“Computer says no” hjá Hafró

líffræðingur, Cand scient, Aquaculture.

Síðastliðið sumar birti Hafrannsóknastofnun svokallað áhættumat um erfðablöndun milli náttúrulegra laxastofna og eldislaxa. Þvert á yfirlýstan tilgang metur áhættumatið ekki eiginlega erfðablöndun, heldur áætlar fjölda strokulaxa sem mögulega gætu gengið í hverja á og tekið þar þátt í hrygningu. Erfðablöndun er flóknara fyrirbæri en svo að henni verði gerð skil með einföldum fjöldatölum hugsanlegra sleppifiska sem mögulega gætu gengið upp í á. Horfa þarf til annarra þátta svo sem umhverfisaðstæðna, árstíma hugsanlegra sleppinga,  lélegs klakárangur eldislaxa, ólíks klakárangurs milli kynja eldislaxa, náttúrulegs vals og fleiri veigamikilla atriða sem spila stórt hlutverk. Þessum þáttum er ýmist illa eða ekki gerð skil í útreikningum áhættumatsins og rökstuðningur einstakra breyta er lítilfjörlegur frá fræðilegu sjónarhorni. Þrátt fyrir augljósa annmarka áhættumatsins leggja höfundar þess þó til að fallið verði frá eldisáformum í Ísafjarðardjúpi og að mögulegar eldisheimildir verði skertar til muna á Austfjörðum.

Þeir fjárhagslegu, þjóðhagslegu og samfélagslegu hagsmunir sem settir eru að veði með tillögum Hafrannsóknastofnunar eru slíkir að gera þarf þá kröfu að vandað sé til verka og að forsendur áhættumats séu svo réttar sem vera má. Áhættumat þetta er hins vegar haldið alvarlegum annmörkum og  þær aðferðir sem höfundar beita eru hvorki áður þekktar í heimi vísindanna né hafa þær verið rýndar af óháðum sérfræðingum.  Ef horft er í niðurstöður útreikninga áhættumatsins, sem miðar fjölda eldislaxa í á við viss þröskuldsmörk, má sjá að svo til allar ár landsins eru langt undir þeim mörkum þó miðað sé við núverandi eldisáform. Við útreikningana er það að athuga að ekki er gert ráð fyrir mótvægisaðgerðum s.s. stærri seiðum, ljósastýringu og viðeigandi möskvastærð en það eru  afgerandi þættir  þegar kemur að mati á áhrifum framkvæmda.  Þær skerðingar á framleiðsluheimildum sem lagðar eru til með vísan í áhættumatið má allar rekja til þriggja áa, þ.e. tveggja í Ísafjarðardjúpi og einnar á Austfjörðum.

Enginn villtur laxastofn er í Breiðdalsá

Því er haldið ranglega fram í  skýrslu um áhættumatið  að  Breiðdalsá í Breiðdal verði fyrir áhrifum vegna fyrirhugaðrar laxeldisstarfsemi á Austfjörðum en þar er hún sögð vera í einna mestri hættu vegna erfðablöndunar. Á þeirri forsendu hefur Hafrannsóknastofnun lagt til að mögulegar framleiðsluheimildir á Austfjörðum verði takmarkaðar til helmings. Þessi tillaga stofnunarinnar er með miklum ólíkindum, þá helst í ljósi þess að enginn villtur laxastofn er í Breiðdalsá og þessar afdrifaríku tillögur stofnunarinnar eru þar af leiðandi settar fram á röngum og annarlegum forsendum. Það vekur athygli að þversagnar gætir í skýrslu um áhættumatið en þar er  áin ekki flokkuð með náttúrulegum laxveiðiám heldur réttilega sem hafbeitará.

Heimildir sem ná hundruð ára aftur í tímann eru allar á þá leið að á öldum áður hafi ekki veiðst lax í Breiðdalsá, nema ef vera skyldu einstaka flökkulaxar. Í ferðabók Olafs Olaviusar frá 1775 segir frá samræðum hans við prest í Breiðdal. Presturinn greinir frá því að í Breiðdalsá hefði í eitt skipti, í tíð föður hans, veiðst lax. Sá lax veiddist í silunganet, en enginn á þessum slóðum átti laxanet. Undir lok nítjándu aldar segir svo í skýrslu Bjarna Sæmundssonar til landshöfðingja árið 1898 að í Breiðdalsá verði sjaldan eða aldrei vart við lax. Hann bendir þó réttilega á að í ánni er mikið af silungi, þá helst bleikju.

Horft framhjá umfangsmiklum seiðasleppingum

Sú laxveiði sem nú er stunduð í Breiðdalsá grundvallast algerlega af seiðasleppingum veiðiréttarahafa, enda uppeldisskilyrði Breiðdalsár ekki hentug laxi og hann getur illa fjölgað sér í ánni. Höfundum áhættumatsins er fyllilega ljóst að í Breiðdalsá eru stundaðar umfangsmiklar seiðasleppingar og þeir vísa sjálfir til árinnar sem hafbeitarár í skýrslu sinni um áhættumatið. Þrátt fyrir þessa augljósu vitneskju þeirra er ekki gerð tilraun til að leggja mat á áhrif seiðasleppinga á veiðitölur árinnar.

Útreikningar áhættumats ná til þeirra áa sem eru sagðar geyma 400 laxa stofna eða meira. Í Breiðdalsá er hins vegar ekki villtur laxastofn  og má nefna að árið 1984 veiddust 5 laxar þrátt fyrir sleppingar veiðiréttarhafa í ána. Það að litið sé framhjá ræktunarátaki við mat á stofnstærð árinnar skekkir niðurstöður áhættumats svo um munar og afleiðingarnar eru þær að á grundvelli áhættumats leggur Hafrannsóknastofnun til að framleiðsluheimildir á Austfjörðum verði 21.000 tonn í stað þeirra 52.000 tonna sem nú er miðað við samkvæmt burðarþolsmati.

Annarleg sjónarmið Hafrannsóknastofnunar

Með því að þröngva Breiðdalsá í áhættumatið hefur Hafrannsóknastofnun gefið matinu vægi á Austfjörðum, en því koma til með að fylgja fjölmörg ný vöktunarverkefni og aukin fjárframlög til stofnunarinnar.

Við áhættumat Hafrannsóknastofnunar er margt að athuga og það sýnir mikla óvarfærni stjórnvalda að enn hafi ekki verið gerð krafa um ritrýni þess eða óháða yfirferð. Einn alvarlegasti ágalli þess er þó sá að áhættumatið gerir ranglega ráð fyrir því að í Breiðdalsá sé villtur laxastofn, með þeim afleiðingum að áin verður eini takmarkandi þátturinn þegar kemur að framleiðslu í laxeldi á Austfjörðum. Hið rétta er að veiði í Breiðdalsá verður aðeins viðhaldið með seiðasleppingum og áin á þar af leiðandi ekkert erindi í áhættumat sem er ætlað að vernda villta laxa fyrir erfðablöndun.

Gunnar Steinn Gunnarsson, líffræðingur, Cand scient, Aquaculture.

Yfirmaður matfiskaeldis hjá Löxum fiskeldi ehf.