Kjartan Ólafsson skrifar:
Nú þegar við stöndum andspænis nýjum áskorunum í efnahagslífinu og útlit er fyrir samdrátt í einni stærstu atvinnugrein landsins þá þykir væntanlega mörgum athyglisvert að heyra að Íslendingar geti á næstu árum margfaldað verðmæti þeirra sjávarafurða sem við flytjum út. Hvernig? Jú, með því að rækta bláu akrana sem finnast í efnahagslögsögu landsins. Við Íslendingar urðum ein fremsta fiskveiðiþjóð heims á nýliðinni öld.
Ræktun fisks er hins vegar í dag orðin stærri hluti sjávarútvegs en fiskveiðar á heimsvísu. Íslendingar voru, þrátt fyrir að vera öflug sjávarútvegsþjóð, lengi eftirbátur annarra í þessari þróun en á sama tíma óx fiskeldinu ásmegin hjá nágrannaþjóðum okkar við Norður-Atlantshafið. Færeyingar ala nú um 80.000 tonn af hágæðalaxi og hafa tvöfaldað samanlagt útflutningsverðmæti allra sjávarafurða sinna síðastliðinn áratug. Uppbygging fiskeldis Færeyinga hefur krafist þrautseigju og áræðis en með skýrri stefnumótun yfirvalda hefur undraverður árangur náðst. Sömu sögu má segja frá Skotlandi, austurströnd Kanada og að sjálfsögðu Noregi en þar er laxeldið orðið ein mikilvægasta atvinnugreinin, ekki síst í strandbyggðum landsins.
Við Íslendingar höfum á síðustu árum fylgt í kjölfar þessara þjóða og lagt aukna áherslu á eldi samhliða hefðbundnum veiðum. Við ræktum nú gæðafiskafurðir á sjálfbæran hátt um allt land og flytjum út fyrir tugi milljarða á ári.
Bætt tækni og áhersla á umhverfisvernd
Tækni í fiskeldi hefur fleygt mikið fram síðustu ár. Bæði vegna virkrar stefnumótunar stjórnvalda fiskeldisþjóða og aukinnar þekkingar og reynslu fiskeldisfyrirtækja. Hvort tveggja á stóran þátt í mikilli og hraðri framþróun eldisbúnaðar og eldistækni.
Fjölmörg spennandi þróunarverkefni eru nú vel á veg komin og önnur eru í burðarliðnum. Dæmi um slík verkefni eru endurnýtingaraðferðir vatns við eldi á landi og tilraunir með sterkbyggðan kvíabúnað, að fyrirmynd olíuborpalla, fjær ströndinni og nær opnu úthafinu bæði í Noregi og Skotlandi. Í Færeyjum er unnið samhliða fiskeldinu að áhugaverðu sjóeldi á þara og þangi og einnig nýtingu lífræns affalls til rafmagnsframleiðslu. Veruleg framþróun hefur orðið í eldi á þorski þar sem umtalsverðar kynbætur hafa átt sér stað. Þetta er jákvætt í ljósi þess að þorskverð er nú mun hærra en það var við fyrri tilraunir til að rækta þorsk. Skýr lagarammi og stefnumörkun af hálfu yfirvalda hafa einnig verið frumforsenda þess að lagt var af stað í slík verkefni.
Íslendingar eiga að vera framarlega í nýsköpun sjávarútvegs
Íslenska efnahagslögsagan, firðir, flóar og strandlengja, bjóða upp á mikla framleiðslugetu sjávarfangs með umfangi sínu og víðáttu. Burðarþol þeirra fjarða og flóa sem Hafrannsóknastofnun hefur þegar metið er í heildina rúm 140 þúsund tonn, margfalt það magn sem fiskeldisfyrirtækin hafa nú leyfi til að ala í þessum fjörðum. Enn er eftir að meta nokkra firði þannig að burðarþol þeirra svæða sem henta og þola fiskeldi að mati vísindamanna og eftirlitsstofnana gæti verið nær 200 þúsund tonnum. Heildarburðarþol strandlengjunnar er þó líklega mun meira eða um 500.000 tonn. Með 500.000 tonna ársframleiðslu af laxfiski mætti margfalda útflutningsverðmæti sjávarafurða og fylgja þar með farsælli vegferð vinaþjóða okkar.
Með því væru Íslendingar að byggja ofan á aldalanga reynslu sína af fiskveiðum, vinnslu og markaðssetningu sjávarafurða. Það er bæði skynsamlegt og gæti einnig verið nauðsynlegt til að verja stöðu okkar, nú þegar eldi sjávarafurða er orðið umfangsmeira en fiskveiðar í heiminum.
Ábyrg nýting
Með áframhaldandi þróun bættrar tækni við fiskeldið og nýjum eldisaðferðum gæti burðarþol íslensku lögsögunnar og verðmæti hennar aukist enn frekar í framtíðinni. Nýting burðarþols er í raun kjarninn í nýtingarstefnu þeirri sem Íslendingar hafa fylgt varðandi villta fiskistofna í efnahagslögsögu landsins.
Mat vísindamanna og úthlutun veiðiheimilda hefur tryggt sjálfbæra nýtingu þeirra náttúrulegu auðlinda sem fiskistofnarnir eru og byggt hafa upp samfélag okkar. Nýting á mögulegu burðarþoli í fiskeldi er hins vegar enn takmörkuð vegna skorts á þekkingu og reynslu hér á landi og ótta ýmissa hagsmunaaðila við þessa nýju atvinnugrein. Sá ótti er hins vegar ástæðulaus. Sömu forsendur eiga við um sjálfbæra og ábyrga nýtingu, hvort sem um er að ræða fiskeldi eða fiskveiðar.
Fiskveiðiþjóð í góðri stöðu til að verða fiskeldisþjóð
Aukinn útflutningur sjávarafurða væri ekki aðeins mikilvæg búbót fyrir þjóðarbúið heldur fæli slíkt í sér umtalsverð samlegðaráhrif við hefðbundinn sjávarútveg þar sem útflutningstekjur hafa í raun staðið í stað undanfarin ár. Virðiskeðja hefðbundins sjávarútvegs á heilmikla samlegð með fiskeldi, bæði hvað varðar framleiðslu, vinnslu, dreifingu og sölu svo ekki sé nú minnst á þessi rúm 100.000 tonn af mjöli og lýsi sem við flytjum mestmegnis til Noregs sem fiskimjöl og kaupum svo aftur í formi fiskifóðurs.
Það þarf tæpast að fjölyrða um söguleg og menningarleg tengsl landsins við hágæðasjávarafurðir og það samkeppnisforskot sem slíkum metnaði og ástríðu fylgir. Við höfum byggt upp frábær vörumerki fyrir sjávarafurðir. Ísland er þekkt fyrir fisk og um allan heim er fólk tilbúið að greiða hátt verð fyrir íslenskan fisk.
Mikilvæg stökk í verðmætum sjávarafurða frá Íslandi
Framfaraskrefin hafa verið fjölmörg en oft komið í stökkum frekar en með hægfara breytingum. Sjávarafurðir frá Íslandi voru fyrst seldar frystar til Bandaríkjanna um árið 1930 og fyrsti frystitogarinn kom til Íslands um 1970. Nú er svo komið að stærstu sjávarútvegsfyrirtæki nágrannalanda okkar eru sum ein og sér með meiri umsvif og framleiða meiri verðmæti en heildarútflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða. Þetta eru beinir keppinautar Íslands. Stærð þeirra gerir þeim kleift að tryggja bæði meira afhendingaröryggi og fjölbreyttara vöruúrval en við getum boðið. Þetta gerir þá að álitlegum birgjum fyrir alþjóðlega stórkaupendur og verslanakeðjur.
Ef fram undan er frekari umbreyting á virðiskeðjunni þá vitum við að slíkar breytingar á atvinnuháttum krefjast viðbragða til að verja samkeppnishæfni íslensku þjóðarinnar. Til þess þarf skýra stefnu og sýn stjórnmálanna. Veruleikinn er sá að meirihluti heimsframboðs sjávarafurða kemur nú þegar úr fiskeldi. Ástæðan er einföld. Lágt hlutfall fóðurs á hvert framleitt kíló miðað við aðra matvælaframleiðslu gerir fiskeldið að einhverri umhverfisvænustu matvælaframleiðslu úr dýrapróteinum sem völ er á.
Áhersla á minni kjötneyslu og aukna neyslu fisks og annarra matvæla eru aukinheldur eitt nærtækasta úrræðið sem við höfum til lækkunar kolefnisspors. Því felast mikil tækifæri fyrir Íslendinga í að rækta fisk á bláu ökrunum okkar með stóraukinni áherslu á fiskeldi. Skýr stefna og markmiðasetning yfirvalda er nauðsynleg til að byggja ofan á þekkingu okkar og reynslu í sölu og framleiðslu sjávarafurða og tryggja þannig stöðu okkar sem leiðandi sjávarútvegsþjóð í heiminum til framtíðar.
Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og stjórnarmaður í Arnarlaxi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, laugardaginn 23. mars 2020 og er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.