Í nýju fréttabréfi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að útflutningsverðmæti fiskeldis á fyrstu sjö mánuðum ársins er 8,0 milljarða króna.
„Þetta er 5% samdráttur í krónum talið á milli ára en á sama tímabili í fyrra var verðmætið eldisins 8,4 milljarðar króna. Þennan samdrátt má alfarið rekja til þess að útflutningsverðmæti silungs skrapp saman um milljarð króna, eða úr 3,0 milljörðum í 2,0 milljarða. Útflutningsverðmæti á laxi er komið upp í 5,4 milljarða, sem er 0,4 milljarða króna aukning á milli ára.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá þróunina á útflutningsverðmæti eldisfisks á fyrstu 7 mánuðum hvers árs frá 2010 og þróunina í samanburði við sjávarafurðir. Nemur útflutningsverðmæti eldisins 6% af útflutningsverðmæti sjávarafurða á fyrstu 7 mánuðum þessa árs, sem er veruleg aukning miðað við það sem áður var. Í fyrra var þetta hlutfall hærra, en það skýrist að miklu leyti af verkfalli sjómanna í upphafi síðasta árs sem leiddi augljóslega til minni útflutnings sjávarafurða.“
„Í morgun birti Hagstofan einnig tölur um vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd á öðrum ársfjórðungi. Þegar lá fyrir að útflutningsverðmæti sjávarafurða á fjórðungnum væri 60,9 milljarðar króna. Nemur það 19% af heildarútflutningstekjum vöru- og þjónustuviðskipta sem námu 325 milljörðum króna á tímabilinu. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá útflutning á vöru og þjónustu á fyrri árshelmingi og skiptinguna eftir helstu flokkum. Sjá má að sjávarútvegurinn er önnur stærsta atvinnugreinin í þessu tilliti, á eftir ferðaþjónustu.“