Skaginn 3X hefur hlotið evrópska styrkinn SME Instrument Grant til að þróa frekar SEASCANN tækni sína um borð í fiskiskipum. Alls sóttu 1.300 evrópsk tæknifyrirtæki um styrkinn í ár en Skaginn 3X var eitt þeirra 64 fyrirtækja sem fékk hann. Tækni Skagans 3X er einnig notuð í laxeldi hérlendis eins og fram hefur komið í Fiskeldisblaðinu.
SEASCANN tæknin hefur þegar verið tekin í notkun um borð í fimm íslenskum fiskiskipum. Um er að ræða kerfi þar sem afli um borð er á sjálfvirkan hátt flokkaður eftir stærð, þyngd, lit, gæðum eða öðrum þáttum að vali útgerðarinnar. Þar að auki er hægt að senda upplýsingarnar um vinnsluna um borð beint, í gegnum tölvuský, til þeirra í landi sem stjórna ráðstöfun aflans. Í frétt um málið á vefsíðunni worldfishing.com segir m.a. að kerfi Skagans sé 99% nákvæmt.
Haft er eftir Ingólfi Árnasyni forstjóra Skaginn 3X að kerfið geri þeim sem selja aflann kleyft að vita nákvæmlega hvað sé í boði áður en aflanum er landað. „SEASCANN felur í sér að rauntímaupplýsingar um fiskveiðar eru í boði og það mun hafa mikil og jákvæð umhverfis- og samfélagsleg áhrif,“ segir Ingólfur.