Fréttin birtist fyrst á Vísi.is 2. janúar 2018 12:55 –Birgir Olgeirsson skrifar
Óskarsverðlaunahafinn Leonardo DiCaprio mælir með laxeldi til að vernda náttúruna. Leikarinn ákvað að hefja nýtt ár á því að vekja athygli á þessu málefni en hann sagði að við lok hvers árs megi horfa til þess hvaða hlutverki við gegnum við verndun jarðar.
„Allt frá því að minnka kolefnisfótsporið okkar og að minnka álagið á höfunum, þá eru til leiðir til að ná tafarlausum árangri,“ segir DiCaprio.
Hann segir neyslu fiskmetis vera betri fyrir umhverfið en að fá prótein úr kjöti, það minnki bæði kolefnisfótsporið og mengun frá landbúnaði.
„Sjálfbær fiskeldi minnka einnig álagið á stofnum sem eru í hættu og gefa þeim færi á að stækka. Heilbrigði plánetunnar ræðst af heilbrigði hafsins,“ segir DiCaprio.
Hann segir það vera ástæðuna fyrir því að hann hefur fjárfest og lýst yfir stuðningi sínum við bandaríska fyrirtækið Love The Wild sem býður upp á tilbúna fiskrétti og kaupir meðal annars lax úr norsku laxeldi.
DiCaprio deilir um leið mynd frá norsku laxeldi og fullyrðir að lax hafi ekki sloppið þaðan síðastliðin 10 ár og því megi þakka miklu eftirliti