„Eftir meira en 30 ára rannsóknir hefur ekki enn tekist að sýna fram á að villta laxinum standi nein sérstök ógn af eldislaxinum."

Eftirfarandi grein birtista á fréttavefnum bb.is

Ólafur Sigurgeirsson, lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum gagnrýnir áhættumat Hafrannsóknarstofnunar harðlega. Gert er ráð fyrir í frumvarpi til laga sem er í undirbúningi að áhættumatið fái lagalega stöðu og muni gegna lykilhlutverki við stefnumótun og uppbyggingu laxeldis í kvíum við strendur Íslands og er lagt til grundvallar við úthlutun starfs‐ og rekstrarleyfa og heimilt framleiðslumagn á hverju svæði.

Tilgangur að meta áhættu á erfðablöndun

Tilefni áhættumatsins er uppbygging laxeldis í kvíum hér á landi og er deilt um hugsanlega erfðablöndun norsks kynbætts eldislax við villta íslenska laxastofna.

Í áhættulíkaninu eru 10 breytur sem þarf að vega og meta. Niðurstöður líkansins eru síðan notaðar til að meta hvar óhætt er að stunda laxeldi í kvíum án þess að of mikil áhætta sé tekin m.t.t. erfðablöndunar við villta stofna. Við slíka tilraun skiptir auðvitað megin máli hvaða forsendur menn gefa sér fyrir hverja og eina breytu og hvaða tölur eru settar inn í líkanið.

Gamlar og rangar forsendur

Að mati Ólafs væri rangt ef lagagrundvöllur fyrir laxeldi í kvíum verður byggður á áhættumatinu eins og það liggur fyrir. Ólafur segir að „Forsendur áhættumatsins eru rangar, byggja ekki á nýjustu gögnum um fjölda strokulaxa sem sleppa úr eldi, afdrifum þeirra í villtri náttúru, mögulega erfðablöndun við villta stofna né staðreyndum um framkvæmd nútíma laxeldis sem hafa áhrif á hugsanlega erfðablöndun.“

Um fyrirliggjandi áhættumat Hafrannsóknarstofnunar segir Ólafur þetta:

„Tillögur áhættumatsskýrslunnar eru að banna eldi á kvíum í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði og takmarka eldi í Berufirði, Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Þær byggja á útreikningum í líkani að gefnum forsendum sem ekki standast neina skoðun og styðjast ekki við bestu fáanlegu upplýsingar, eins og rakið hefur verið“

Veikleikar áhættumatsins

Rekur hann svo helstu veikleika áhættumatsins í sjö tölusettum liðum.

Um stóra þáttinn 4% þröskuldinn, segir í umsögn lektorsins á Hólum, að það segi lítið til um mögulega erfðablöndunaráhættu að miða við 4% í fjölda eldisfiska í á versus villtra fiska sem gætu komið til hrygningar enda er ekkert mat á hversu hátt hlutfall eldisfisksins taki þátt í hrygningunni.

„Nýlega birt rannsókn, sem notast við endurbætt líkan sem vísað er til í áhættumatinu, álítur að 5‐10% innblöndun kynþroska fiska í á í langan tíma hafi lítil eða hverfandi stofnerfðafræðileg áhrif og ef einhver verða hverfi þau á fáeinum kynslóðum ef innblöndun verður minniháttar síðar (Castellani et al. 2018). Hér eru því komnar fram nýjar upplýsingar eftir að áhættumatið var birt.“

Í öðru lagi segir í umsögn Ólafs Sigurgeirssonar, lektors í fiskeldi að það nái ekki nokkurri átt og eigi ekki við nein rök að styðjast að miða við 15% kynþroskatíðni eldislaxa við síðbúið strok við útreikninga áhættumatsins. Nær væri að miða við 0 – 3%.

orðrétt segir :

„Allar reynslutölur laxeldis í N‐Evrópu sem nota nútíma ljósastýringu  (NL‐LL og LL, sjá t.d. Oppedal et al. 2006 og Oppedal et al. 1999) og mælingar gerðar að gefnu tilefni (Gunnar Þórðarson, 2017) á Íslandi sýna að kynþroski eldislaxa við sláturstærð er mun lægri, oftast um 0‐3%. Við síðbúið strok skiptir máli hvenær ársins það verður.“

Í þriðja lagi nefnir Ólafur tvö atriði sem ekki er tekið tillit til í áhættumati Hafrannsóknarstofnunar en hafi mikil áhrif á möguleika á hugsanlegri erfðablöndun.

Eru það stærð fiska og útsetningarárstími í kvíar sem skipta verulegu máli fyrir hugsanlega erfðablöndun ef fiskur sleppur í kjölfar útsetningar eða síðar. „Skilyrði um slíkt er einfalt að setja sem mótvægisaðgerð sem hefði mikil áhrif. Önnur mikilvæg mótvægisaðgerð er skilyrði um ljósastýringu til að koma í veg fyrir kynþroska.“

Í lokaorðum sínum segir Ólafur:

„Markmið áhættumats Hafrannsóknarstofnunar er (bls. 21): “… að gefa rétta mynd af fjölda strokufiska sem gætu tekið þátt í klaki í hverri á“. Hér hafa verið færð nokkur rök fyrir því að stórlega megi efast um að markmiðinu hafi verið náð, að óbreyttu. Sama gildir um mat á erfðablöndunaráhættu milli villtra laxastofna og eldislaxa. Ekki er deilt um að eldislax getur gengið upp í ár en hreint ekki líklegt að það hafi mikil áhrif á villta laxastofna, enda náttúruvalið sterkir kraftar“

og loks

„Eftir meira en 30 ára rannsóknir hefur ekki enn tekist að sýna fram á að villta laxinum standi nein sérstök ógn af eldislaxinum. Undanhald þeirrar kenningar heldur áfram.“