Fréttastofa RÚV ræddi við Gunnar Steinn Gunnarsson, framleiðslustjóri hjá Löxum fiskeldi í sjónvarpsfréttum, á laugardaginn.
Hér má lesa efni fréttarinnar:
Óvíst hve mikið af laxi verður alinn í Reyðarfirði. Gangi áform um umfangsmikið laxeldi á Austfjörðum eftir verður grundvöllur fyrir fraktflug með ferskan fisk frá Egilsstaðaflugvelli. Þetta segir eldisstjóri hjá Löxum í Reyðarfirði. Óvíst er hve mikinn lax verður leyft að ala í firðinum.
Í Reyðarfirði hafa Laxar – fiskeldi komið upp kvíum á tveimur stöðum. Í fyrra sumar voru seiði sett út við Gripalda og nú í sumar einnig við Sigmundarhús. Aðstæður í Reyðarfirði hafa reynst góðar.
Gunnar Steinn Gunnarsson, framleiðslustjóri hjá Löxum fiskeldi: Já, hitastigið hefur verið um það bil tveimur gráðum hærra síðastliðið sumar en við sáum það á gömlum tölum sem við höfðum og í vetur hefur verið um það bil einni gráðu hærra og þetta hefur gefið þá miklu betri lax en við höfðum reiknað með. 15 manns starfa við eldið á Reyðarfirði og á næsta ári verða 10-12 ráðnir til viðbótar. Þegar hefur verið fjárfest fyrir rúman milljarð og ef aukin leyfi fást er fram undan fjárfesting í nýrri eldisvinnslu mögulega í samvinnu við fiskeldi Austfjarða.
Gunnar Steinn Gunnarsson: Frá því húsi færi um það bil 10 trailerar á dag og það myndi kalla á ýmsar leiðir til að reyna að koma vörunni á markað og ein af þeim leiðum sem við erum svolítið að skoða og höfum mikinn hug á, það er að fljúga með vöruna beint á markaðinn frá Egilsstöðum. Að öllum líkindum tvö flug í viku. Þetta veltur á því hvað við fáum af leyfum og það gildir bæði fyrir Laxa og Fiskeldi Austfjarða að þau leyfi sem um var sótt 2012 verði afgreitt samkvæmt lögum.
Laxar hafa 6 þúsund tonna leyfi í Reyðarfirði og hafa sótt um leyfi fyrir 10 þúsund til viðbótar. Fjörðurinn er talinn bera 20 þúsund tonna eldi, áhætta á erfðablöndun við villtan lax lækkar það hins vegar niður í 9 þúsund tonn af frjóum laxi. Áhættumatið verður endurskoðað á næstunni og mögulega hækkað vegna mótvægisaðgerða til að draga úr hættu á erfðablöndun.