Úr 200 tonna eldi á regnbogasilungi í 1200 tonna framleiðslu

Fiskeldisfyrirtækið ÍS-47, sem er með starfsemi sína í Önundarfirði hefur sótt um 1.200 tonna leyfi til eldis á regnbogasilungi. Burðarþolsmat fjarðarins er 2.500 tonn. Fyrirtækið er nú að endurnýja eldisbúnað sinn með nýjum kvíum sem uppfylla staðalinn NS 9415.

Kvíar frá Færeyjum af fullkomnustu gerð
„Þetta eru kvíar sem standast norska staðalinn, sem er krafa um að við sem erum í eldinu uppfyllum,“ segir Gísli Jón Kristjánsson, framkvæmdastjóri fiskeldisfyrirtækisins ÍS 47, en það fyrirtæki hefur undanfarin ár verið með eldi á regnbogasilungi í Önundarfirði. Þetta kemur fram í viðtali bb.is við Gísla.
Fyrirtækið keypti nýverið tvær nýjar kvíar sem uppfylla staðalinn NS 9415, en hann er forsenda fyrir sjókvíaeldi samkvæmt íslenskum reglugerðum.
Kvíarnar sem hér um ræðir koma frá fyrirtækinu Vónin  og KJ í Færeyjum og undanfarna daga hafa Færeyingar unnið hörðum höndum við samsetningu þeirra. Gísli Jón er búinn að draga kvíarnar á flot og er þess nú beðið að Kjartan J. Hauksson kafari og hans menn frá Fiskeldisþjónustunni, mæti á staðinn til þess að festa þær niður og koma þeim endanlega fyrir.

1.200 tonna framleiðsla í umsóknarferli
Þær kvíar sem ÍS-47 er með eru 60 metrar að þvermáli, en nýju kvíarnar tvær eru hvor um sig 90 metrar. „Það þykir ekki stórt því menn eru með 160 metra kvíar annarsstaðar“, segir Gísli Jón.
ÍS 47 er núna með leyfi fyrir 200 tonna framleiðslu á regnbogasilungi í Önundarfirði og er gert ráð fyrir að í vetur verði slátrað 150 tonnum af regnbogasilungi úr eldinu í Önundarfirði.
-„Ég er með 1.200 tonn í umsóknarferli því núna er burðarþolsmatið komið í firðinum og það er 2.500 tonn. Ég er að undirbúa að stefna á það í framtíðinni með því að sækja um og ná mér í seiði en þetta er nýtilkomið. Og ég stefni á 2.500 tonn í framtíðinni“, segir Gísli Jón Kristjánsson í samtali við bb.is