Stefnir á 6.000 tonna eldi í lokuðum sjókvíum

Laxeldis­fyr­ir­tækið AkvaFut­ure hef­ur lagt fram matsáætl­un fyr­ir fisk­eldi í lokuðum sjókví­um í Ísa­fjarðar­djúpi. AkvaFuture stefnir á 6.000 tonna eldi á fjórum stöðum í Djúpinu. Hafrannsóknarstofnun hefur metið burðarþol svæðisins og telur að þar sé hægt að framleiða allt að 30.000 tonnum á ári.

Í tilkynningu um málið frá AkvaFuture er haft eftir Rögnvaldi Guðmundssyni framkvæmdastjóra AkvaFuture að kostir lokaðra sjókvía séu umtalsvert meiri en opinna kvía.

„Við höf­um fengið staðfest að þessi tækni kem­ur al­farið í veg fyr­ir að laxal­ús skaði eld­islax­inn. Jafn­framt er dregið stór­lega úr um­hverf­isáhrif­um lax­eld­is því með auðveld­um hætti má safna upp botn­falli frá eld­inu,“ segir Rögnvaldur.

Þá kemur einnig fram í máli hans að með lokuðum kvíum er nánast alfarið komið í veg fyrir að lax sleppi úr kvíunum nema í mestu hamförum eða vegna mistaka við flutning á laxinum.

AkvaFut­ure er dótturfélag norska fyr­ir­tæk­is­ins AkvaDesign AS sem hann­ar hinar lokuðu kví­ar. Jafnframt rekur annað dótturfélag AkvaDesign laxieldi í lokuðum kvíum í Brönnöysund í Noregi.