Matvælastofnun hefur veitt Arctic Smolt rekstrarleyfi til fiskeldis að Norður-Botni í Tálknafjarðarhreppi í samræmi við lög um fiskeldi. Um er að ræða breytingu á eldra rekstrarleyfi fyrirtækisins úr 200 tonnum í 1.000 tonna eldi á laxa- og regnbogasilungsseiðum á landi. Framkvæmdin er ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Seiðaeldisstöð Arctic Smolt er í Tálknafirði og er ein sú fullkomnasta í heiminum. Hún sér laxeldi móðurfyrirtækisins Arctic Fish fyrir seiðum. Stöðin hefur verið í rúm þrjú ár í byggingu. Fjárfesting Arctic í Tálknafirði er mikil en þegar stöðin verður fullkláruð er áætlað að kostnaðurinn verði um 3,5 milljarða króna. Arctic Fish er með leyfi fyrir laxeldi í Dýrafirði, Patreksfirði og Tálknafirði.