SA: Laxeldi, fyrirsjáanleiki og réttarríkið

Frétt sem birtist á vef SA í dag.

Laxeldi, fyrirsjáanleiki og réttarríkið

Það er grundvallarregla réttarríkis að lög séu fyrirsjáanleg. Reglan er brotin með nýlegum úrskurðum þar sem felld voru úr gildi rekstrar- og starfsleyfi fiskeldisfyrirtækja sem þegar hafa hafið starfsemi á Vestfjörðum. Með lögum um mat á umhverfisáhrifum, skipulagsmál og leyfisveitingar hefur löggjafinn framselt víðtækt vald til stjórnsýslunefnda til að taka veigamiklar ákvarðanir um auðlindanýtingu og innviðauppbyggingu. Svo virðist sem stjórnsýslunni sé í sjálfvald sett að setja fram í sífellu nýjar kröfur og kvaðir sem ekki er hægt að leiða af lögum. Alþingi verður að grípa í taumana og gera lögin skýrari og fækka matskenndum ákvæðum svo stefnan sé mörkuð af lýðræðislega kjörnum fulltrúum. Ekki andlitslausum stjórnsýslunefndum sem  bera takmarkaða ábyrgð og þurfa ekki að endurnýja umboð sitt hjá almenningi

Verjum útflutningshagsmuni
Til þess að viðhalda núverandi lífsgæðum þurfa Íslendingar að auka útflutning um 1.000 milljarða króna á næstu 20 árum. Helstu útflutningsgreinunum, ferðaþjónustu, stóriðju og sjávarútvegi eru náttúrlegar skorður settar. Vöxturinn þarf einnig að koma úr nýjum atvinnugreinum, nýsköpun og þróun. Laxeldi er ein þessara greina og er þegar orðin mikilvægasta atvinnugrein Vestfjarða, ásamt sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Fyrirtæki í laxeldi hafa sjálf kallað eftir ströngu lagaumhverfi og eftirliti og lagt sig fram um að nota nýjustu tækni, standa vörð um umhverfis sitt og skapa sátt um reksturinn.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi sem Matvælastofnun og Umhverfisstofnun hafa gefið út til laxeldis í sjókvíum. Það var gert á þeim grundvelli að aðrir valkostir, svo sem notkun geldfisks, eldi á landi og eldi í lokuðum sjókvíum, hefðu ekki verið metnir. Þetta kom fyrirtækjunum í opna skjöldu, enda er ekki gerð krafa um þetta í lögum eða fyrri úrskurðum nefndarinnar. Höfðu þau í ljósi fenginna leyfa ráðist í umfangsmiklar fjárfestingar og ráðið til sín fólk.

Allar bjargir bannaðar
Úrskurðurinn lýsir miklu skilningsleysi á laxeldi. Eldi á geldfiski, laxeldi á landi eða í lokuðum sjókvíum eru ekki raunhæfir valkostir. Ekki hefur verið sýnt fram á að eldi á geldfiski sé mögulegt. Eldi á landi eða í lokuðum sjókvíum er mun dýrara og hefur meiri umhverfisáhrif vegna þess lands, vatns og mikillar orku sem þarf til starfseminnar.Valið stendur á milli þess að hafa sjókvíaeldi á Íslandi á svæðum sem eiga efnahagslega undir högg að sækja eða í einhverju öðru landi.

Lögin veita of mikið rými til beitingar geðþóttavalds og afleiðingin er óljós og þversagnakennd stjórnsýsluframkvæmd. Nýmælinu, að ávallt þurfi að líta til annarra kosta við mat á umhverfisáhrifum, er ekki hægt að beita í öllum tilvikum. Það kann að vera málefnalegt þegar um er að ræða t.d. raflínur þegar val er um línu í lofti eða jörðu. Það getur ekki átt við þegar starfsemi getur ekki grundvallast nema á einum kosti, eins og sjókvíaeldi er.

Nefndin hunsar meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og tekur ekki tillit til réttmætra væntinga í ljósi afgreiðslu á fyrri stigum. Harkalegasta úrræðinu er beitt, sviptingu leyfis, vegna nýrra krafna sem ekki er áskilnaður um í lögum. Ekki er litið til aðstæðna og eðlis þeirrar starfsemi sem er undir. Í kvíunum eru lifandi dýr. Það er ekki verið að stöðva holugröft þar sem grafan getur sinnt öðrum verkefnum meðan leyst er úr stjórnsýslulegum ágreiningi.

Slæleg vinnubrögð
Vinnubrögðin og afgreiðslan er umdeilanleg þar sem afleiðingin að óbreyttu getur ekki orðið önnur en gjaldþrot umræddra fyrirtækja, töpuð störf og verri afkoma fólks og fyrirtækja á svæðinu. Áhrifin gætu þó  orðið enn víðtækari. Í fyrsta lagi eru allar leyfisumsóknir sem tengjast fiskeldi í uppnámi. Óljóst er hversu langt fyrirtæki þurfa að fara aftur í ferlinu til að uppfylla þessar nýju kröfur. Í öðru lagi varðar þetta ekki eingöngu fiskeldi heldur allar framkvæmdir og starfsemi sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, svo sem virkjanir, vegagerð og byggingaframkvæmdir. Ekki er hægt að sjá hvernig atvinnulífið getur þolað að því sé búinn slíkur rammi í samskiptum við hið opinbera.

Tafir vegna óljósra og vanhugsaðra úrskurða leiða til mikils tjóns og óvissan dregur úr tiltrú fjárfesta á verkefnum. Afleiðingarnar eru minni fjárfestingar, verðmætasköpun og geta til uppbyggingar innviða sem leiðir allt til lakari lífkjara allra Íslendinga. Að auki er þessi þróun ískyggileg fyrir framtíð auðlindanýtingar í landinu. Hér er kominn vísir að því að snúið verði á hvolf skynsamlegri stefnu um sjálfbæra auðlindanýtingu, sem byggir á hlutlægu mati á fórnarkostnaði og jafnvægi milli auðlindanýtingar og náttúruverndar þar sem áhættan og óvissan er vísindalega metin.