Laxaræktun á landi margfalt dýrara en í sjó

Töluverður áróður á sér stað gegn ræktun á laxi í sjó og vilja „umhverfisverndarsamtök“ meina að ræktun á landi sé umhverfisvænna en nútíma ræktun á sjó.  Staðreyndin er hinsvegar sú að ræktun á laxi í sjó er einhver umhverfisvænasta ræktun á próteini til manneldis og hefur matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt þjóðir heimsins til að auka ræktun á sjó. Í skýrslu matvælastofnunar UN er sjórinn kallaður akur framtíðarinnar í því ljósi að megnið af allri matvælaframleiðslu á sér stað á landi og landrýmið aðeins um 30% af yfirborði jarðar sem að mestu er þakið sjó þar sem eru tækifæri til að stunda umhverfisvæna ræktun í náttúrulegum aðstæðum með nútímatækni.

Frændum okkar í Færeyjum hefur tekist að umbylta lífskjörum þjóðarinnar með farsælu sjóvkíeldi sem hefur skapað útflutningstekjur sem hafa sannarlega bætt lífsgæði færeyinga. Vaxandi eftirspurn er eftir dýrmætum Atlantshafslaxi úr sjálfbæri ræktun sem líklega eru ein næringaríkastu matvæli sem ræktuð eru og vinsældir laxins hafa stöðugt aukist frá ári til árs.

Regin Jacobsen forstjóri Bakkafrost í Færeyjum blæs á áróður gegn sjókvíeldi og hugmyndum „umhverfisverndarsamtaka“ um verksmiðjuræktun á laxi í landi. Gríðarlega raforku þarf til að reksturs slíkra verksmiðja, verðmætt ferskvatn og landrými sem er takmarkað til framtíðar. “ Það kostar okkur 700 milljónir danskra króna (11,6 milljarða isk) að rækta 30.000 rúmmetra á landi. Í sjókvíeldi kostar samsvarandi ræktun okkur 3 milljónir danskra króna, (50 milljónir isk).“ segir Regin sem bendir á að hröð þróun eigi sér stað í greininni sem gengur út á að lágmarka ræktunartíma í sjó með því að setja út stærri seiði til skemmri tíma.

„Við höfum tækifæri til að þróa jafnvægi á milli verksmiðjuræktunar á landi og ræktunar í sjó sem mun auka tekjurnar og fækka áhættuþáttum ræktuninnar,“ segir Regin.