Fellst á tillögu um 20.000 tonna laxeldi í Eyjafirði

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum allt að 20.000 tonna laxeldis í lokuðum sjókvíum í Eyjafirði. Fallist er á tillögu Akvafuture ehf. að matsáætlun með athugasemdum.

Fjallað er um málið á vefsíðu Skipulagsstofnunnar. Þar segir m.a. að í tillögu Akvafuture að matsáætlun kemur fram að ætlunin sé að framleiða allt að 20.000 tonn af laxi í lokuðum eldiskvíum í Eyjafirði. „Beitt verði nýrri eldistækni með minni neikvæðum umhverfisáhrifum. Markmiðið er að framleiðslan verði sjálfbær og að framleiðsluaukning verði stigvaxandi samhliða umhverfisvöktun og reynslu. Framkvæmdin er fyrirhuguð á sex aðskildum eldissvæðum í innanverðum Eyjafirði, frá Hjalteyri að Svalbarðseyri.“

Ennfremur segir að eldistæknin hafi verið þróuð af fyrirtækinu AkvaDesign AS og sé nýtt til framleiðslu á eldislaxi í Noregi. Hún komi meðal annars í veg fyrir að laxalús skaði eldislaxinn þar sem sjóvatni sé dælt inn í eldiskvíar á 25-30 metra dýpi þar sem laxalús sé ekki að finna.

„Með þessari eldistækni sé einnig dregið úr umhverfisáhrifum laxeldis á nærsvæði eldisins, þar sem með auðveldum hætti sé mögulegt að safna upp allt að 70% af botnfalli frá eldinu. Lokaðar eldiskvíar eins og hér um ræðir dragi einnig úr líkum á að fiskur sleppi og áhrif eldisins á villta laxastofna séu því í lágmarki. Slysasleppingar séu bundnar við stórslys, sbr. ákeyrslu stærri skipa, hafís eða mistök við flutning á fiski,“ segir á vefsíðunni.

Næsta skerf í málinu er gerð frummatsskýrslu en Skipulagstofnun segir að í henni þurfi að leggja mat á samlegðaráhrif frá annarri starfsemi sem losar næringarefni og er mengandi sem og gagnvirk áhrif fyrirhugaðs fiskeldis í Eyjafirði. Meta þarf samlegðaráhrif á botndýralíf, smitsjúkdóma, laxalús, villta laxastofna og siglingar sem og aðrar sjávarnytjar.