleppa úr eldiskví skiptir kynjahlutfall kynþroska fisksins og árstími því verulegu máli við mat á áhættu á erfðablöndun við villta stofna. Einnig er ljóst að þó hlutfall kynþroska eldisfiska sé t.d. metið 4% af heildarfjölda klakfiska í stofni ár (í líkaninu er þröskuldsgildi hlutfalls eldislaxa í á sett 4%) verður möguleg erfðafræðileg hlutdeild þeirra við nýliðunina mun minni, sérstaklega vegna vanhæfni hænganna, en æxlunarhlutdeild þeirra við náttúrulegar aðstæður er talin 1‐3% af árangri villtra hænga. Í áhættumatinu er ekki greinilegt eða augljóst hvernig þessar upplýsingar eru notaðar í líkaninu til að meta hættuna á erfðablöndun né við hvaða ætlaða æxlunarárangur hvors kyns er miðað. Ekki er heldur hægt að sjá í greinum Glovers sem hafðar eru til hliðsjónar í matinu (Glover et al. 2012, 2013, 2017) hvernig kynjahlutfall og æxlunarárangur kynþroska eldisfisks sem gengur í ár hefur áhrif á fylgni hlutfalls eldisfisks í stofni þegar þröskuldsgildi vegna erfðablöndunar eru metin.

Auk áður nefndra kynbóta hefur ljósastýring verið notuð um árabil til að örva vöxt en draga úr eða seinka kynþroska eldislaxa í kvíum (t.d. Taranger et al., 2010, Iversen et al., 2016). Í tilraunum með ljós og ljóslotur, hvort sem gönguseiði eru sett út á vorin eða haustin hefur komið fram að löng ljóslota eða stöðugt ljós í kvíum örvar vöxt og dregur úr kynþroska óháð vaxtartíma. Til dæmis var í tilraun Oppedals (Oppedal et al., 1999) kynþroskatíðni mjög lág (<1%), hjá Leclercq (Leclerec et al., 2011) var hún <2% og í tilraun Hansen með Led‐ljós (Hansen et al., 2017) var kynþroskatíðni 0,0% en þó var lokaþyngd laxins 6‐7 kg. Kynþroski á sláturfiski hjá Arnarlaxi hf. er metinn um og undir 1% við slátrun í lok árs. Það var staðfest með rannsókn starfsmanna Matís ohf. í desember 2017 (Gunnar Þórðarson, 2017).

Í tillögum um mótvægisaðgerðir í áhættumatsskýrslunni er ekki getið um eða gerð tillaga um kröfur um ljósastýringu í kvíaeldinu. Notkun ljósa telst til sjálfsagðs staðalbúnaðar í nútíma laxeldi og viðtekið að kynþroskatíðni kvíaeldis á laxi í N‐Atlantshafi er hvarvetna á bilinu 0‐3%. Í því ljósi og einnig í ljósi rauntalna yfir kynþroskahlutfall í íslensku laxeldi er með öllu óskiljanlegt að höfundar áhættumatsins komi fram með 15% kynþroskatíðni hjá eldislaxi og kjósi að nota þá tölu í líkaninu við áhrif síðbúins stroks. Augljóslega hefur það grundvallar þýðingu fyrir líkur á erfðablöndun hvaða líkindi eru til þess að eldislax sem sleppur verði kynþroska og hversu lengi hann þarf að lifa við náttúrulega ljóslotu komi til stroks. Almennt er nú álitið að ákvörðun um kynþroska að hausti sé tekin með löngum fyrirvara, líklega á tímabilinu nov‐jan. ári fyrr (t.d. Thorpe 1998). Margir þættir hafa þar áhrif en umhverfisþættir eins og stutt ljóslota og líkamsástand fisksins ráða þar miklu. Þetta skiptir miklu varðandi strok stærri laxa, sérstaklega hvenær þeir þá slyppu undan stöðugri langri ljóslotu sem notuð er við kvíaeldið. Sleppi fiskurinn þegar daginn er tekið að lengja (mars‐jún) má búast við að mjög lítill hluti hans fái lífelðlisfræðilegt merki um að fara í kynþroska að haustinu og þurfi því að lifa áfram í eitt og hálft ár í villtri náttúru, þar til kemur að næsta náttúrulega hrygningartíma að hausti.

Jafnt hlutfall snemmbúinna og síðbúinna stroka.

Við útreikninga í áhættumatinu er gert ráð fyrir jöfnu hlutfalli (50:50) snemmbúinna og síðbúinna stroka og áhrifa þess á líklega erfðablöndun. Af ástæðum sem nefndar eru hér að ofan er mikið álitaefni hvort skynsamlegt er að gefa sér það. Aldur fiska, árstími og stærð fiskanna þegar þeir sleppa úr kvíunum eru miklir áhrifavaldar á afdrif þeirra í sjó og þar með á líkur þess að þeir gangi upp í ár og valdi þar usla. Alvarlegustu tilfellin sem líklegust eru til að valda erfðablöndun við villtan fisk eru ef smá gönguseiði sleppa að vori eða snemma sumars, eins og áður var nefnt. Eftir þann tíma virðist erfðablöndunarhættan af stroki fiska vera mun minni. Gönguseiði sem sett eru í kvíar í sumarlok eða að hausti virðast eiga sér litla lífsvon í villtri náttúru. Sama virðist gilda um stórseiði (500g) sem sett eru út á svipuðum tíma. Stórlax (>900g) er og verður ekki nema að litlu leyti kynþroska sumarið sem hann sleppur og lífslíkur hans fram að haustinu ári seinna eru taldar afar litlar. Kynþroska lax sem sleppur skömmu fyrir hrygningu getur hinsvegar skilað sér í laxveiðiár og valdið einhverjum usla. Kynþroski hjá laxi í eldi er hinsvegar hverfandi lítill. Því virðist alls ekki greinilegt að hætta á erfðablöndun náttúrulegra laxastofna í ám sé í línulegu sambandi við fjölda fiska sem strjúka, eins og fullyrt er í áhættumatinu. Stærð fisks, staða í lífsferlinum, árstími og framleiðslutími eru mjög mikilvægar breytur og áhrifavaldar á líkindi erfðablöndunar og taka þarf tillit til.

Árangur æxlunar og afdrif afkvæma.

Tvær megin rannsóknir hafa verið gerðar á samanburði á lífslíkum og endurheimtum villtra gönguseiða og eldisseiða sem sleppt hefur verið í ár. Önnur er kennd við Burrishoole á Írlandi hvar lifun frá smolti að fullorðinsstigi eftir einn vetur í sjó var að meðaltali 8% (2,9‐12,6%) hjá villta fiskinum en aðeins 2% (0,4‐4,4%) hjá eldisseiðum af villtum uppruna (Piggins & Mills, 1985). Í annari tilraun (McGinnity et al.,2003) var lifun frá gröfnum augnhrognum að smoltstigi hjá villtum laxi og norskum eldislaxi auk blendinga og bakkrossa mæld og metin. Í þeirri tilraun var lifun seiða af eldisuppruna um 70% af lifun hjá villtum laxi í heild. Hrein eldislaxaseiði höfðu aðeins 2‐4% lifun á við

hrein villt seiði til að komast af í sjó og ganga aftur upp í ána sem kynþroska fiskur til að ljúka lífsferlinum. Tölur með leiðréttingu vegna göngu 0+ seiða niður fyrir gildru (sem gerð var á hæpnum forsendum) sýndu árangur blendinga villtrar hrygnu og eldishængs 58% og villts hængs og eldishrygnu 33% af árangri hreinna villtra seiða. Tilraunin sýndi mun betri lifun blendinga en hreinna eldisseiða og einnig háa lifun blendings F1 (eldislax) og villilax. Annað foreldrið var sumsé búið að fara í gegn um strangt val í fyrstu kynslóð (2‐4% lifun) og afkvæmahópurinn náði því 89% lifun í næstu kynslóð. Þetta gefur tilefni til að ætla að óheppilegri erfðasamsetningu sé hent hratt úr úr stofninum vegna náttúruvals. Í tilrauninni var einnig 68% dánartíðni á hrognastiginu hjá annararkynslóðar blendingum. Það var túlkað sem einhverskonar blendingsbæling.

Hinar rannsókninar á endurheimtum gönguseiða og afdrifum laxins fór fram í ánni Imsa í Noregi og stóð yfir í 14 ár með ýmsum útfærslum. Í Imsa var hrygningarárangur eldislax frá hryngingu að smoltstigi metinn um 16% af árangri villta laxins og var dánartíðnin mest á fyrstu stigum lífsferilsins (Fleming et al. 2000). Í Imsa voru meðal endurheimtur metnar 8,9% hjá villtum seiðum en 3,3% og 2,9% hjá 1+ og 2+ eldis‐gönguseiðum sem sleppt var í ána (N. Jonsson et al., 2003).

Á heildina litið má ætla að Imsa tilraunin gefi einhverja vísbendigar um æxlunarárangur eldishrygna frá hrygningu að smoltstigi (16%) á þeim tíma sem hún er framkvæmd. Að sama skapi gefur Burrishool‐rannsóknin vísbendingar um lifun frá sjávardvöl, frá smolti að hrygningarfiski. Blendingar milli eldishrygna og villtra hænga höfðu 33% lifun á við villtan fisk. Ef þessar tölur eru lagðar til grundvallar verður lifun yfir lífsferilinn um 5% af lifun villts fisks (16% x 0,33) fyrir þessa gerð blendinga.

Ályktanir bæði frá Imsa‐ og Burrishool tilraununum um að seiði af eldisuppruna eða blendingar ryðji burtu villtu seiðunum byggja á að eldisseiðin séu stærri og hugsanlega árásargjarnari. Í nýrri rannsókn (Glover, K. et al. sept. 2018) þar sem fylgst var með seiðum af eldis‐ villtum‐ og blendingsuppruna í á kom fram hverfandi munur á vexti eldisseiða og villtra seiða. Niðurstöður Solberg et al. (2013) vísa í sömu átt. Því er hæpið að álykta að seiði af eldisuppruna séu líkleg til að ryðja burtu seiðum af villtum uppruna, sem eru aðlöguð að náttúrunni um kynslóðir.

Rannsóknirnar í Burrishoole og Imsa voru gerðar á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en rannsókn Skilbrei ofl. var gerð 12‐17 árum síðar. Það samsvarar um 3‐4 kynslóðum í kynbótum. Mun minni endurheimtur í sleppirannsókn seiða undir 230g úr kví gefa tilefni til að ætla að sífellt kynbættari eldisfiskur eigi erfiðar uppdráttar í náttúrunni. Þá kenningu má styðja með að sífellt færri eldislaxar hafa veiðst í norskum ám og fjörðum á árabilinu 2014‐2017, eða frá því skipuleg vöktun hófst (Anon 2018) þrátt fyrir aukið umfang laxeldis.

Í umfjöllun um breytur fyrir snemmbúið strok í áhættumati Hafró (bls. 25) er tekið fram að stuðst er við niðurstöður á lífslíkum á sjávardvöl gönguseiða úr hafbeit í Rangánum til viðmiðunar og gert ráð fyrir að þær séu 5% fyrir villt seiði. Hvað átt er við þar er óljóst enda nánast enginn náttúruleg seiðaframleiðsla í Rangánum, þeirra laxagengd byggir öll á seiðasleppingum Á árunum 1989‐1994 var að jafnaði sleppt um 81 þúsund seiðum í Rangárnar og endurheimtur voru að meðaltali um 1,5% (Magnús Jóhannsson ofl. 1996). Endurheimtuárangur örmerktra gönguseiða í fiskirækt á Íslandi á árunum 1986‐1994 var 0,61% (Sigurður Guðjónsson 1995). Því er þá miðað við 5% við útreikninga í áhættumatinu?

Í líkanasmíðinni er notuð niðurstaða frá Hindar (Hindar et al. 2006) um að lífshæfni eldis‐ sjógönguseiða sem sleppt er í á sé 37% af lífshæfni villtra seiða (sem er niðurstaðan úr Imsa‐ tilrauninni frá 1993), sem gerir þá mat uppá 1,85% lifun eldisseiða sem sleppa. Þetta mat gefur fimmfalda lifun eldisgögnuseiða miðað við niðurstöður rannsókna norsku hafrannsóknarstofnunarinnar sem áður voru nefndar (Skilbrei et al. 2015) og mun hærri endurheimtur en þær sem íslenskar rannsóknir hafa gefið til kynna. Hvaða tölur er rétt að miða við er erfitt að meta en altént kemur hér fram umtalsverður munur á mati lifunar eins og hún reiknast fyrir eldis‐gönguseiði sleppt í á og eldis‐gönguseiði sem sleppa úr kví. Einnig er ekki notast við nýjustu upplýsingar, eins og þó er sagt að haft sé til hliðsjónar í áhættmatsgerðinni. Þess má geta að í Imsa‐ tilrauninni var hlutfall eldisfiska og villtra fiska ójafnt, sem gaf upphafshlutfall eldishrogna/villtra hrogna 60/40%. Í Burrishool tilrauninni var hlutfallið enn bjagaðra (þar voru hrogn grafin), aðeins 20‐ 25% hrogna voru af villtum uppruna en 75‐80% voru af eldisuppruna. Kanadísk rannsókn (Houde, A.L.S., et al. 2010) ályktaði að ef minna en 15% af seiðastofninum í ánni væri af eldisuppruna væri afar ólíklegt að það hefði einhver áhrif á dánartíðni villiseiðanna. Því er ekki ólíklegt að uppsetning bæði Burrishool‐ og Imsa tilraunanna með þessu einkennilega og ólíklega upprunahlutfalli hafi haft áhrif á niðurstöðurnar. Lifun og hæfin eldislaxins kann að hafa verið ofmetin og lifun og hæfni villilaxins vanmetin. Niðurstöður þessara nefndu tilrauna (Burrishool og Imsa) hafa verið notaðar sem einhverskonar staðfesting og grundvöllur þess að seiði af eldisuppruna muni minnka framleiðslu á náttúrulegum sjógönguseiðum og þar með að hafa eyðileggjandi áhrif á stofninn. Þó var framleiðslan á villtum seiðum ekki mæld heldur er hún útreiknuð stærð skv. módeli.

Matið á lifunarhæfninni og líklegum endurheimtum gönguseiða sem sleppa hefur að sjálfsögðu umtalsverð áhrif á niðurstöðu reiknilíkansins. Hvers vegna stuðst er við 5% endurheimtur villtra gönguseiða og stuðulinn 0,37 í líkaninu frekar en nýrri gögn þarfnast nánari rökstuðnings og er alls ekki sjálfsögð.

Þröskuldsgildi hlutfalls eldislaxa í á og lífshæfni.

Það reiknilíkan sem sett er fram í skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar reiknar ekki áhættu fyrir erfðablöndun heldur líkindi þess að hlutfall eldisfiska sem gangi í laxveiðiár fari ekki yfir tiltekið hlutfall ætlaðs klakfiskastofns hverrar ár, að gefnum mörgum og stundum mis vafasömum forsendum. Í líkaninu er notað sérstakt viðmiðunar‐þröskuldsgildi eða þröskuldshlutfall sem skýrt er eins og segir í skýrslunni á bls. 24:

„Þröskuldsgildi er það mark þar sem árlegt hlutfall af eldisfiski [sem gengur í á] hefur uppsöfnuð áhrif á erfðamengi stofna. Þetta gildi er enn rannsóknaspurning ……“.

Val á tölu þröskuldsgildisins (4%) er umdeilanlegt en stuðst er við eldri ályktanir og líkön frá NINA (Norsk institutt for naturforskning) og norsku Hafrannsóknarstofnuninni (MRI) sem þó birta ólíka niðurstöðu. Í vísindagrein sem birt var í febrúar 2018 (þar sem sérfæðingar MRI eru meðal höfunda) er niðurstaða endurbætts líkans (IBSEM, sem raunar er getið um í áhættumatsskýrslunni) sem lagt er til grundvallar sú að lág innblöndun eldisfisks (5‐10%) hefði lítil eða vart mælanleg áhrif á villta stofna og ef einhver yrðu gengju þau til baka á einni eða tveimur kynslóðum þegar innblöndun væri/yrði minniháttar. Jafnframt er þess getið að náttúrulegt flakk (straying), þar sem villtur klakfiskur gengur í aðra en sína heimaá, sé einnig áhrifaþáttur á heildar áhrif erfðablöndunar vegna eldisfisks (Castellani et al., 2018). Í áhættumatslíkaninu er lítið fjallað um áhrif náttúrulegs flakks og samspil þess við hugsanlega erfðablöndun af völdum eldisfisks. Náttúrulegt flakk á sinn þátt í að viðhalda erfðabreytileika í laxastofnunum og er mikilvægt til að hindra innræktarúrkynjun í smáum stofnum og gerir þá lífvænlega. Hlutfall náttúrulega flakkandi klakfiska af heildar klakfiskastofni í á er óljóst hér á landi. Þó er getið um að meðan á hafbeit stóð hér við land gat það verið allt upp í 20% en var að meðaltali 4,4% (Isaksson et al. 1997; Keffer & Caudill 2014). Svipað gæti verið raunin við útsetningu gönguseiða, sem hafa tíðkast í áratugi í umtalsverðum mæli í nokkrum ám hér á landi (t.d. Rangár og Breiðdalsá).

Hvort náttúrulegt flakk (straying) geti haft –uppsöfnuð áhrif á erfðamengi‐ eins og höfundar áhættumatsins segja að eldisfiskur geti gert hlýtur að vera umhugsunarefni, m. a. út frá þeirri kenningu að hver á hafi sinn eigin laxastofn. Náttúrulegt flakk laxastofna er einnig sérlega áhugavert í ljósi þess að sérstakir og ævafornir laxastofnar hafa skyndilega fundist í vestfirskum ám, þó flestar séu stuttar og ekki þekktar af stórum laxastofnum né mikilli laxveiði. Merkilegt hlýtur að teljast að áhrif blöndunar flökkulaxa virðast ekki mælast sérlega mikil. Í því ljósi má spyrja hvers vegna ættu þá áhrif kynbætts eldislax með skerta lífshæfni að verða mikil – því skyldi náttúruvalið ekki henda þeim út, með enn kröftugri hætti en flökkulöxunum?

Eins og fjallað er nánar um hér neðar sýna margar rannsóknir að lífshæfni eldisfisks er stórlega skert í villtri náttúru í samanburði við villtan fisk. Margt bentir til að kynbætur, á þeim laxastofni sem notaður er í eldi hér á landi og staðið hafa í 12 kynslóðir, hafi gert eldislaxinn að húsdýri sem illa kemst af í villtir náttúru. Náttúruvalið hreinsar stöðugt út þá einstaklinga sem ekki bera hentuga eiginleika fyrir hvert vistkerfi (t.d. Garcia de Leaniz et al. 2007), og er almennt viðurkennt hjá þeim sem trúa þróunarkenningu Darwins. Náttúruvalið fer fram hvort sem hlutfall eldisfisks sem gengur í á er hátt eða lágt. Mikið innstreymi eldislaxa í á er talið geta haft meiri áhrif til erfðablöndunar en lítið innstreymi (Castellani et al. 2018) en ekkert er staðfest um varanleg áhrif þess. Mikið innstreymi eldislaxa í á við einskiptis‐atburð eða með löngu árabili hefur ekki greinileg blöndunaráhrif til langframa. Í nýrri kanadískri grein þar sem áhrifum 20.000 stórlaxa stroks 2013 var fylgt efir kemur fram að seiði af eldisupprunua hurfu fljótt úr ánni enda virðist náttúruvalið hafa hent þeim út (Wringe, B.F., et al. 2018). Hugtakið ‐uppsöfnuð áhrif á erfðamengi‐ þarfnast því nánari útskýringa í áhættumatinu og þá einnig mat á ætluðum fjölda laxa og áhrif stórsleppinga, sem nefnd eru hér að framan.

Hrygningarárangur eldishrygna sem ná að ganga upp í ár er innan við þriðjungur af árangri villtra hrygna og árangur eldishænga aðeins 1‐3% (Fleming et al. 1996, 1997; 2000). Þessar niðurstöður eru þó komnar til ára sinna (frá 1993 ‐1998) og því líklegt að hæfnin sé orðin enn lakari vegna kynbóta. Seiði sem eru afkvæmi eldisfiska eða blendingar milli eldisfiska og villtra fiska geta komist á legg í ánni og átt í samkeppni við hrein villt seiði. Gerðar hafa verið tilraunir, (hvar búnir voru til hrognahópar villtra, eldis og blendinga og hrognin grafin í ánni eða klakfiski af villtum‐ og eldisstofni sleppt) sem sýna að afkvæmi eldisfiska og blendingar þeirra við villta fiska hafa umtalsvert skertar lífslíkur samanborið við villt seiði. Þau sem þó lifa hafa í sumum tilfellum vaxið jafn vel eða hraðar sem smáseiði en þau villtu og því hefur verið ályktað að eldisseiði geti mögulega rutt þeim villtu frá á uppvaxtarsvæðum. Ef uppvaxtarsvæði eru takmörkuð eða ef villtir stofnar standa veikt fyrir í ánni gæti það orðið til þess að færri villt seiði næðu sjógöngubúningi og gengju til sjávar en ella væri (McGinnity et al., 2003). Um þetta eru þó engar staðfestar niðurstöður eða raunmælingar. Ný rannsókn á samanburði vaxtar villtra‐ og eldisseiða sýndi lítinn mun á vexti við náttúrulegar aðstæður (Glover et al. 2018) og því lítið sem bendir til að kenningin um ruðningsáhrif eldisseiðanna eigi rétt á sér.

Lifun gönguseiða af eldisuppruna í sjó (dvelja gjarnan meira en 1 ár í sjó) og ratvísi þeirra upp í heimaána eftir sjávardvöl er mjög skert. Sama á reyndar við um seiði af náttúrulegum uppruna sem framleidd eru í fiskeldisstöð og síðan sleppt í ár í fiskræktarskyni, samanborið við seiði sem klekjast og vaxa upp í náttúrunni. Það eru skýr merki um áhrif eldistíma í fiskeldisstöð á ratvísi og lífsafkomu í náttúrunni. Engu að síður hefur verið ályktað að náttúruleg framleiðslugeta árinnar minnki ef seiði af eldisuppruna komast á legg og ganga til sjávar og þar með verði villti laxastofninn í hættu (McGinnity et al., 2003; Fleming et al., 2000). Þetta er ályktað þrátt fyrir að náttúruvalið sé greinilega eindregnara gegn fiski af eldisuppruna og því andstætt öllum alment viðurkenndum lögmálum ef erfðaefni fisks með lægri hæfni (fitness) eigi að breiðast út og ryðja burtu þeim sem hafa verið aðlagaðir að umhverfinu í kynslóðir. Sumir hafa þó sett þann fyrirvara að áhrif nýliðunar eldisfisks á framleiðslugetu til langtíma eigi þó einkum við ef kynþroska eldisfiskur berst ítrekað í miklum mæli upp í vatnasvæðið (Taranger et al., 2014), en það er einnig kenning en ekki skv. raunmælingum.

Líkindi erfðablöndunar og áhrif á villtan laxastofn eru háð því að eldisfiskur sleppi, komist af í villtri náttúru, verði kynþroska, gangi kynþroska í ferskvatn til hrygningar, taki þátt í æxlun og því hver afdrif afkvæmanna verða. Fjöldi og hlutfall eldisfisks við villtan fisk í á skiptir máli. Þannig sýnir áður nefnt IBSEM líkan að 30% innblöndun í 200 ár getur minnkað fjölda klakfiska í ánni um helming. Ef innblöndun hættir tekur um 50 ár (ca 10 kynslóðir) fyrir stofninn að komast í svipað horf og áður (Castellani et al. 2018). 5‐10% innblöndun hafði hverfandi áhrif. Áhrif innblöndunar eldisfisks eru því ekki varanlegar eða uppsafnaðar, þó erfðasamsetning stofna sé aldrei stöðug eða varanleg í náttúrunni, m.a. vegna náttúruvalsins og náttúrulegs flakks laxa milli vatnasvæða. Í þessu ljósi er álitaefni hvort ákvörðun Hafrannsóknarstofnunarinnar um að setja þröskuldsgildi innblöndunar við 4% sé endilega hin rétta tala?

Niðurlag og samantekt.

Hér verður ekki fjallað um aðra þætti í áhættumatsskýrslunni þó tilefni sé til. Þegar hún kom út var tekið fram að um lifandi plagg væri að ræða og áhættumatið yrði endurskoðað eins oft og þurfa þykir. Í þessari greinargerð eru færð rök fyrir að ekki sýnist vanþörf á, sérstaklega ef áhættumatið á að hafa eitthvert lögformlegt vægi og vera stefnumarkandi fyrir uppbyggingu laxeldis á Íslandi. Tillögur áhættumatsskýrslunnar eru að banna eldi á kvíum í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði og takmarka eldi í Berufirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Þær byggja á útreikningum í líkani að gefnum forsendum sem ekki standast neina skoðun og styðjast ekki við bestu fáanlegu upplýsingar, eins og rakið hefur verið. Samantekið eru helstu veikleikar eftirfarandi:

  1. Hvorki er augljóst né sjálfgefið að notast við hlutfallið 4% sem þröskuldsgildi fyrir mögulegan fjölda eldisfiska í á vs villtra fiska sem gætu komið til hrygningar. Það segir lítið um mögulega erfðablöndunaráhættu enda ekkert mat á hversu hátt hlutfall eldisfisksins taki þátt í hrygningunni. Nýlega birt rannsókn, sem notast við endurbætt líkan sem vísað er til í áhættumatinu, álítur að 5‐10% innblöndun kynþroska fiska í á í langan tíma hafi lítil eða hverfandi stofnerfðafræðileg áhrif og ef einhver verða hverfi þau á fáeinum kynslóðum ef innblöndun verður minniháttar síðar (Castellani et al. 2018). Hér eru því komnar fram nýjar upplýsingar eftir að áhættumatið var birt.
  2. Við útreikninga áhættumatsins er gert ráð fyrir að kynþoskatíðni eldislaxa við síðbúið strok sé 15%. Það nær ekki nokkurri átt og á ekki við nein rök að styðjast. Allar reynslutölur laxeldis í N‐Evrópu sem nota nútíma ljósastýringu (NL‐LL og LL, sjá t.d. Oppedal et al. 2006 og Oppedal et al. 1999) og mælingar gerðar að gefnu tilefni (Gunnar Þórðarson, 2017) á Íslandi sýna að kynþroski eldislaxa við sláturstærð er mun lægri, oftast um 0‐3%. Við síðbúið strok skiptir máli hvenær ársins það verður.Stuðlarnir H (hættutími = tímabil sem fer að bera á kynþroska, síðustu 4 mánuðina) og K (meðalhlutfall kynþroska yfir hættutímabil) í líkaninu fyrir síðbúið strok eru því undarlegt ofmat. Það er engu líkara en höfundar áhættumatsins geri sér ekki grein fyrir að laxeldisframleiðsla í kvíum er jafnan skipulögð þannig að fiski í sláturstærð er slátrað reglulega allt árið, þó framleiðslan geti sveiflast nokkuð eftir árstíma. Þannig hefur útsetningarstærð seiða áhrif á framleiðslutíma. Það hefur einnig að sjálfsögðu áhrif á bæði fræðilegan (en þó ólíklegan) kynþroska, fjölda fiska sem líklegastir eru til að verða kynþroska og fjölda fiska hvers árgangs á hverjum tíma í hverri kví (framleiðslusvæði). Stuðullinn T (framleiðslutími) er settur sem 18 mánuðir en það getur verið afar breytilegt eftir útsetningarstærð og eldisaðstæðum. Ekki er heldur lagt mat á eða útskýrt hvort og hvernig stuðullinn T –heildar tími í sjó‐ hefur áhrif á lífslíkur og ratvísi þó rannsóknir sýni að tími við eldisaðstæður hafi áhrif þar á.
  1. Í líkaninu er gert ráð fyrir að endurheimtur villtra gönguseiða úr hafi séu 5% (vísað í hafbeitartölur úr Rangánum) og notast við stuðulinn 0,37 (Imsa tilraunin) fyrir endurheimtur eldisgönguseiða, sem gefa þá endurheimtur þeirra upp á 1,85%. Ef niðurstöður Burrishool tilraunarinnar væri notaðar (sem hugsanlega væri eðlilegra fyrir íslenskar aðstæður, enda var það blandað saman norskum eldislaxi og villtum írskum laxi) væri stuðullinn 0,25 og ætlaðar endurheimtur eldisgönguseiða 1,25%. Flestar mælingar á hlutfallslegum endurheimtum eldis‐ gönguseiða af villtum stofnum sem sleppt hefur verið í íslenskar ár til „fiskræktar“ (einnig í Rangánum) eru mun lægri tala, að meðaltali 0,61% á árabilinu 1986‐1994. Nýjustu niðurstöður úr stórri norskri rannsókn, þar sem eldisfiskur var bæði endurheimtur í sjó og í ám gáfu endurheimtuhlutfallið 0,36% af töpuðum gönguseiðum (Skilbrei et al. 2015). Ekki er ósennilegt að eftir fleiri kynbættar kynslóðir (eins og efniviðurinn var í tilraun Skilbrei et al. 2015 samanborið við Burrishool og Imsa tilraunirnar) verði endurheimtur sífellt lakari og ýmislegt sem bendir til þess, m.a. fjöldi veiddra eldislaxa í Noregi. Í áhættumatsútreikningunum er því ekki endilega stuðst við nýjustu og bestu fáanlegu upplýsingar og beinar mælingar sem liggja fyrir um þetta efni.
  2. Ekki er rétt að leggja að jöfnu snemmbúið eða síðbúið strok. Lífslíkur og möguleikar fiskanna til að lifa af í náttúrunni eru mjög háðir því hversu lengi þeir hafa verið í eldisrými, og fara hratt minnkandi með tímanum. Lífslíkur stærri fiska sem sleppa og hlutfall þeirra sem ganga upp í ár eru hverfandi litlar. Í skýrslunni er talað er um sérstaka áhættu af laxi sem sleppur nálægt kynþroska að sumri. Kynþroskatíðni eldislaxa er hinsvegar hverfandi. Kynþroskaákvörðun laxa er tekin með löngum fyrirvara (Nov‐Jan.) og því skiptir máli hvenær laxinn sleppur undan tilbúinni stöðugri langri ljóslotu eldisaðstæðnanna, hversu lengi hann þarf að lifa í villtri náttúru og fá merki um kynþroska. Ef stór lax sleppur undan ljósastýringu á tímabili vaxandi náttúrulegrar ljóslotu, eða eftir tíma lífeðlisfræðilegrar kynþoskaákvörðunar, þyrfti hann að líkindum að lifa rúmlega eitt ár til viðbótar í sjónum áður en kynþroska væri náð og fiskurinn gengi í ferskvatn til hrygningar. Það er mjög ólíklegt að honum tækist það í ljósi reynslunnar.
  3. Stærð fiska og útsetningarárstími í kvíar skipta verulegu máli fyrir hugsanlega erfðablöndun ef fiskur sleppur í kjölfar útsetningar eða síðar. Skilyrði um slíkt er einfalt að setja sem mótvægisaðgerð sem hefði mikil áhrif. Önnur mikilvæg mótvægisaðgerð er skilyrði um ljósastýringu til að koma í veg fyrir kynþroska. Stór seiði (>200g), útsetning seiða að hausti og ljósastýring í kvíum dregur mjög verulega úr erfðablöndunaráhættu ef eldisfiskurinn sleppur.
  4. Í áhættumatinu er reiknað með að 0,8 fiskar sleppi á móti hverju framleiddu tonni og vísað í norskar tölur yfir tapaðan fisk allt frá 2008. Fyrir því eru afar hæpin og úrelt rök. Samkvæmt opinberum norskum tölum (www.SSB.no) er metið að 0,13 fiskar hafi sloppið pr. framleitt tonn á síðustu 5 árum í Norsku laxeldi. Ef menn vilja ennþá nota stuðulinn 2‐4, sem höfundar ( Skilbrei, O. et al. 2015) setja þó fyrirvara við, gefur það stuðulinn 0,26‐0,52 fiska á hvert tonn í Noregi miðað við núverandi ástand. Matið sem leiddi til margföldunarstuðlana 2‐4 var gert á tímum meðan útsetningarstærð seiða var almennt mun minni en nú er (2005‐2011) og var einkum mat á svokölluðu seiðasmugi,‐ að smæstu seiðin í útsetningarhópunum kæmust í gegn um möskva. Nú hefur verið brugðist við því í Noregi og einnig hér á landi (Iso‐staðall 9415). Af þessum ástæðum er stuðullinn 0,8 fjarri núverandi stöðu mála. Stuðullinn S í báðum reikniformúlum, fyrir síðbúið og snemmbúið strok er því að líkindum verulega ofmetinn. Í þessu sambandi er einnig vert að hafa í huga að nú er liðið rúmt ár frá birtingu áhættumatsins og rauntölur yfir strok í íslensku fiskeldi þetta ár, og raunar síðastliðin ár, ættu að liggja fyrir og gefa raunsannari mynd. Því er ekki tekið tillit til þess,‐ í ljósi þess að tekið er fram í áhættumatinu að það ætli að byggja á nýjustu upplýsingum?

Tekið er fram að skv. stuðlinum 0,8 ættu u.þ.b. 9000 laxar að strjúka úr íslenskum sjókvíum árið 2017, en nefnt að það sé líklega mun hærra en rauntölur. Að sama skapi reiknas að rúmlega 900 þúsund laxar hefðu þá átt að hafa sloppið úr norsku laxeldi á nýliðnu ári. Það sýnir fjarstæðuna.

Valið á stuðlinum 0,8 er varið úr frá þeirri forsendu að hann eigi að dekka hugsanlegar stórslysasleppingar sem geti orðið með löngu árabili. Umdeilt er hvort stórar óreglulegar sleppingar eða stöðugar minni sleppingar hafi meiri hugsanlega hættu á erfðablöndun í för með sér.

7. Í áhættumatinu (bls. 8) er tekið fram að Breiðdalsá sé hafbeitará, þ.e. hafi ekki náttúrulegan lífvænlegan laxastofn. Það er í samræmi við niðurstöðu og sögulegt yfirlit Árna Friðrikssonar (Árni Friðriksson. 1940) og skýrslu Árna Óðinssonar (Árni J. Óðinsson 1991). Því er undarlegt að taka Breiðdalsá með í áhættumatinu og miða takmarkanir við hana ef því er ætlað að meta blöndun við náttúrulega villta íslenska laxastofna.

Markmið áhættumats Hafrannsóknarstofnunar er (bls. 21): “… að gefa rétta mynd af fjölda strokufiska sem gætu tekið þátt í klaki í hverri á“. Hér hafa verið færð nokkur rök fyrir því að stórlega megi efast um að markmiðinu hafi verið náð, að óbreyttu. Sama gildir um mat á erfðablöndunaráhættu milli villtra laxastofna og eldislaxa. Ekki er deilt um að eldislax getur gengið upp í ár en hreint ekki líklegt að það hafi mikil áhrif á villta laxastofna, enda náttúruvalið sterkir kraftar. Í því ljósi er niðurlag nýjustu greinar Kevin Glover frá því í september 2018 (Glover et al. 2018) athyglsivert:

„Over the past three to four decades, tens of millions of domesticated salmon have escaped into the wild and introgression of domesticated salmon has been documented in Norwegian, Irish, Scottish, and Canadian populations. All available evidence suggests that introgression of domesticated escapees represents a threat to the genetic integrity, abundance and long‐term evolutionary viability of native populations. Despite this, direct evidence of phenotypic, life-history or demographic changes in native populations where introgression of domesticated escapees has been documented, is sparse“

Eftir meira en 30 ára rannsóknir hefur ekki enn tekist að sýna fram á að villta laxinum standi nein sérstök ógn af eldislaxinum. Undanhald þeirrar kenningar heldur áfram. Í því samhengi er einnig vert að nefna niðurstöðu rannsóknarnefndar skoska þingsins, um áhrif laxalúsar, sem birt var í nóv. 2018. Þar segir: „The Committee acknowledges that there are likely to be a range of factors that have contributed to the decline in wild salmon stocks over recent decades, and considers that it is possible sea lice attracted by the presence of salmon farms could be one. However, it also recognises that there is a lack of definitive scientific evidence on this issue“. Laxalús er þó ekki frekar til umræðu hér en áréttað að mikilvægt að að skoða allar hliðar máls og byggja ákvarðanir á grundvölluðum rannsóknum og réttmætum ályktunum út frá þeim.

Ólafur Sigurgeirsson.

Heimildir

Abrantes,K.G.,Lyle,J.M.,Nichols,P.D.,andSemmens,J.M.2011.Do exotic salmonids feed on native fauna after escaping from aquaculture cages in Tasmania, Australia? Canadian Journal of Fisheries and Aquatic Sciences, 68: 1539–1551.

Anon 2018. Rømt oppdrettslaks i vassdrag. Rapport fra det nasjonale overvåkingsprogrammet 2017. Fisken og havet, særnr.2‐2018

Árni Jóhann Óðinsson. 1991 Fiskrannsóknir í Breiðdalsá 1990. Veiðimálastofnun VMST‐A/910005.

Árni Friðriksson. 1940. Lax‐rannsóknir 1937‐1939. Rit Fiskideildar 1940 – nr. 2. Atvinnudeild Háskólans.

Castellani M, Heino M, Gilbey J, Araki H, Svåsand T, Glover KA. Modeling fitness changes in wild Atlantic salmon populations faced by spawning intrusion of domesticated escapees. Evol Appl. 2018;11:1010–1025. https://doi.org/10.1111/eva.12615

Chittenden CM, Rikardsen AH, Skilbrei OT, Davidsen JG, Halttunen E, Skardhamar J, Scott McKinley R (2011) An effective method for the recapture of escaped farmed salmon. Aquacult Environ Interact 1:215‐224. https://doi.org/10.3354/aei0002

Fleming, I. A., Hindar, K., Mjolnerod, I. B., Jonsson, B., Balstad, T., & Lamberg, A. (2000). Lifetime success and interactions of farm salmon invading a native population. Proceedings of the Royal Society of London Series B-Biological Sciences, 267, 1517–1523.

Fleming, I. A., Jonsson, B., Gross, M. R., & Lamberg, A. (1996). An experimental study of the reproductive behaviour and success of farmed and wild Atlantic salmon (Salmo salar). Journal of Applied Ecology, 33, 893–905.

Fleming, I. A., Lamberg, A., & Jonsson, B. (1997). Effects of early experience on the reproductive performance of Atlantic salmon. Behavioral Ecology, 8, 470–480.

Garcia de Leaniz, C., I. A. Fleming , S. Einum , E. Verspoor , W. C. Jordan , S. Consuegra , N. Aubin‐Horth , D. Lajus , B. H. Letcher , A. F. Youngson , J. H. Webb , L. A. Vøllestad, B. Villanueva, A. Ferguson and T. P. Quinn. (2007). A critical review of adaptive genetic variation in

Atlantic salmon: implications for conservation.
Glover, K. A., Pertoldi, C., Besnier, F., Wennevik, V., Kent, M., and Skaala, Ø. (2013). Atlantic salmon

populations invaded by farmed escapees: quantifying genetic introgression with a Bayesian approach and SNPs. BMC Genetics, 14: 4. Glover, K. A., Skaala, O., Sovik, A. G. E., & Helle, T. A. (2011). Genetic differentiation among Atlantic salmon reared in sea‐cages reveals a

nonrandom distribution of genetic material from a breeding programme to commercial production. Aquaculture Research, 42, 1323–1331. Glover, K. A., Quintela, M.,Wennevik, V., Besnier, F., Sørvik, A.G.E., and Skaala, Ø. (2012). Three decades of farmed escapees in the wild: A

spatio‐temporal analysis of population genetic structure throughout Norway. PLoS ONE, 7: e43129.

Glover, K. A., Solberg, M. F., McGinnity, P., Hindar, K., Verspoor, E., Coulson, M. W., … Svåsand, T. (2017). Half a century of genetic interaction between farmed and wild Atlan tic salmon: Status of knowledge and unanswered questions. Fish and Fisheries, 18(5), 890–927. https://doi.org/10.1111/faf.12214

Glover,K.A., Monica F. Solberg, Francois Besnier & Øystein Skaala. 2018. Cryptic introgression: evidence that selection and plasticity mask the full phenotypic potential of domesticated Atlantic salmon in the wild. Scientific Reportsvolume 8, Article number: 13966 (2018)

Guðni Guðbergsson, Þórólfur Antonsson og Sigurður Már Einarsson. 2011, Fiskrækt með seiðasleppingum. Stefna Veiðimálastofnunar. Niðurstöður fagfunda, samantekt: VMST/11059 Desember 2011).

Gunnar Þórðarson. 2017. Kynþroskahlutfall sláturlax hjá Arnarlaxi (Framkvæmt 1. desember 2017. Skýrsla unnin fyrir LF og Hafró vegna áhættumats.

Hansen, L. P. 2006. Migration and survival of farmed Atlantic salmon (Salmo salar L.) released from two Norwegian fish farms. ICES Journal of Marine Science, 63: 1211–1217.

Hansen, L.P. and Jonsson, B. 1989. Salmon ranching experiments in the river Imsa: Effect of timing of Atlantic salmon (Salmo salar) smolt migration on survival to adults. Aquaculture 82:367‐373.

Biol. Rev. (2007), 82, pp. 173–211. 173 doi:10.1111/j.1469‐185X.2006.00004.x

Hansen, L.P. and Jonsson, B. 1991a. The timing of Atlantic salmon smolt and post‐smolt release on the distribution of adult return. Aquaculture 98:61‐71.

Hansen, L. P., and Youngson, A. F. 2010. Dispersal of large farmed Atlantic salmon, Salmo salar, from simulated escapes at fish farms in Norway and Scotland. Fisheries Management and Ecology, 17:
28–32.

Hansen, T. J. Per Gunnar Fjelldal, Ole Folkedal, Tone Vågseth, Frode Oppedal. 2017. Effects of light source and intensity on sexual maturation, growth and swimming behaviour of Atlantic salmon in sea cages. Aquacult Environ Interact. Vol. 9: 193–204,

Harmon, P.R., B.D. Glebe and R.H. Peterson. 2003. The effect of photoperiod on growth and maturation of Atlantic salmon (Salmo salar) in the Bay of Fundy. Project of the Aquaculture Collaborative Research and Development Program. Can. Tech. Rep. Fish. Aquat. Sci. 2458: iv + 16 p.

Hislop, J. R. G., and Webb, J. H. 1992. Escaped farmed Atlantic salmon, Salmo salar L., feeding in Scottish coastal waters. Aquaculture and Fishery Management, 23: 721–723.

Isaksson, A., S. Oskarsson, S. M. Einarsson, and J. Jonasson. Atlantic salmon ranching: past problems and future management. ICES Journal of Marine Science, 54: 1188‐l 199. 1997

Iversen, M., Myhr, A. I. & Wargelius A., 2016. Approaches for delaying sexual maturation in salmon and their possible ecological and ethical implications, Journal of Applied Aquaculture, Volume 28, Issue 4

Jonsson, B., and Jonsson, N. 2006. Cultured Atlantic salmon in nature: a review of their ecology and interaction with wild fish.ICESJourna lof Marine Science, 63: 1162–1181.

Jonsson, N., Jonsson, B., and Hansen, L. P. 2003. Marine survival and growth of wild and released hatchery‐reared Atlantic salmon. Journal of Applied Ecology, 40: 900‐911.

Kanstad‐Hanssen, Ö., Sondre Bjørnbet, Vemund Gjertsen og Anders Lamberg 2016: Drivtelling av gytefisk, med registrering av innslag og uttak av rømt oppdrettslaks, i lakseførende elver i Nordland og Troms i 2015. Ferskvannsbiologen, rapport nr 2016‐2.

Keffer, M.L. & Caudill, C.C., 2014. Homing and straying by anadromous salmonids: a review of mechanisms and rates. Rev Fish Biol Fisheries, 24:333‐368.

Lamberg, A., Øyvind Kanstad Hanssen, Rita Strand, Vemund Gjertsen og Sondre Bjørnbet 2016:Innslag av rømt oppdrettslaks i Orkla og Gaula i 2013 ti l 2015, en test av metoder. SNA‐rapport nr 4‐2016.

Leclercq, E., J.F. Taylor, M. Sprague and H. Migaud. 2011. The potential of alternative lighting‐systems to suppress pre‐harvest sexual maturation of 1+ Atlantic salmon (Salmo salar) post‐smolts reared in commercial sea‐cages. Aquacultural Engineering, Volume 44, Issue 2, Pages 35‐47

Magnús Jóhannsson, Árni Ísaksson, Þröstur Elliðason og Sumarliði Óskarsson, 1996. Maintenance of Angling in the Rangá river in Southern Iceland. ICES. C. M. 1996/M:6 : 14 bls.

Magnús Jóhannsson og Sigurður Guðjónsson 1996. Fiskrækt. Freyr. 11:463‐471.

McGinnity, P., Prodöhl, P., Ferguson, A., Hynes, R., ó Maoiléidigh, N., Baker, N., Cotter, D., O’Hea, B., Cooke, D., Rogan, G., Taggart, J., & Cross, T. 2003. Fitness reduction and potential extinction of wild populations of Atlantic salmon, Salmo salar, as a result of interactions with escaped farm salmon. Proceedings of the Royal Society of London, Series B, 270: 2443‐2450. http://rspb.royalsocietypublishing.org/content/270/1532/2443.full.pdf

NN, 2017. Samarbeidsprosjektet Elvene Rundt Trondheimsfjorden og SalMar ASA 2017. Rapport 30 – 2017, Veterinærinstituttet.(

https://www.vetinst.no/rapporter‐og‐publikasjoner/rapporter/2017/samarbeidsprosjektet‐elvene‐rundt‐trondheimsfjorden‐og‐salmar‐asa‐2017

Piggins, D. J., and Mills, C. P. R. 1985. Comparative aspects of the biology of naturally produced and hatchery‐reared Atlantic salmon smolts (Salmo salar L.). Aquaculture, 45: 321‐333.

Olsen, R. E., and Skilbrei, O. T. 2010. Feeding preference of recaptured Atlantic salmon Salmo salar following simulated escape from fish pens during autumn. Aquaculture Environment Interactions, 1: 167–174.

Oppedal,f., G. L. Taranger, J‐E. Juell, T. Hansen., 1999. Growth, osmoregulation and sexual maturation of underyearling Atlantic salmon smolt Salmo salar L. exposed to different intensities of continuous light in sea cages Aquaculture research, 30 (7), 491‐499

Oppedal,F., A. Berg, R.E. Olsen, G.L. Taranger, T. Hansen. 2006. Photoperiod in seawater influence seasonal growth and chemical composition in autumn sea‐transferred Atlantic salmon (Salmo salar L.) given two vaccines. Aquaculture, 254 (2006), pp. 396‐410).

Saloniemi, I., Jokikokko, E., Kallio‐Nybreg, I., Jutila, E., and Pasanen, P. 2004. Survival of reared and wild Atlantic salmon smolts: size matters more in bad years. ICES Journal of Marine
Science, 61: 782‐787.

Skaala, Ö., Sofie Knutar, Kevin Glover. 2016. Rømt og vill fisk i Etneelva; resultat frå den heildekkande fiskefella. Etneelva‐2016‐Årsrapport‐ Havforskingsinstituttet. (http://utfisking.no/wp‐content/uploads/2017/03/Etneelva‐2016‐%C3%85rsrapport‐Havforskingsinstituttet.pdf)

Skilbrei, O. T. 2010a. Reduced migratory performance of farmed Atlantic salmon post‐smolts from a simulated escape during autumn. Aquaculture Environment Interactions, 1: 117–125.

Skilbrei, O. T. 2010b. Adult recaptures of farmed Atlantic salmon postsmolts allowedto escape during summer. AquacultureEnvironment Interactions, 1: 147–153.

Skilbrei, O. T. 2013. Migratory behaviour and ocean survival of escaped out‐of‐season smolts of farmed Atlantic salmon Salmo salar. Aquaculture Environment Interactions, 3: 213–221.

Skilbrei,O.T.,Finstad,B.,Urdal,K.,Bakke,G.,Kroglund,F.,and Strand, R. 2013. Impact of early salmon louse, Lepeophtheirus salmonis, infestation and differences in survival and marine growth of sea‐ranched Atlantic salmon, Salmo salar L., smolts 1997–2009. Journal of Fish Diseases, 36: 249–260.

Skilbrei, O.T., Heino, M., & Svåsand, T., 2015, Using simulated escape events to assess the annual numbers and destinies of escaped farmed Atlantic salmon of different life stages from farm sites in Norway, ICES Journal of Marine Science, 72(2), 670–685. doi:10.1093/icesjms/fsu133

Skilbrei,O.T.,Holst,J.C.,Asplin,L.,andHolm,M.2009.Verticalmovements of “escaped” farmed Atlantic salmon (Salmo salar) ‐ a simulation study in a western Norwegian fjord. ICES Journal of Marine Sciences, 66: 278–288.

Skilbrei, O. T., Holst, J. C., Asplin, L., and Mortensen, S. 2010. Horizontal movements of simulated escaped farmed Atlantic salmon (Salmo salar) in a western Norwegian fjord. ICES Journal
of Marine Science, 67: 1206–1215.

Skilbrei,O.T.,andJørgensen,T.2010.Recaptureofculturedsalmonfollowing a large‐scale escape experiment. Aquaculture Environment Interactions, 1: 107–115.

Skilbrei, O. T., Skulstad, O. F., and Hansen, T. 2014. The production regime influences the migratory behaviour of escaped farmed Atlantic salmon (Salmo salar L.). Aquaculture, 424–425: 146–150.

Skilbrei, O. T., and Wennevik, V. 2006. The use of catch statistics to monitor the abundance of escaped farmed Atlantic salmon and rainbow trout in the sea. ICES Journal of Marine Science, 63: 1190–1200.

Skoglund, H., Bjørn T. Barlaup, Eirik Straume Normann, Tore Wiers, Gunnar Bekke Lehmann, Bjørnar Skår, Ulrich Pulg, Knut Wiik Vollset, Gaute Velle, Sven‐Erik Gabrielsen & Sebastian Stranzl. 2016: Gytefisktelling og uttak av rømt oppdrettslaks i elver på Vestlandet høsten 2015. LFI‐rapport nr 266.. http://www.fiskeridir.no/content/download/15892/230770/version/6/file/uniresearch‐gytefisktelling‐romtlaks‐ 2015.pdf

Sigurður Guðjónsson, 1995. Fiskrækt með seiðasleppingum. Kímblaðið. 8: 20‐23.

Solberg, M. F., Zhang, Z. W., Nilsen, F. & Glover, K. A. 2013. Growth reaction norms of domesticated, wild and hybrid Atlantic salmon families in response to differing social and physical environments. Bmc Evolutionary Biology 13, 234, https://doi.org/10.1186/1471‐2148‐ 13‐234 (2013).

Solem, Ø., Hedger, R. D., Urke, H. A., Kristensen, T., Økland, F., Ulvan, E. M., and Uglem, I. 2013. Movements and dispersal of farmed Atlantic salmon following a simulated‐escape event. Environmental Biology of Fishes, 96: 927–939.

Soto, D., Jara, F., and Moreno, C. 2001. Escaped salmon in the inner seas, southern Chile: facing ecological and social conflicts. Ecological Applications, 11: 1750‐1762

Taranger, G.L., Svåsand, T., Kvamme B.O., Kristiansen T. S. and Boxaspen K.K. (2012). Risk assessment of Norwegian aquaculture [Risikovurdering norsk fiskeoppdrett] (In Norwegian). Fisken og havet, særnummer 2‐2012. 131 pp.

Taranger, G.L., Svåsand, T., Kvamme, B.O., Kristiansen T.S., and Boxaspen, K. (Eds) (2014). Risk assessment of Norwegian aquaculture 2013 (in Norwegian). Fisken og Havet, Særnummer 2‐2014.

Taranger, G.L., Manuel Carrillo, Rüdiger W. Schulz, Pascal Fontaine, Silvia Zanuy, Alicia Felip , Finn‐Arne Weltzien, Sylvie Dufour, Ørjan Karlsen, Birgitta Norberg, Eva Andersson, Tom Hansen. 2010, Control of puberty in farmed fish, General and Comparative Endocrinology 165, 483–515

Thorpe, J. E., Metcalfe, N. B., and Fraser, N. H. C. 1994. Temperature dependence of the switch between nocturnal and diurnal smolt migration in Atlantic salmon. In High‐Performance Fish, pp. 83‐86. Ed. by D. D. MacKinlay. Fish Physiology Association, Vancouver, Canada.

THORPE, J., MANGEL, M., METCALFE, N. & HUNTINGFORD, F. 1998. Modelling the proximate basis of salmonid life‐history variation, with application to Atlantic salmon, Salmo salar L. Evolutionary Ecology, 12, 581‐599.

VERSPOOR, E., DONAGHY, M. & KNOX, D. 2006. The disruption of small scale genetic structuring of Atlantic salmon within a river by farm escapes. Journal of Fish Biology, 69, 246‐246.

Weir, L. K., Hutchings, J. A., Fleming, I. A., & Einum, S. (2004). Dominance relationships and behavioural correlates of individual spawning success in farmed and wild male Atlantic salmon, Salmo salar. Journal of Animal Ecology, 73, 1069–1079.

Wringe, B.F., Nicholas W. Jeffery, Ryan R. E. Stanley, Lorraine C. Hamilton, Eric C. Anderson, Ian A. Fleming, Carole Grant, J. Brian Dempson, Geoff Veinott, Steven J. Duffy & Ian R. Bradbury. 2018. Extensive hybridization following a large escape of domesticated Atlantic salmon in the Northwest Atlantic. Communications Biologyvolume 1, Article number: 108 (2018)