Ómótstæðilegur graflax með ljúffengri sósu

Eva Laufey
Graflax

„Eitt af því sem mér þykir algjörlega ómótstæðilegt og nauðsynlegt fyrir jólin er graflax með góðri sósu. Ég hreinlega elska grafinn lax og gæti borðað hann í öll mál yfir jólin.. þessi uppskrift er afar einföld og þið ættuð þess vegna öll að geta leikið hana eftir,“ segir Eva Laufey Kjaran

Graflax

  • 1 laxaflak ca. 700 g. Beinlaust.
  • 200 g salt
  • 200 g púðursykur
  • 6 piparkorn
  • 2 msk vatn
  • 1 msk graflaxblanda frá Pottagöldrum
  • 4 – 5 msk dill
  • ½ sítróna

Aðferð:

  1. Leggið laxflakið í mót.
  2. Blandið saman salti, púðursykri, piparkornum og vatni í matvinnsluvél. Hellið síðan blöndunni yfir laxaflakið og nuddið vel inn í laxinn.
  3. Stráið kryddinu jafnt yfir flakið og saxið dillið mjög smátt og stráið yfir.
  4. Rífið börk af hálfri sítrónu yfir laxaflakið í lokin.
  5. Setjið plastfilmu yfir mótið og látið eitthvað þungt ofan á t.d. minna mót og mjólkurfernur.
  6. Geymið laxinn í kæli í 24 – 48 klst. Skolið flakið með köldu vatni og þerrið áður en þið berið fram með fersku dilli og góðri sósu.

 

 

Það er nauðsynlegt að hafa góða sósu með graflaxinum og hér fyrir neðan er uppskrift að graflaxsósu sem ég held mikið upp á.

 

Graflaxsósa

  • 1 dós sýrður rjómi 36%
  • 2 msk Dijon sinnep
  • 1 msk hlynsíróp
  • handfylli ferskt dill
  • Salt og pipar
  • 1 msk sítrónusafi

Aðferð:

  1. Setjið öll hráefnin í matvinnsluvél eða maukið
    með töfrasprota. Smakkið ykkur gjarnan til og bragðbætið að vild.
  2. Best er að geyma sósuna í kæli í 30 mínútur áður en hún er borin fram.