Einar K. Guðfinnsson skrifar
„Það fylgir þessu birta og gleði, aukin atvinna sem hefur haft mikil og góð áhrif á samfélagið allt hér í kring um okkur. Ég er alltaf með það í huga að við séum að skapa verðmæti, við erum í matvælaframleiðslu og við erum að vinna að einhverju sem skiptir máli. Þess vegna verður að vanda vel til verka“. Þetta kemur fram hjá Jónu Kristínu Sigurðardóttur, fiskmatsmanni hjá Búlandstindi á Djúpavogi í viðtali við blaðið SÓKNARFÆRI sem er dreift með Morgunblaðinu.
Vandinn hefur falist í fábreyttum atvinnutækifærum
Þessi orð lýsa vel þeim jákvæðu breytingum sem fiskeldi hefur þegar haft í byggðunum austan lands og vestan. Og þetta er aðeins byrjunin.
Vandinn í landsbyggðunum hefur ekki einasta falist í fækkun atvinnutækifæra. Vandinn hefur ekki síður einkennst af fábreytni atvinnulífsins. Störfunum hefur fækkað í framleiðslugreinum með aukinni vélvæðingu og tækni og sú þróun mun halda áfram.
Hærra menntunarstig, jafnrétti kynjanna
Samfélag okkar er líka orðið margbrotnara og tækifærin margþættari, þegar litið er á landið í heild. Séu atvinnutækifærin ekki til staðar á einum stað, þá fer fólkið þangað sem þessir möguleikar finnast. Þess vegna hefur krafan úr landsbyggðunum ekki bara falist í störfum, heldur fyrst og síðast fjölbreyttum atvinnutækifærum. Hærra menntunarstig, jafnrétti karla og kvenna og gjörbeyttir atvinnulífshættir hafa gert þetta að verkum og sannarlega er það vel. Aukinn fiskveiðikvóti á einum stað ( sem flyst þá frá öðrum stað) leysir þess vegna ekki vandann. Krafan er um aukna fjölbreytni.
Fiskeldi og ferðaþjónusta hafa verið svarið við þessu ákalli
Fiskeldi og ferðaþjónusta hefur á sinn hátt verið svarið við þessu ákalli, eins og bent var á nýlega í opinberri umræðu um nýjar tölur um búsetuþróun á landsbyggðinni. Aukin ferðaþjónusta og vaxandi fiskeldi hafa ekki einasta skapað störf, heldur nýja tegund af störfum, fjölþættari störf sem hafa laðað ungt fólk til búsetu í landsbyggðunum. Reynslan sýnir hvað fiskeldið starfar, að þar hafa orðið til eftirsótt störf, sem ungt fólk með fjölþætta menntun, reynslu og bakgrunn sækist eftir. Og á tímum þar sem ungu fólki er ill mögulegt að koma undir sig fótunum í rándýru húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, er búseta í landbyggðunum ákjósanlegur kostur; svo fremi sem störf við hæfi finnast. Og þar er einmitt komið að fjölbreytninni í starfsmöguleikum.
Tökum dæmi frá Vestfjörðum
Við sjáum ótrúlegar breytingar, jákvæðar breytingar, þar sem fiskeldi hefur verið að festa sig í sessi. Tökum Vestfirði sem dæmi:
Vestfirðir hafa háð varnarbaráttu undanfarin ár og ýmislegt verið mótdrægt. Undanfarin ár hafa Vestfirðingar náð vopnum sínum beturog sjávarútvegur, jafnt útgerð og fiskvinnsla verið að aukast. Það er vel. Það hefur alltaf einkennt sjávarútveg á Vestfjörðum að hann er fyrst og fremst byggður á þorskveiðum og vinnslu. Um þessar mundir er þorskkvóti Vestfirðinga um 20 þúsund tonn og ætla má að útflutningsverðmæti þess afla geti verið um 8 milljarðar króna.
En nú hefur mynstrið breyst á Vestfjörðum. Laxeldi er þegar orðið ein af meginstoðum atvinnulífsins þar. Þetta má sjá af því að útflutningsverðmæti á laxi frá Vestfjörðum er núna álíka og svarar til útflutningsverðmætis þorskkvóta svæðisins. Ljóst er að á þessu ári mun útflutningsverðmæti laxeldis á Vestfjörðum verða mun meira en sem svarar útflutningsverðmæti magns þess sem þorskkvótinn er. Þetta eru raunveruleg dæmi úr samtímanum.
Leikið til sigurs
Álíka tækifæri fyrir byggðirnar austanlands og vestan hafa ekki sést í háa herrans tíð. Menn spyrja hvaðan kemur vinnuaflið? Svarið er. Með því að fleira fólk setjist að á þessum svæðum, fólkinu fjölgi, ný tækifæri verði til með vaxandi fólksfjölda; tækifæri sem eru ella víðsfjarri seilingar á hinum fámennari stöðum. Við sæjum með öðrum orðum svipaða þróun fyrir austan og vestan og við höfum séð til dæmis á höfuðborgarsvæðinu, þangað sem fólk hefur flutt úr landsbyggðunum, meðal annars frá Austfjörðum og Vestfjörðum, í leit að vinnu við hæfi og betri lífsafkomu. Með öðrum. Við gætum jafnað metin, snúið vörn í sóknarleik og leikið til sigurs.
Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva.