Fiskeldisútflutningur nemur núna um 7 prósentum af útflutningsverðmæti sjávarútvegsins. Verðmæti hans var í fyrra lítið eitt minna en samanlagt útflutningsverðmæti síldar og kolmunna. Útflutningsverðmæti í fiskeldi gæti orðið, innan ekki svo margra ára, svipað og jafnvel meira en af þorski, okkar lang mikilvægasta fiskistofns.
Þetta kemur fram í grein eftir Einar K. Guðfinnsson formann Landssambands fiskeldisstöðva í Viðskiptablaðinu 17 mai sl. Greinin birtist hér í heild sinni:
Fiskeldi á Íslandi er þegar orðið umtalsverð búbót í íslensku atvinnulífi. Þó greinin sé enn á fyrstu árum framleiðslu sinnar, hvað laxinn áhrærir, þá munar greinilega um útflutningsverðmætið. Í ársskýrslu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kemur fram að fiskeldisútflutningur nemur núna um 7 prósentum af útflutningsverðmæti sjávarútvegsins. Verðmæti fiskeldisútflutningsins var í fyrra lítið eitt minna en samanlagt útflutningsverðmæti síldar og kolmunna.
Ábyrgð og gætni
Fiskeldismenn hafa ætíð lagt áherslu á ábyrgð og gætni í uppbyggingu fiskeldis. Hvatt hefur verið til þess að fylgt sé ströngustu lögum, stöðlum og reglum. Stórum hluta landsins hefur verið lokað fyrir fiskeldi í varúðarskyni frá árinu 2004. Hafrannsóknastofnun hefur bent á, að gagnstætt því sem er til að mynda Noregi og Skotlandi, séu eldissvæðin hér á landi í mikilli fjarlægð frá helstu laxveiðiám og eldi bannað á stórum hluta strandlengjunnar. Fyrir vikið leiðir áhættumat stofnunnarinnar til þeirrar niðurstöðu að lítil innblöndun eldisfiska verði í öllum helstu laxveiðiám landsins.
Laxeldisverðmætið álíka og í þorskútflutningi?
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir: „Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar“.
Þetta eru orð að sönnu og við getum áttað okkur vel á með því að skoða möguleikana í samhengi við þekktar stærðir. Ætla má að útflutningsverðmæti 71 þúsund tonna af laxi, sem rúmast innan áhættumats Hafrannsóknastofnunarinnar, sé á núgildandi markaðsvirði um 60 milljarðar króna. Stofnunin telur að þeir firðir sem metnir hafa verið geti borið um 130 þúsund tonna eldi. Útflutningsverðmæti þess gæti numið, miðað við þau verð sem nú fást fyrir laxinn á alþjóðamörkuðum, vel ríflega 100 milljörðum króna.
Skoðum þetta í samhengi við sjávarútveginn. Útflutningsverðmæti alls uppsjávarfisks á Íslandi, síldar, loðnu, kolmunna og makríls, nam 44,5 milljörðum króna árið 2017. Það er 15 milljörðum lægra útflutningsverðmæti en ætla má að fengist fyrir 71 þúsund tonna ársframleiðslu á laxi miðað við núgildandi markaðsverð. Útflutningsverðmæti á þorski var 83 milljarðar í fyrra og hafði lækkað um 17 prósent frá fyrra ári, meðal annars vegna lægra verðs, sjómannaverkfalls, sterkara gengis og fleiri þátta.
Með öðrum orðum. Það sýnist raunhæft að útflutningsverðmæti í fiskeldi gæti orðið, innan ekki svo margra ára, svipað og jafnvel meira en af þorski, okkar lang mikilvægasta fiskistofns, séu núverandi markaðsaðstæður lagðar til grundvallar.
Dæmisaga frá Vestfjörðum
Sem dæmi um þýðingu laxeldisins á einstökum svæðum má nefna, að útflutningsverðmæti lax frá Vestfjörðum var í fyrra álíka og frá þorskafurðum og fyrirsjáanlegt að það verður meira þegar á þessu ári. Þetta er athyglisvert í ljósi þess hve sjávarútvegur hefur verið algjörlega ráðandi í verðmætasköpun í atvinnulífi á Vestfjörðum og þá þorskveiðar og vinnsla alveg sérstaklega. Oft er sagt – og það með réttu – að Vestfirðir séu þorskveiði og -vinnslu samfélag. Með uppbyggingu fiskeldisins, má segja að smám saman sé að verða til ný stoð atvinnulífs á Vestfjörðum, sem geti orðið þar jafn gild sjávarútvegi innan fárra ára. Þetta hefði einhverju sinni þótt mikil tíðindi. Og sannarlega eru þetta góð tíðindi.
Mikil tækifæri – en strangar kröfur eru sjálfsagðar
Af öllu þessu má ráða að það felast mikil tækifæri í fiskeldi hér á landi, líkt og svo víða annars staðar. Laxeldi í heiminum nam í fyrra um 2,5 milljónum tonna sem er talið samsvara 17,5 milljörðum máltíða. En til þess að vel takist til þarf bæði gætni og ábyrgð. Ríkar kröfur á að gera til starfseminnar og stjórnenda hennar. Lög og reglur þurfa að vera skýrar og veita aðhald. Opinbert eftirlit þarf að vera bæði strangt og skilvirkt. Gagnsæi á að ríkja um alla upplýsingagjöf. Fiskeldisfyrirtækin eiga að stefna að vottun alþjóðlegra viðurkenndra umhverfisstaðla. Og íslenskt fiskeldi á að að vera í fremstu röð, líkt og íslenskur sjávarútvegur.
Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva.