Segir Óttar Yngvason vera andstæðingur fiskeldis númer 1 og hafa afhjúpað sig sem óvin fjölskyldna í Vesturbyggð

Eftirfarandi frétt birtist á DV í dag.

„Tveir þekktir bæjarstjórnarmenn fyrir vestan eru æfir út í andstæðinga fiskeldis á staðnum. Þeir Daníel Jakobsson og Pétur G. Markan vanda Óttari Yngvasyni ekki kveðjurnar í deilum um framtíð fiskeldis á svæðinu.

Tilefni skrifa þeirra er frétt RÚV þar sem rætt er við Óttar Yngvason um afleiðingar þess að Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi Fjarðarlax og Artic Sea til laxeldis í sjókvíum í Patreksfirði og Tálknafirði og vísað frá beiðni fyrirtækjanna um frestun réttaráhrifa.

Óttar Yngvason er lögmaður náttúruverndarsamtaka og veiðiréttarhafa. Hann segir við RÚV að sjókvíaeldi í Patreksfirði og Táknafirði sé úr sögunni eftir þessa niðurstöðu. Hins vegar þurfi það alls ekki að þýða atvinnuleysi. Orðrétt segir Óttar í viðtali við RÚV:

„Ég tel að þetta laxeldi sem fyrirhugað hefur verið í Patreksfirði og Tálknafirði sé núna endanlega úr sögunni. Reyndar hafa eldisfyrirtækin norsku tilkynnt að þau ætli að bera þetta mál fyrir dómstóla og ég og mínir umbjóðendur, sem eru náttúruverndarsamtök og veiðiréttareigendur víða um land, við höfum engar athugasemdir við það að bera þetta undir dómstóla og það er rétta leiðin.“

Enn fremur segir Óttar að tölur um störf við þetta fiskeldi séu ýktar og lok starfseminnar kalli ekki á atvinnuleysi.

Pétur Markan: Óvinurinn fundinn

Pétur Georg Markan, sveitarstjóri Súðavíkurhrepps, deilir frétt RÚV og segir Óttar hafa afhjúpað sig sem óvin fjölskyldna í Vesturbyggð og á Tálknafirði. Hann skrifar eftirfarandi færslu:

Í öllum stórum málum má merkja straumhvörf, tímamót þar sem hlutir skýrast og taka á sig rétta mynd. Hér er hún komin.

Fiskeldi er lífsviðurværi fjölskyldna í Vesturbyggð og Tálknafirði. Á svo einfaldan og átakalausan hátt eru þær dæmdar úr leik.

Ekki snefilmagn af sál.

Það hefur verið erfitt að benda á skúnkana í málinu.

Takk Óttar, nú áttar þjóðin sig betur á þér og þínum.

Takk.

Daníel Jakobsson: Óttar er andstæðingur númer eitt

Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi meirihlutans á Ísafirði og fyrrverandi bæjarstjóri, deilir einnig fréttinni og skrifar:

Óttar Yngvason er sennilega andstæðingur fiskeldis númer 1. Hann er veiðiréttarhafi og á rækjuútgerð og vinnslu m.a í Eistlandi, Sauðárkrók og víðar. Auð hans má m.a. rekja til rækjuútgerðar frá Bíldudal á árum áður.

Óttar hefur ásamt öðrum, kært allt sem hægt er að kæra í starfsemi fiskeldisfyrirtækja. Nú hefur honum tekist svo vel upp að öll störf í fiskeldi á Vestfjörðum eru í hættu vegna tæknigalla í umhverfismati. 300 manns eru í fullkominni óvissu um framtíð sína. Fólk sem flutti vestur til að búa sér til framtíð, keypt sér fasteign og veit nú ekkert um framtíð sína. 10 árum frá hruni stefnir í annað hrun hjá þeim.

Óttar er ekki ókunnugur Bílddælingum. Hann rak þar rækjuvinnslu aðalvinnustað bæjarins um árabil sem hann lokaði og flutti annað. Hann á enn fasteignina, risastóra verksmiðju í miðju bæjarins. Í hana hefur hann fengið ótal tilboð sem öllum hefur verið hafnað. Hann hefur ekki einu sinni sómakennd til að halda húsinu við.

Maðurinn sem lagði niður störf í þorpinu ætti að hafa manndóm í að aðstoða þorpið sem hann lagði niður um að standa upp aftur. Ekki reyna að beita öllum hugsanlegum lagaklækjum til að stoppa þessa uppbyggingu.

Þó ekki væri nema með því að láta fólk í friði og leyfa því að bjarga sér sjálft.“