Ráðleggur ríkisstjórn að hraða uppbyggingu sjókvíeldis

Í nýlegri skýrslu sem alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Co, vann fyrir ríkisstjórn Nýfundnalands og Labrador er lögð sérstök áhersla á laxaeldi sem eitt af 6 framtíðarverkefnum sem skapa mestu tækifærin til að auka útflutningstekjur og skapa aukin atvinnutækifæri.  McKinsey & Co leggur til að ríkisstjórnin ætti að leggja sérstaka áherslu á að byggja upp aukið sjókvíeldi á laxi vegna stöðugrar og vaxandi eftirspurnar á mörkuðum um allan heim. Ástæða þess að farið var í ítarlega greiningu á tækifærum til tekjusköpunar á svæðinu er vegna efnahagshruns í héraðinu í kjölfar lægra hrávöruverðs árið 2013. Atvinnuleysi er næstum þrisvar sinnum hærra en landsmeðaltal og yfir 20% þar sem það er verst á landsbyggðinni.

McKinsey segir að laxeldi sé „óvenjulega aðlaðandi tækifæri“ fyrir héraðið vegna vaxandi eftirspurnar og alþjóðlegum framboðstakmörkunum.  Hjá nágrannaþjóðinni, þ.e. í Bandaríkjunum er gert ráð fyrir áframhaldandi aukinni eftirspurn og að árlegur vöxtur verði um eða yfir 8%.  Það er um 2% meiri markaðseftirspurn en á alþjóðlegum mörkuðum þar sem vöxturinn verður að meðaltali 6% á ári.  Vinsældir laxins hafa aldrei verið meiri og aukast ár frá ári m.a. vegna þess að í Bandaríkjunum hefur laxinn verið skilgreindur sem „super“ fæða vegna þess hversu einstaklega næringaríkur hann er og meðvitund fólks gagnvart heilsusamlegum og ekki síður umhverfisvænum matvælum er stöðugt að aukast.

Ráðgjafar McKinsey & Co leggja til að ríkistjórnin geri áætlanir um uppbyggingu á laxeldi með það að markmiði að árið 2023 eða innan 4 ára verði árleg framleiðsla í sjókvíeldi á laxi  50.000 tonn.  Í sérstöku minnisblaði ráðgjafa McKinsey & Co til ríkisstjórnarinnar „Leiðin áfram í uppbyggingu fiskeldis,“ er sérstök greining um mikilvægi uppbyggingar á sjókvíeldinu og áhrif þess að ná þeim framleiðslumarkmiðum sem skilgreind eru í skýrslunni. Þar kemur m.a. fram að framleiðsla gæti fimmfaldast miðað við það sem hún er nú og ætti að geta orðið um 100.000 tonn árið 2030. Helstu forsendurnar fyrir niðurstöðum McKinsey eru góðar náttúrulegar aðstæður héraðsins til laxeldis, auk þess sem stórfyrirtæki í sjókvíeldi eins og Mowi, Cooke og Grieg eru stöðugt að leita tækifæra í fjármögnun nýrra verkefna til að mæta vaxandi eftirspurn markaðarins.

Í skýrslunni segir enn fremur að laxeldi gæti skapað 7.800 ný störf og landsframleiðslu sem mun í það minnsta skapa rúma 50 milljarða árið 2030, með nýjum tekjustofni fyrir  landsbyggðina. Sjókvíeldi á laxi er talinn besti valkosturinn af sex sem nefndir eru í skýrslunni í þeim tilgangi að skapa aukin atvinnutækifæri á landsbyggðinni og 3 besti kosturinn í þeim tilgangi að auka landsframleiðslu (á eftir aukinni olíu- og námuvinnslu).

Það er mat ráðgjafa McKinsey & Co að mikil tækifæri felist í uppbyggingu á sjókvíeldi á laxi sem mun skapa atvinnu og verða virðisaukandi fyrir landbyggðina.  Sjókvíeldi einstaklega umhverfisvænt, kolefnisspor þess er mjög lítið í samanburði við aðra ræktun matvæla auk afar lítillar notkunar ferskvatns sem er ein af takmörkuðum auðlindum umhverfisins.

Hér má nálgast skýrslu alþjóðlega ráðgjafafyrirtækisins McKinsey & Co