Leiðrétta fréttir byggðar á misskilningi

Í nýrri frétt á heimasíðu Umhverfissjóðs sjókvíaeldis er leiðréttur misskilningur sem ratað hefur í fréttir fjölmiðla um að „Sjókvíeldi verði að hluta til niðurgreitt af ríkissjóði“.  http://www.visir.is/g/2018180419097

FYRIRKOMULAG VIÐ FJÁRMÖGNUN UMHVERFISSJÓÐS SJÓKVÍAELDIS

Nú nýlega hefur Umhverfissjóður sjókvíaeldis komist í fréttir vegna umræðu um fjármögnun sjóðsins. Svo virðist sem misskilnings gæti um fjármögnun hans, en hún kemur öll frá fyrirtækjum í sjókvíaeldi. Því vill stjórn sjóðsins árétta eftirfarandi.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði ráðherra. Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis. Sjóðurinn skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Jafnframt er heimilt að veita veiðiréttarhöfum styrki úr sjóðnum til að mæta þeim kostnaði eða tekjumissi sem þeir hafa orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar. Þetta eru verkefni sjóðsins og koma fram í lögum um fiskeldi nr. 71/2008.

Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis er innheimt árgjald af rekstrarleyfishöfum sjókvíaeldis og arður af eigin fé sjóðsins. Rekstrarleyfishafi sjókvíaeldis skal greiða árlegt gjald að upphæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og rennur það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Matvælastofnun annast álagningu og innheimtu árgjalds.

Rekstrarleyfishafar sjókvíaeldis hafa greitt eftirfarandi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis frá árinu 2014 sem miðast við stærð á rekstarleyfi þeirra.

2017       70.008.652 krónur

2016       76.623.864 krónur

2015       72.287.820 krónur

2014       38.746.666 krónur

Til útskýringar. Árið 2017 var miðað við að 1 SDR jafngilti 149,22 krónum. Rekstrarleyfishafar sjókvíaeldis höfðu rekstrarleyfi fyrir 39.095 tonna framleiðslu. 12 x 149,22 * 39.095 = 70.008.652 krónur.

Áhugi á sjóðnum hefur aukist mikið á undanförnum árum og sést það vel á aukningu í fjölda umsókna.

2015       2016       2017       2018

Umsóknir               6              9              10           33

Úthlutun                 6              9              10           14

Styrkur                 38m        40m        87m        228m

Þess má geta að á þessu ári var óskað eftir styrkjum að upphæð rúmlega 540 milljóna króna.

Í upphafi var meirihluti umsókna frá Hafrannsóknastofnun og Veiðimálastofnun. Þessar stofnanir voru svo sameinaðar þann 1. júlí árið 2016. Árið 2015 runnu allir styrkir sjóðsins til Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar og 60% árið 2016. Árið 2017 runnu 73% styrkjanna til Hafrannsóknastofnunar  og 68% árið 2018. Umsóknir og úthlutanir til háskóla, rannsóknarfyrirtækja og stofnana á landsbyggðinni hafa hins vegar aukist og þá sérstaklega á þessu ári sem er ánægjulegt.

Líkt og áður kom fram er Umhverfissjóður sjókvíaeldis alfarið fjármagnaður af rekstrarleyfishöfum sjókvíaeldis. Sérstök tímabundin fjárveiting til fiskeldismála var hins vegar veitt á árinu 2018 þegar framlag til Hafrannsóknastofnunar var hækkað um 90 milljónir króna sem sérstaklega var ætlað í  vöktun sjókvía vegna mögulegrar erfðablöndunar. Það framlag kom hins vegar ekki til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

Frumvarp til laga  um fiskeldi var lagt fram á Alþingi nú í vor en hlaut ekki afgreiðslu. Hefði það frumvarp verið samþykkt óbreytt hefðu útgjöld ríkisins til fiskeldismála aukist um 83 milljónir króna á árinu 2019.  Með frumvarpinu var hins vegar ekki ætlunin að auka ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis árið 2019, heldur gengið út frá því að fjármögnun yrði óbreytt skv. gildandi lögum. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ætlaði að fjármagna þessi útgjöld ársins 2019 innan útgjaldaramma ráðuneytisins.

Í fjárlögum kemur fram að Umhverfissjóður sjókvíaeldis fái árlega framlag úr ríkissjóði. Ástæða þessa er sú að með tilkomu nýrra laga um opinber fjármál sem tóku gildi þann 1. janúar árið 2016 varð breyting á því sem nefnist markaðar tekjur. Á slíkt við um hinar ýmsu stofnanir og sjóði að þrátt fyrir að viðkomandi innheimti markaðsgjald er það ekki lengur skilgreint sem markaðar tekjur. Þannig var 20.gr. e. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi breytt. Í stað þess að þar stæði: Rekstrarleyfishafi sjókvíaeldis skal greiða árlegt gjald að upphæð 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða samkvæmt rekstrarleyfi og rennur það óskipt til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, stendur nú að gjaldið skuli renna óskipt í ríkissjóð. Þó breyting hafi orðið á þessu hefur ríkissjóður ekki sett fjármuni inn í Umhverfissjóð sjókvíaeldis og það fé sem sjóðurinn hefur til umráða ræðst áfram af þeirri upphæð sem rekstrarleyfishafar sjókvíaeldis greiða í árgjald hverju sinni.