Aðeins aukinn útflutningur getur bætt lífskjörin

Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva skrifar:

Flest hefur gengið okkur Íslendingum  í haginn síðustu árin. Hagkerfið okkar er  verulega stærra en það var á velmektarárunum fyrir hrun. Hagvöxtur sló flest met og var 7,5 prósent árið 2016. Lífskjörin hafa batnað meira hér á landi en þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Kaupmátturinn er rúmlega 30 prósent betri en árið 2013.

Þetta er ekki sjálfsagt mál. Á hinu rómaða evrusvæði eru efnahagsumsvifin lítið eitt hærri en árið 2008; þjóðarframleiðslan einungis aukist um 3 prósent. Með öðrum orðum: Á meðan það sem er til skiptanna er miklu meira hér á landi en fyrir hrun, er það svipað í evruheiminum.

Þurfum við þá engar áhyggjur að hafa?

En þurfum við þá engar áhyggjur að hafa? Mun þessi þróun halda áfram?

Það verður mikið vandaverk að tryggja að þjóðarkakan stækki og lífskjörin haldi áfram að batna.

Við getum auðvitað reynt að fara gamalkunna leið. Slá lán á kostnað komandi kynslóða, halda þannig  uppi umsvifum, hagvexti og hækka laun. Sú leið er skammgóður vermir og hefnir sín þegar fram í sækir. Sú ein leið er fær til framtíðar að tryggja vöxt efnhagslífsins; stækka þjóðarkökuna með auknum útflutningi.

Aðeins aukinn útflutningur getur bætt lífskjörin

Eigi íslenska efnahagslífið að vaxa áfram á sama hraða og að meðaltali síðustu áratugi, og útflutningsgreinar að halda sínu vægi í verðmætasköpuninni, þarf útflutningsverðmæti að vaxa um 1.000 milljarða á næstu 20 árum. Það gerir um 50 milljarða á ári eða 1 milljarð á viku. Af þessu leiðir að við þurfum mjög á því að halda að auka útflutningsverðmæti okkar og fjölga stoðum útflutningsins til þess að bæta lífskjörin.

Fiskeldið getur orðið mikilvægur þáttur í þeirri vegferð og hefur allar forsendur til þess. Á þessu ári er áætlað að laxeldisframleiðslan ein og sér hér á landi geti numið um 12 til 15 milljörðum og á næsta ári nálægt 23  milljörðum króna. Er þá ótalin framleiðsla á öðrum tegundum, svo sem bleikju, regnbogasilungi, senegalflúru og hrognkelsaseiðum.

Þetta skiptir ekki síst miklu máli núna í ljósi þess að útflutningsverðmæti sjávarútvegs minnkaði á síðasta ári og horfur virðast á að vöxtur ferðaþjónustunnar fari minnkandi.

Við eigum því í rauninni bara einn kost í stöðunni. Auka útflutningsframleiðsluna. Öðruvísi getum við ekki bætt lífskjörin til nokkurrar framtíðar.

Alls staðar stefnt að auknu fiskeldi

Það er ekki tilviljun að öll þau lönd sem geta komið við fiskeldi, stefna að aukningu þess. Það á við um Noreg, Írland, Skotland, Færeyjar, Bandaríkin, Kanada. Hið mikla Evrópusamband ætlar að beita skattalegum og efnhagslegum hvötum, auk ríkisstyrkjum, til þess að auka hjá sér fiskeldið. Þessi lönd og ríkjasambönd gera sér nefnilega grein fyrir því eina leiðin fram á veginn í efnahagslegu tilliti liggur í gegn um aukinn útflutning og þar getur fiskeldið skipt verulegu máli.

Útflutningsverðmæti laxeldis verður meira en alls uppsjávarfisks

Það á ekki síst við á Íslandi. Ætla má að innan ekki margra ára verði útflutningsverðmæti laxeldis héðan orðið meira en alls uppsjávarfisks; loðnu, síldar, kolmunna og makríls. Það munar sannarlega um minna. Það sjáum við einfaldlega með því að skoða efnahagsleg og byggðaleg áhrif uppsjávarveiða og vinnslu hér á landi. Engum dyti í hug að gera lítið úr áhrifum uppsjávarframleiðslunnar. Sama er að segja um fiskeldið. Það er því komið til að vera, eins og stjórnvöld hafa margsinnis áréttað.

Eigum engan annan kost

Í þágu áframhaldandi efnahagslegrar velgengni og til að tryggja betri lífskjör, eigum við engan annan kost en að efla útflutningsframleiðsluna okkar á sem flestum sviðum. Fiskeldi hér á landi getur orðið stór þáttur í þeirri fyrirætlan okkar.