Nýtt veitingahús í Osló þar sem uppistaðan eru réttir úr eldislaxi hóf rekstur í síðasta mánuði. Staðurinn ber nafnið Pink Fish. Þeir sem standa á bakvið Pink Fish hafa uppi áform um að í framtíðinni verði um 1.000 veitingastaðir á heimsvísu starfræktir þar sem eldislax er uppistaða rétta. Pink Fish á að keppa við aðrar veitingahúsakeðjur þar sem sjávarréttir eru í fyrirrúmi eins og t.d. Red Lobster í Bandaríkjunum.
Fyrsti Pink Fish staðurinn er í Steen & Ström verslunarmiðstöðunni í miðborg Oslóar. Í norskum fjölmiðlum kemur fram að stofnendur Pink Fish eru athafnamaðurinn Ronny M. Gjöse, meistarakokkurinn og Bocuse d’Or vinningshafinn Geir Skeie og fjárfestirinn Svein Sandvik. Þeir félagar vilja fá fleiri til liðs við sig og segir Gjöse að hann sé þegar í viðræðum við eigendur norskra laxeldisfyrirtækja um aðkomu þeirra að rekstri staðarins.
Gjöse segir að stefnt sé að því í framtíðinni að koma á fót 1.000 Pink Fish stöðum í heiminum. Stefnt sé að því að opna fyrstu erlendu staðina í London og Suðaustur Asíu. Til að byrja með einbeita þeir félagar sér hinsvegar að innanlandsmarkaðinum og áformað er að næsti Pink Fish staðar verði í Bergen á fyrstu mánuðum næsta árs.