Hafrannsóknastofnun ráðleggur 6% lækkun á aflamarki þorsks byggt á aflareglu stjórnvalda, úr 272.411 tonnum í 256.593 tonn fyrir fiskveiðiárið 2020/2021. Helsta ástæða lækkunar ráðgjafar er lækkun í stofnmælingum botnfiska auk þess sem nú eru vísitölur 1 til 14 ára þorsks notaðar í stofnmatið en áður var einungis notaðar vísitölur 1 til 10 ára þorsks.
Með því að bæta við 11-14 ára vísitölum í stofnmatið er hlutfallsleg sókn í elsta og stærsta fiskinum nú metin hærri en í millifiski, en var áður metinn lægri. Gert er ráð fyrir að viðmiðunarstofn verði svipaður að stærð á næstu árum nema að til komi verulega breytt nýliðun. Útflutningstekjur þorsks munu því minnka á næstu árum, nú þegar mesta þörfin er að skapa gjaldeyristekjur.
Fiskeldi í Eyjafirði
Eyjafjörður er stór og mikill fjörður og einn fárra fjarða í strandlínu Íslands sem er opin fyrir fiskeldi og ræktun á laxi í firðinum sé fjarri villtum laxastofnum og ógnar honum ekki. Í Eyjafirði eru góðar aðstæður til ræktunar á laxi í sjó og tækifæri til að auka gjaldeyristekjur með umhverfisvænu laxeldi í Eyjafirði.
Róbert Guðfinnsson athafnamaður á Siglufirði skrifaði grein Morgunblaðið sem birt var hér á vef Fiskeldisblaðsins. Róbert telur mikil tækifæri til að auka gjaldeyristekjur með í aukinni uppbyggingu laxeldis. „Nú þegar útlit er fyrir að halli á ríkissjóði Íslands verði tæpir fimm hundruð milljarðar á næstu tveimur árum þarf að nýta öll skynsamleg tækifæri til að afla nýrra gjaldeyristekna. Laxeldi gæti átt stóran þátt í að rétta af efnahaginn,“ segir Róbert meðal annars í grein sinni.
Enn hefur ekki verið birt áhættu- og burðarþolsmati fyrir sjókvíeldi í Eyjafirði sem var við það að klárast fyrir þremur árum en hefur ekki verið birt opinberlega. Þar eru gríðarlega tækifæri til sjókvíeldis sem gæti skapað verulegar gjaldeyristekjur eins og Róbert vísar til.
Fiskeldi í Jökulfjörðum
„Bæjarráð Bolungavíkur tók fyrir á þriðjudaginn erindi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra dags 9. júní þar sem ráðherrann kynnir lagaheimildir sem hann hafi til þess að banna eða takmarka fiskeldi í einstökum fjörðum eða svæðum sem teljist sérstaklega viðkvæm fyrir fiskeldi. Óskar ráðherrann álits á því hvort takmarka eða banna eigi fiskeldi í sjókvíum í Jökulfjörðum.
Í bókun bæjarráðsins segir að það telji ekki tímabært að takmarka eða banna fiskeldi í Jökulfjörðum. Telur bæjarráðið mikilvægt að taka vel ígrundaðar ákvarðanir um framtíðar uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum þ.m.t. í Jökulfjörðum.
Leggur bæjarráðið áherslu á að hefja vinnu við að meta borðarþol Jökulfjarða og áhættumeta m.t.t. erfðablöndunar við villta laxa. Þá leggur bæjarráðið til að unnin verði samfélagsleg greining á áhrifum af hugsanlegu fiskeldi í Jökulfjörðum , sem verði svo notað til hliðsjónar við ákvörðun um framtíðaruppbyggingu.“ (birt á bb.is)
Matvælastofnun veitti í vikunni Löxum á Reyðarfirði rekstrarleyfi til að bæta 3000 tonnum við eldi fyrirtækisins í Reyðarfirði. Fyrir hefur það leyfi til að ala 6000 tonn af laxi. Fyrirtækið mun þar með hafa leyfi til að rækta allt að 9000 tonn af laxi. Nýstaðfest áhættumat gerir ráð fyrir að þar sé hægt að rækta allt að 14.000 tonn.
Tók stjórnsýsluna 8 ár að taka afstöðu til umsóknar Laxa
Umsókn fyrirtækisins um aukin leyfi hafa verið hafa verið til meðferðar í stjórnsýslunni frá árinu 2012. Það hefur tekið Laxa 8 ár að fá tilskilin leyfi til að rækta 9000 tonn af laxi þar sem áhættumat Hafró gerir ráð fyrir að hægt sé að rækta allt að 14.000 tonn eða 5000 tonnum meira en Matvælastofnun hefur veitt Löxum hingað til.
Á meðan hagfræðingar klóra sér í hausnum yfir því hvernig hægt verði að skapa auknar útflutningstekjur, blasa tækifærin við með því að nýta að fullu það áhættumat sem nú liggur fyrir og koma á skilvirkri stjórnsýslu þar sem umsóknir byggðar á lagalegum forsendum innan áhættu- og burðþolsmats Hafró, eiga að flæða í gegnum kerfið.
Leyfi sem stranda í skúffum stjórnsýslunnar í 3000 daga eins og í tilviki Laxa á Reyðarfirði, eru dýru verði keypt. Ríkið hefur nú þegar orðið af milljörðum í auknum gjaldeyristekjum með gildar umsóknir sem þorna upp í skúffum ríkisstofnanna árum saman á meðan þær hefðu skapað verulegar tekjur og aukið lífsgæði fjölskyldna á landsbyggðinni þar sem laxeldið er nú þegar orðin lífæð samfélaga sem voru þar til fyrir stuttu, að þrotum komin.
Laxar hafa eftir 8 ára umsóknarferli fengið leyfi til ræktunar á 9000 tonnum af laxi eftir að Matvælastofnun veitti þeim leyfi til að auka ræktun sína um 3000 tonn á svæði þar sem áhættumat Hafró gerir ráð fyrir að óhætt sé að rækta 14.000 tonn. Á sama tíma ráðleggur Hafró 6% lækkun á aflamarki þorsks og að útflutningstekjur þorsks munu þar af leiðandi minnka á næstu árum.
Fullnýta áhættumatið og eldið um 5000 tonna
Með nýtingu á leyfum til laxeldis byggðum á núverandi áhættumati getur verðmæti 5000 tonna laxeldis jafnað út afleiðingar 6% lækkunar á aflamarki þorsks þannig að útflutningstekjur myndu ekki minnka. Tækifærin eru til staðar. Ekki bara í Reyðarfirði þar sem Hafró heimilar 5000 tonna meiri ræktun en úthlutað hefur verið.
Tækifærin eru víða og þau þarf að nýta. Nú sem aldrei fyrr þarf að einfalda ferla þannig að umsóknir flæði í gegnum kerfið hratt og vel samkvæmt lögum og reglum sem fyrir liggja. Tækifærið er hér og nú til að byggja upp verðmætt, umhverfisvænt og sjálfbært laxeldi sem hefur lítil sem engin áhrif á kolefnissporið í öðrum samanburði við greinar sem skapa viðlíka útflutningstekjur.