„Alþjóðleg eftirspurn eftir fiski og sjávarafurðum, sem próteinríkrar fæðu, hefur aukist umtalsvert síðustu áratugina. Talið er að eftirspurnin eigi enn eftir að aukast vegna mannfjölgunar í heiminum. Í ljósi þess og áður óþekkts veiðiálags á marga fiskistofna, er ljóst að heimurinn þarfnast fiskeldis“.
Þannig er komist að orði í fréttatilkynningu ríkisstjórnar Kanada, þar sem fylgt er úr hlaði stefnumótun um fiskeldi. Í Kanada er fiskeldi umsvifamikið. Í því sambandi er nefnt að um sé að ræða um 450 milljarða atvinnugrein sem skapi 25 þúsund störf. Tveir þriðju hlutar fiskeldis í Kanada fer fram í ríkinu Bresku Kólombíu.
Kanadískir fiskeldismenn fagna
Kanadískir fiskeldismenn fagna frumkvæði stjórnvalda og líta á sem lið í því að styrkja stefnumótunina og regluverkið, sem stuðla muni að uppbyggingu sjálfbærs laxeldis í Kanada.
Ríkisstjórn Kanada í samstarfi við héruðin, fiskeldisiðnaðinn, frumbyggja, umhverfissamtök og aðra hlutaðeigandi hafa lýst því yfir að „við verðum að vinna saman að því að til staðar sé efnahagslega hagkvæm og umhverfislega sjálfbær leið fiskeldis til framtíðar.“
Stefnumörkun í mörgum liðum
Í því sambandi hefur verið sett fram stefnumótun í fjölmörgum liðum sem lið í því að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið fram um fiskeldi sem sé efnahagslega hakvæm og sjálfbær.
Þar má nefna vinnu við þróun nýrra eldisaðferða, aukna aðkomu héraða og svæða að stjórn fiskeldis, félagslegir og efnahagslegir þættir séu teknir inn í myndina þegar verið er að ákvarða möguleg eldissvæði, gerð eins konar áhættumats til þess að tryggja sjálfbærni, heildrænt regluverk um fiskeldi og gagnsæi.
1, 9 milljarða stuðningur frá kanadíska ríkinu
Í þessu samhengi er lagt til að varið verði 1,9 milljörðum úr ríkissjóði til þess að ná markmiðunum. Í fréttatilkynningu stjórnvalda er sagt að í þessari stefnumótun felist heildstæðari aðferð við stjórn fiskeldisins sem leiði í senn til aukinnar atvinnusköpunar og vernd umhverfisins.
Jonathan Wilkinson sjávarútvegsráðherra Kanada og Lana Popham landbúnaðarráðherra British Columbia hafa báðir fagnað þessari stefnumótun. Wilkinson segir að þetta sé liður í því að strandbyggðirnar búi við langtíma sýn um tækifæri í sjálfbæru fiskeldi jafnframt því sem girt sé fyrir áhættu fyrir lífríkið.