Eftirfarandi frétt birtist í Fréttablaðinu í dag í sérstakri umfjöllun blaðsins um kolefnisjöfnun:
„Kolefnisspor sjókvíaeldis er svipað og við veiðar á villtum fiski og minna en í annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis samkvæmt nýrri skýrslu.
Landssamband fiskeldisstöðva óskaði eftir því við Umhverfis ráðgjöf Íslands ehf. að reikna út kolefnisspor sjókvíaeldis á Íslandi og benda á raunhæfar leiðir til kolefnisjöfnunar. Jafnframt var þróað reiknilíkan á Excel-formi sem gerir einstökum laxeldisfyrirtækjum kleift að reikna kolefnisspor framleiðslu sinnar, þ.e.a.s. magn gróðurhúsalofttegunda sem losnar við framleiðslu á hverju kílói af laxi til manneldis. Inn í þessa reikninga var tekin framleiðsla og flutningur fóðurs og annarra aðfanga, eldið sjálft, orkunotkun, notkun kælimiðla og meðhöndlun úrgangs, svo og pökkun og flutningur afurða frá laxeldisstöð til dreifingarstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Meginniðurstaða verkefnisins er að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda frá laxeldi í sjó á Íslandi hafi verið um 31.000 tonn CO2- ígilda árið 2017, eða sem nemur 3,21 kg CO2-ígilda á hvert kíló af tilbúinni afurð. Er niðurstaðan sögð vera í góðu samræmi við erlenda útreikninga. Kolefnisspor sjókvíaeldis er samkvæmt þessari formúlu svipað og við veiðar á villtum fiski og lægra en í flestri annarri framleiðslu á dýraafurðum til manneldis. Langstærsti hlutinn af kolefnisspori laxeldis á Íslandi, eða um 93 prósent, liggur í framleiðslu og flutningum á fóðri. Um þrjú prósent stafa af framleiðslu og flutningi umbúða og um tvö prósent af flutningi afurða til dreifingarstöðvar. Aðrir þættir hafa minna vægi. Af þessu er ljóst að áhrif greinarinnar á loftslagið liggja fyrst og fremst í starfsemi sem fram fer utan laxeldisstöðvanna sjálfra. Í skýrslunni segir að rekstraraðilar stöðvanna hafi takmarkaða möguleika á að draga úr neikvæðum áhrifum greinarinnar á loftslag jarðar. „Vissulega myndi bætt nýting fóðurs minnka kolefnissporið, en úrbótum á þessu sviði eru takmörk sett þar sem greinin er þegar nálægt þekktu lágmarki hvað varðar fóðurnotkun á hvert kíló af fiski,“ segir þar enn fremur. Hægt væri að kolefnisjafna alla losun gróðurhúsalofttegunda frá sjókvíaeldi á Íslandi með landbótaaðgerðum, þ.e.a.s. landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis. Sem dæmi má nefna að til að kolefnisjafna alla losun greinarinnar eins og hún var árið 2017 þyrfti að endurheimta um 1.590 ha af votlendi.“